Í viðtali við 60 Minutes segir Harrý Bretaprins að hann og bróðir sinn, Vilhjálmur krónprins Bretlands, hafi í áraraðir haldið að móðir þeirra, Díana prinsessa, hefði í raun og veru ekki látið lífið í bílslysinu í ágúst árið 1997. Harrý segir að þeir bræður hafi trúað að um væri að ræða þaulskipulagt plan til að sleppa frá konungsfjölskyldunni og öllu því fári sem henni fylgdi.
Það var ekki fyrr en Harrý var orðinn 20 ára gamall sem hann varð sannfærður um að Díana væri raunverulega látin. Þá bað hann um að fá að sjá lögregluskýrsluna fyrir bílslysið til að „sanna að hún hafi verið í bílnum“. Hann segir að í skýrslunni hafi verið myndir sem sönnuðu að ljósmyndararnir sem eltu prinsessuna hafi tekið myndir af henni þar sem hún lá nær dauða en lífi í aftursæti bílsins.
„Fyrir þetta var ég ekki meðvitaður um að það síðasta sem mamma sá á þessari jörðu var ljósapera,“ skrifar Harrý í bók sinni sem á að koma út á morgun. Mikið hefur verið fjallað um bókina að undanförnu eftir að miklum upplýsingum úr henni var lekið.
Fjölmiðlamaðurinn Anderson Cooper, sem stýrði viðtalinu við Harrý, spurði hann nánar út í þessa fullyrðingu – að ljósið frá ljósmyndurunum hafi verið það síðasta sem móðir hans sá á meðan hún var á lífi.
„Myndirnar sýndu spegilmynd af hóp af ljósmyndurum sem tóku myndir í gegnum gluggann,“ svaraði Harrý eftir að hafa kinkað kolli. Þá sagði hann að í skýrslunni hefðu verið „óhugnanlegri“ myndir af móður sinni en að aðstoðarmaður hans á þeim tíma hafi ráðlagt honum að skoða þær ekki.
Harrý segist vera aðstoðarmanninum ævinlega þakklátur því hann hefði verið með myndirnar fastar í hausnum að eilífu.