Tónlistarkonan Madonna hefur rofið þögnina eftir að bróðir hennar Anthony Ciccone lést á sunnudaginn, 66 ára að aldri.
Madonna minnist hans með hlýju og telur upp það sem hann kenndi henni í lífinu.
„Takk fyrir að víkka sjóndeildarhringinn minn þegar ég var ung stúlka og kynna mig fyrir Charlie Parker, Miles David, Búddisma, Taóisma, Charles Bukowski, Richard Brautigan, Jack Kerouac, að hugsa út fyrir kassann,“ sagði Madonna á Instagram og bætti við: „Þú sáðir mörgum mikilvægum fræjum.“
Anthony var elstur í fimm systkina hóp. Hann hafði í lífinu glímt við alkóhólisma og heimilisleysi. Hann vildi ekki vera þekktur fyrir það að vera bróðir Madonnu og kærði sig ekki um ölmusu frá henni. Hann sagði í samtali við Daily Mail árið 2011 að fjölskylda hans hefði snúið við honum bakinu en á þeim tíma bjó hann undir brú í svefnpoka.
„Ég er ekkert í þeirra augum; ekki manneskja heldur smánarblettur. Ef ég frysi til dauða myndi fjölskyldu minni áreiðanlega standa á sama og ekki komast af því fyrr en eftir hálft ár.“
Hann sagði að hann væri ekki að leita eftir ölmusu frá systur sinni, sem þó hafði ítrekað reynt að koma honum í meðferð og faðir hans hafði sagt honum að hans biði vinna ef hann gæti bara þegið þá aðstoð sem honum stæði til boða.
Það gekk þó loks eftir árið 2017 þegar hann fór loks í meðferð og sneri aftur til fjölskyldu sinnar.