Maríanna Pálsdóttir, snyrti- og förðunarfræðingur og eigandi Snyrtistofu Reykjavíkur, er pistlahöfundur á DV. Hún kemur til dyranna eins og hún er klædd og skrifar hreinskilna pistla um snyrtivörubransann og öðru því tengdu.
Sjá einnig: Maríanna segir skyndilausnum til syndanna
Notkun útlitsbreytandi filtera, sem hannaðir eru til að lappa upp á raunverulegt útlit okkar, felur í sér ákveðna afneitun gagnvart okkur sjálfum og því hver við raunverulega erum.
Ég tek það skýrt fram að ég hef sjálf gerst sek um notkun umræddra filtera. Ég hef póstað slíkum myndum á mína miðla og meira að segja taldi ég mér trú um að það tæki enginn eftir fölsuninni. Á köflum fannst mér ég raunar vera með nokkuð lýtalausa húð, hærri kinnbein, ýktari kjálkalínu, lengri augnhár og svo framvegis. Sjálfsafneitunin getur varla orðið mikið meiri er það?
Hjálpi mér hvað ég var ánægð þegar ég hætti að nota þetta drasl. Ég er nefnilega langbest bara eins og ég er, venjuleg kona og móðir sem eldist suður en ekki norður og sleppa því bara alfarið að líta út eins og dúkka, sem skyndilega er komin með stærri augu, nýjan augnlit og mjórra nef. Því sú þróun sem orðið hefur í heimi filteranna þykir mér vægast sagt ógnvænleg.
Reglulega fá ljósmyndarar beiðni um að fótósjoppa módel sín og ég velti því oft fyrir mér hver tilgangurinn sé með slíku. Viljum við ekki að neinn viti hvernig við raunverulega lítum út? Stundum gengur það meira að segja svo langt að viðkomandi aðili verður nær óþekkjanlegur við lokaútkomu unna efnisins. Það gerist líka allt of oft að ljósmyndarar fá að heyra setningar eins og „Bíddu, lít ég bara svona út?“
Erum við að týna okkur algjörlega?
Sjálfsmyndin skekkist og spegilinn verður óvinur þinn með tímanum, því hann sýnir þér þig án filters…í það minnsta enn sem komið er. Ég segi það að minnsta kosti fyrir mína parta að ég hef sagt skilið við þann óvin sem filterinn er og vona að framtíðin færi okkur blátt bann við þessu meini.
Við eigum ekki að þurfa neinn Instagram-filter til þess að vera metin að verðleikum. Svona fyrir utan það að í ýktustu tilvikunum eins og myndin sýnir hér að ofan er þetta nú bara orðið hálf vandræðalegt ekki satt?
Höfundur: Maríanna Pálsdóttir, förðunar- og snyrtifræðingur.
Fylgdu henni á Instagram.