Margrét Danadrottning lýsti á gamlársdag yfir eftirsjá yfir að hafa valdið fjaðrafoki innan dönsku konungsfjölskyldunnar með því að svipta fjögur barnabörn sín titlunum prinsar og prinsessur.
Í sjónvörpuðu ávarpi sagði hún að það væri sárt að vita til þess að þessar breytingar hefðu valdið því að samband hennar við föður barnabarnanna, Jóakim prins, væri nú vandkvæðum bundið.
„Erfiðleikar og ósætti geta komið upp í hvaða fjölskyldum sem er, þar á meðal í minni. Allt landið hefur orðið vitni að því,“ sagði Margrét í ávarpi sínu.
Hún tilkynnti um áðurnefnda ákvörðun sína í september en í henni fólst að barnabörnin fjögur gætu ekki lengur kallað sig prinsa og prinsessur. Þetta var liður í því að gera konungsfjölskylduna meira straumlínulagaða og gera hana meir í takt við nútímann. Margrét sagði að það væri hennar von að þessi ákvörðun gerði barnabörnum hennar kleift að lifa venjulegra lífi.
En sonur hennar, Jóakim, var ekki ánægður með þessa ákvörðun og sakaði móður sína um að vera að refsa börnunum. En börn elsta sonar Margrétar, Friðriks, munu halda titlum sínum.
Í ávarpi sínu sagði drottningin að fjölskylda hennar hefði núna tíma til að horfa inn á við og sagðist hún viss um að þau gætu farið inn í nýtt ár af öryggi, skilningi og hugrekki.
Áður hafði drottningin gefið út opinbera afsökunarbeiðni til sonar síns og barna hans vegna ákvörðunarinnar og sagðist hún greinilega ekki hafa hugað nægilega vel að því hvernig þau myndu taka þessari ákvörðun. Hún ítrekaði þó að hún elskaði barnabörn sín heitt og væri stolt af þeim, en stóð hún þó eftir sem áður við þessa ákvörðun sem tók gildi frá og með deginum í gær.