Justin Roiland er maðurinn á bak við raddir Rick og Morty í samnefndum teiknimyndaþáttum sem hafa notið mikilla vinsælda. En hann bjó þættina einnig til ásamt Dan Harmon.
Hann hefur nú verið sakaður um að hafa beitt fyrrverandi kærustu sína ofbeldi og bíður þess að málið verði tekið fyrir af dómstólum.
Justin hefur neitað sök i málinu sem varðar atvik sem átti sér stað í janúar árið 2020. Einhvern veginn hefur málið farið fram hjá fjölmiðlum hið ytra þar til nú, en greint var frá málinu fyrst í gær eftir að Justin hafði mætt fyrir dóm í undirbúningsþinghald.
Verði hann fundinn sekur á hann yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi.
Honum er gert að sök að hafa beitt heimilisofbeldi sem leiddi til alvarlegra meiðsla, auk frelsissviptingar af ásetningi.
Meintur þolandi hans hefur fengið nálgunarbann gegn honum og auk þess var Justin gert að láta af hendi öll skotvopn sín á meðan mál hans er til meðferðar.
Næsta þinghald í málinu verður í apríl.