Karl Björgvin Brynjólfsson hefur fengið viðurnefnið „HM-karlinn“ fyrir viðbrögð sín og innlifun yfir landsleikjum Íslands. Viðurnefnið fékk hann þegar dóttir hans, Edda Mjöll Dungal Karlsdóttir, birti myndband af honum að horfa á leik Íslands og Tyrklands í undankeppni HM í sjónvarpinu. Síðan þá hefur Edda birt fleiri myndbönd af ofsafengnum viðbrögðum föður síns yfir íþróttaleikjum sem slá yfirleitt rækilega í gegn. Í viðtali við mbl.is á sínum tíma útskýrði Edda að hún þyrfti að vera með falda myndavél því annars verður faðir hennar svo var um sig.
Upphaflega vildi Karl ekki ræða um myndbandið sem dóttir hans birti. Þegar blaðamaður mbl.is hringdi á sínum tíma sagði hann ekkert í 15 sekúndur en svo sagði hann einfaldlega: „Stelpan er að drepa mig.“ Edda útskýrði að honum hafi fundist hann fá of mikla athygli út af myndbandinu og því tók hún það út. Síðar fékk hún leyfi frá föður sínum til að birta myndbandið á ný og síðan þá hefur þeim fjölgað með hverju stórmótinu.
Í nýjasta myndbandinu horfir Karl þó ekki á leikinn í gegnum sjónvarpið. Hann og Edda gerðu sér nefnilega bæði ferð til Svíþjóðar og sáu Ísland leggja Portúgal í fyrsta leiknum á HM í handbolta. Að sjálfsögðu var Edda með myndavélina falda og náði viðbrögðum föður síns er hann missti sig enn á ný. „HM Karlinn lætur sig ekki vanta í Svíþjóð,“ skrifar Edda með myndbandinu sem hún birti á samfélagsmiðlinum TikTok.
Myndbandið er stórskemmtilegt en það má sjá hér fyrir neðan:
@chuggeddaHM Karlinn lætur sig ekki vanta í Svíþjóð🤩🇮🇸♬ original sound – ChuggEDDA
Karl hefur náð að hefna sín á Eddu fyrir myndböndin en fyrir tæpum tveimur árum síðan auglýsti hann eftir mökum fyrir hana og bróður hennar, Kristófer. Í þessari óvenjulegu auglýsingu, sem stillt var upp á Glerártorgi á Akureyri, kom fram að systkinin væru í makaleit og að þau væru stödd á Akureyri um helgina vegna þess.
Lesa meira: Karl gerði börnum sínum grikk á Akureyri – Gekk þessi pabbabrandari of langt?