fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Ótrúleg dirfska pólsku hjúkrunarkonunnar – Faldi tólf gyðinga inni á heimili yfirmanns nasista

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Þriðjudaginn 10. janúar 2023 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á árum seinni heimsstyrjaldarinnar bjargaði pólska hjúkrunarkonan Irene Gut lífi tólf gyðinga með því að fela þá þar sem nasistum datt síst í hug að leita.

Á heimili yfirmanns þýska setuliðsins. 

Á styrjaldarárunum var Irene margoft handtekin, henni nauðgað auk þess sem hún þurfti að þola grimmdarlegur yfirheyrslur, bæði af hálfu nasista og Sovétmanna.

Irene Gut Opdyke á stríðsárunum

Virtist ekki raunverulegt

Irene Gut fæddist í litlu þorpi í Póllandi árið 1922 og þegar hún var 16 ára hóf hún nám í hjúkrun. Ári síðar réðust Þjóðverjar inn í Pólland og líf Irene varð aldrei hið sama.

Haustið 1939 gekk Irene í pólska herinn ásamt öðrum hjúkrunarnemum og hóf störf á hersjúkrahúsi.

„Í byrjun fannst mér ástandið ekki vera raunverulegt, mér fannst eins og ég væri að leika hlutverk,“ skrifaði Irene síðar í ævisögu sinni.

En ástandið varð býsna alvarlegt býsna hratt.

Það sem öllu breytti

Þegar Sovétmenn réðust inn í Pólland var Irene handtekin, hún barin, henni nauðgað og send til starfa á sovéskum spítala allt þar til fangaskipti gerðu henni kleift að snúa aftur til Póllands.

Pólland var þá að fullu hernumið af nasistum sem sendu Irene til starfa í vopnaverksmiðju. Eiturefnin við framleiðslu vopnanna fóru illa í Irene og þegar að leið yfir hana var hún færð í eldhúsið og gert að aðstoða við matargerð fyrir þýska hermenn.

Einn góðan veðurdag var Irene send út í erindi og varð þá vitni að atburði sem átti eftir að brenna sig inn í huga hennar og hjarta til lífstíðar. Hún sá þýskan hermann rífa ungabarn úr örmum móður og henda því í jörðina.

Móðirin var gyðingur og barnið lést.

Á því augnabliki ákvað Irene að hún myndi nota hvert einasta tækifæri sem henni gæfist til að hjálpa gyðingum.

Vinirnir í þvottinum

Það leið ekki á löngu þar til Irene sá kom auga á tækifærið og eins og hún sagði síðar við dóttur sína, þá gefst enginn tími til að hugsa undir slíkum kringumstæðum, bara framkvæma.

Irene var flutt í aðra verksmiðju, sú var í borginni Tarnopol, sem nú tilheyrir Úkraínu, og hélt hún áfram að eldan ofan í þýska hermenn. Þar kynntist hún tólf gyðingum sem unnu í þvottahúsi verksmiðjunnar við að þvo einkennisbúninga og myndaðist mikil vinátta þeirra í milli.

Þegar að Irene var að afhenda þýskum hermönnum mat heyrði  hún þá ræða um komandi niðurrif gyðingahverfanna. Hún varaði vini sína í þvottahúsinu við sem aftur vöruðu fjölskyldur sínar og vini við. Það er ekki vitað hversu nákvæmlega margir náðu að flýja, vegna orða Irene, áður en heimili þeirra voru eyðilögð, en þeir skipta sennilegast hundruðum.

Judenfrei Tarnopol

Irene hóf einnig að smygla mat inn í gyðingahverfin. „Ég vissi að það var bara dropi í hafið en það var betra en ekkert,“ segir í sjálfsævisögu hennar.

Smám saman fór Irene að heyra oftar rætt um „hina endanlegu lausn gyðingavandmálsins“ og vissi alltof vel hvað það þýddi. Árið 1943 faldi Irene sex gyðinga í vörubíl sem hún notaði til útréttinga og kom þeim út úr borginni og út í skóg. Þar biðu þeir, ásamt fleiri flóttamönnum, eftir að Irene gæti komið til þeirra vistum svo þeir næðu að flýja.

Rauði herinn flæddi yfir Pólland 1944.

Nokkrum vikum síðar heyrði Irene hermennina tala um að nú væri komið að því að Tarnopol yrði Judenfrei – án gyðinga. Irene til mikillar sorgar vissi hún að það myndi þýða að allir vinir hennar í þvottahúsinu yrðu myrtir.

Það var því makalaus, og hreinlega dásamleg tilviljun, að Eduard Rügemer, majór og yfirmaður setuliðs nasista, bauð Irene starf ráðskonu í glæsihýsi sínu í sömu vikunni.

Irene tók boðinu með þökkum.

Sagðist þegja gegn kynlífi

Næstu daga smyglaði hún vinum sínum tólf inn á heimili majórsins, fáum í einu til að vekja ekki athygli. Hún faldi þá hér og þar um húsið. Suma í kjallaranum, aðra á háaloftinu og enn aðra í búrinu. Hún dreifði vinum sínum um alla þá staði í húsinu sem hún taldi ólíklegt að Rügemer myndi eiga leið um.

Það gerði málin enn flóknari þegar síðar kom í ljós að eitt parið átti von á barni. Þau voru afar áhyggjufull um að barnið myndi koma upp um hópinn en Irene sagði lítið annað hægt en að bíða og sjá til.

Lífið í gyðingahverfunum var skelfilegt.

Irene tókst að fela alla vini sína tólf fyrir Rügemer í níu mánuði. En þá kom að því að Irene gleymdi að læsa dyrum að geymslu sem Rügemer fór inn í og fann þar nokkra af flóttamönnunum. Hann leitaði í húsinu öllu og fann á endanum allar tólf manneskjurnar, sem eðlilega voru skelfingu lostnar.

Rügemer missti sig algjörlega við Irene, sagðist hafa treyst henni og svona þakkaði hún honum fyrir? Með því að fela fólk, og það meira að segja gyðinga, í hans eigin húsi?

Irene grátbað Rügemer að segja ekki til fólksins, þeirra byði ekkert nema dauðinn, og samþykkti Rügemer það á endanum.

Með því skilyrði að hún stundaði kynlíf með honum.

Í ævisögu sinni segir Irene að vissulega hafi kynlífsánauðin tekið á en hún hafi ekki haft val. Tólf mannslíf voru í húfi. Þrettán reyndar, eitt var rétt ófætt.

Barnið sem gerði allt þess virði

Það liðu sem betur fer aðeins nokkrar vikur þar til Sovétmenn voru svo að segja komnir til Tarnopol og ljóst að Þjóðverjar voru búnir að tapa stríðinu.

Rügemer og félagar hans flúðu borgina og notuðu Irene og vinir hennar tólf tækifærið og flúðu. Tæpum mánuði síðar fæddist hjónunum sem Irene hafði falið, heilbrigður drengur.

„Það var barnið sem gerði allt þess virði,“ sagði Irene síðar.

Irene Gut flutti til Bandaríkjanna árið 1949, giftist manni að nafni William Opdyke og eignaðist dóttur.

Eitt góðan veðurdag var hún á gangi í New York þegar að maður nokkur stoppaði hana af og sagði hana eflaust ekki muna eftir sér en hún hefði fært honum skó út í skóginn fyrir utan Tarnopol. Sagðist hann efast um að hafa náð að flýja lengra berfættur og hún því sennilegast bjargað lífi hans.

Fylltist reiði

Irene ræddi aldrei stríðsárin opinberlega, það er allt til 1974 þegar hún heyrði mann halda ræðu og afneita helförinni.

Irene fylltist mikilli reiði.  Hún byrjaði því að ferðast um Bandaríkin og segja sögu sína, einna helst í skólum. Það er talið að hún hafi sagt tugum þúsunda barna af reynslu sinni af helförinni þegar hún lést árið 2003. Hún skrifaði einnig ævisögu sína.

Irene hélt áfram að segja sögu sína til dauðadags.

„Helförin gæti endurtekið sig ef við tölum ekki saman, reynum að skilja hvort annað og lærum af reynslunni. Það er skylda mín að segja sannleikann, frá hryllingnum sem ég sá og upplifði.“

Þótt að það sé liðin 20 ár frá láti Irene Gut Opdyke lifir minning hennar.

Dóttir hennar, Jeannie Smith, tók við keflinu og heldur áfram starfi móður sinnar, ferðast um segir sögu hennar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram