Leikarinn Edward Norton ólst upp við þær sögur að fjölskylda hans tengdist hetju frumbyggja Ameríku – Pocahontas. En leikarinn hefur alltaf gengið út frá því að um sögusögn sé að ræða.
En í þættinum Finging Your Roots kom á daginn að sögusagnirnar reyndust á rökum byggðar.
„Pocahantas er í alvörunni tólfta langamma þín,“ sagði sagnfræðingurinn Henry Louis Gates Jr. við Norton í þættinum, en í þeim eru rætur frægra gesta kannaðar.
Edward Norton er því kominn af þeim Pocahontas og John Rolfe. Þau giftu sig árið 1614 í Virginíu og áttu einn son, Thomas. Því er ljóst að leikarinn er afkomandi þessa Thomas.
Í þættinum kom einnig fram að forfeður Nortons hafi átt þræla. Norton tók fram að það væri frekar óþægilegt að vita það. „Öllum ætti að finnast slíkt óþægilegt“
Hann bætti svo við: „Þetta er áfellisdómur yfir sögu þessa lands og við það þarf að takast. Þegar þú lest „þræll, 8 ára að aldri“ langar manni bara að deyja.“
Þar vísaði Norton til þess að samkvæmt sagnfræðigögnum átti langalangalangalangaafi hans sjö manneskjur í þrældómi. Þar á meðal 55 ára mann, 37 ára konu og fimm stúlkur á aldrinum 10,9,8,6 og fjögurra ára.