Ofurfyrirsætan Stephanie Seymour er í forsíðuviðtali nýjasta tölublaðs WSJ. Magazine. Í viðtalinu minnist Seymour Harry sonar síns og þeirra sem stóðu við bak hennar í sorgarferlinu eftir fráfall hans.
Tvö ár eru liðin frá því Harry Brant lést, þá 24 ára gamall. Banamein hans var of stór skammtur lyfseðilskyldra lyfja, en allt bendir til að andlát hans hafi verið slys.
Seymour segist hafa fókusað á að gera hluti sem hún taldi að sonur sinn hefði elskað að gera sjálfur og segir það hafa hjálpað henni í sorgarferlinu. Meðal annars að finna ný not fyrir uppáhalds flíkur Harry og í myndatöku fyrir forsíðuviðtalið gerir Seymour akkúrat það. Harry sá oft um að stílisera móðurina fyrir myndatökur hennar. Á einni myndanna má sjá hana klæðast uppáhalds jakkafötum Harry, hönnuð af Hedi Slimane fyrir Saint Laurent. Seymour klæðist buxunum og hylur barm sinn með jakkanum, meðan hún snýr bakinu að myndavélinni með nafn sonarins málað á bakið.
„Jakkafötin hanga í fataherberginu mínu, stóru rými þar sem ég geymi allt mitt dót. Ég farða mig þar. Ég bý í þessu herbergi. Ég horfði á fötin eitt kvöldið og sagði við sjálfa mig: „Ég ætla að máta þau.“ Og þau pössuðu mér. Það er góð tilfinning að klæðast fötum Harry,“ segir Seymour og segist ætla að halda áfram að mynda föt sonarins af því að hann myndi elska það. „Og það eru margar konur til í að klæðast fötunum hans og láta mynda sig.“
Barnabörnin hafa einnig hjálpað henni í gegnum sorgarferlið. „Ég reyni að vera bara til staðar. Jólin og aðrar hátíðir eru erfiðar, og ég er viss um að margir geta tengt við það, af því ég hugsa um þann sem vantar. Enginn hjálpaði mér betur í gegnum sorgina eins og barnabörnin gerðu.“ Yngsta barnabarnið fæddist í október 2022 og fékk nafn frænda síns Harry.
Í janúar 2021 sendu Seymour og eiginmaður hennar, Peter Brant, frá sér tilkynningu um að Harry hefði tapað baráttu sinni við fíknina og látist vegna ofskömmtunar lyfseðilskyldra lyfja, bendi allt til að andlát hans hefði verið slys. „Hjörtu okkar eru kramin, Harry vildi sigrast á fíkn sinni og átti að leggjast inn á meðferðarstofnun nokkrum dögum seinna. Harry var ekki aðeins sonur okkar, hann var yndislegur bróðir og barnabarn, uppáhalds frændi og umhyggjusamur vinur. Hann var skapandi, elskaður og kraftmikill og færði hlýju í hjörtu margra. Hann var falleg manneskja að innan sem utan.“