fbpx
Sunnudagur 05.febrúar 2023
Fókus

Magnús missti lífsviljann eftir slysið – „Ég upplifði mig skemmda vöru og byrði á fjölskyldu mína og samfélag“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Miðvikudaginn 7. desember 2022 12:59

Magnús Sigurjón Guðmundsson. Mynd/DV Hanna/Facebook

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Magnús Sigurjón Guðmundsson, eða Maggi Peran eins og hann er oft kallaður, er mörgum Íslendingum vel kunnur. Hann lenti í alvarlegu slysi skömmu fyrir jólin 2019 þegar hann rann í hálku, höfuðkúpubrotnaði og blæðing kom inn í heila.

Hann glímir enn við eftirheilahristingsheilkenni og hefur endurhæfingin verið löng og ströng. Um tíma missti hann viljann til að lifa en með aðstoð starfsfólksins og þjónustunnar á Reykjalundi fékk hann löngunina til að lifa á ný. Hann segir frá þessu í einlægum pistli á Vísi.

„Lífslöngunin sjálf er endurnærð á Reykjalundi og jafnvel tendruð hjá þeim sem hafa misst lífsþorstann. Þetta eru stór orð en þetta fullyrði ég eftir að hafa dvalið þarna í langan tíma og fengið að bragða á þverfaglegu töframeðali mismunandi fagaðila. Þar kynntist ég fjölmörgum einstaklingum sem þurftu fjölbreytta aðstoð vegna heilsuleysis og allir voru þeir á sama máli og ég. Við erum sammála um að á Reykjalundi sé unnið einstakt fagstarf sem við sem þjóðfélag verðum að standa vörð um,“ segir hann.

Sjá einnig: Magnús varð fyrir áfalli korteri fyrir jól: „Börnin gráta og vilja pabba heim um jólin“

„Undrið mitt var Reykjalundur“

„Ég fór fyrst á Grensásdeild Landspítalans, þurfti svo að segja upp vinnunni minni sem ég elskaði af öllu hjarta og fór þaðan yfir til VIRK,“ segir hann og bætir við að hann sé mjög þakklátur þeim þó svo að þeirra úrræði hafi ekki virkað fyrir hann.

„Fyrir mann eins og mig, sem er með skert áreitisþol og takmarkaðan þrótt, reyndist það afar slítandi að keyra á milli mismunandi aðkeyptra úrræða sem VIRK bauð upp á. Það var ekki við VIRK að sakast heldur var heilsa mín þannig að í raun hentaði þeirra úrræði mér ekki,“ segir hann.

Allt breyttist eftir að hann gekk inn á Reykjalund í lok sumars 2022.

„Þá fyrst tók ég flugið. Þar mætti mér þverfagleg endurhæfing þar sem markmiðið var að efla mig á mínum forsendum. Þar var ég skoðaður í bak og fyrir, takturinn á minni endurhæfingu sleginn í kjölfarið og svo endurmetinn með reglulegum hætti. Þegar gengi endurhæfingarinnar var mér um megn þá var dregið úr, þegar ég fékk aukinn þrótt þá var bætt í.“

Fannst erfitt að horfa í spegilinn

Magnús segir að alls staðar hafi hann fengið gríðarlega öfluga þjónustu og sáluhjálp. Áður en hann fór inn á Reykjalund var lífslöngun hans engin, honum fannst hann byrði og þótti erfitt að horfa í spegilinn.

„Það er mér ekki léttvægt að segja frá því að lífslöngun mín þegar ég gekk inn á Reykalund var engin. Ég upplifði mig skemmda vöru og byrði á fjölskyldu mína og samfélag. Best væri að kveðja þennan heim. Drífandi og lífsglaði vinnuhesturinn var hættur að geta hlaupið á skeið og þekkti ekki sjálfan sig. Það er erfitt að horfa í spegilinn og þekkja ekki manninn í honum. Það er erfitt að faðma börnin sín og vita ekki hverjir styrkleikar manns eru í foreldrahlutverkinu. Vita ekki hvað maður getur gert og hvert skuli stefna.“

Með einu pennastriki er hægt að þurrka út alls konar þjónustu

„Undrið mitt var Reykjalundur. Enn getum við tekið starfsemi stofnunarinnar sem sjálfsagðri?“

Magnús segir að undanfarið hafa verið fréttir af niðurskurði ýmissar þjónustu og af afsögn forstjóra Sjúkratrygginga Íslands vegna fjársveltis stofnunarinnar.

„Stjórnmálamenn kannast væntanlega ekki við neinn fjársvelti, niðurskurð eða þjónustuskerðingar heldur bera fyrir sig breytingar á skipuritum og breyttan tíðaranda sem verið sé að mæta. Ekkert muni bitna á þjónustuþegum og þeir munu bíða eftir að gremja okkar muni falla í gleymskunnar dá. Við þekkjum þessa tuggu. Staðreyndin er aftur á móti sú að með einu pennastriki er hægt að þurrka út alls konar þjónustu sem við teljum nauðsynlega og þykir vænt um. Reynslan sýnir okkur það.“

Skorar á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnina

Í haust sögðu Sjúkratryggingar Íslands upp samningi um starfsendurhæfingu á Reykjalundi að ósk heilbrigðisráðuneytisins.

„Starfsmenn Reykjalundar bentu á að það liti út fyrir að ráðuneytið teldi að starfsendurhæfing ætti frekar heima í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og hjá Virk starfsendurhæfingarsjóði. Þeir skoruðu á heilbrigðisráðherra að endurskoða ákvörðun sína um að leggja niður starfsendurhæfingarsvið Reykjalundar en ég held að þeir hafi því miður talað fyrir tómum eyrum Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra,“ segir Magnús.

„[Ég] skora á heilbrigðisráðherra og ríkisstjórnina alla að standa vörð um bæði þessi úrræði og önnur sambærileg og skera hvergi niður í málaflokknum. Lýðheilsa er okkur mikilvægari en nokkru sinni og eftirköst Covid-faraldursins er enn að leika okkur grátt. Þetta er ekki tíminn til að standa fyrir niðurskurði. Við þurfum að bæta í ef eitthvað er. Þetta er ekki tíminn til að vera í störukeppni á milli ráðuneyta. Tímabundnir plástrar bíta okkur í skottið með enn auknari fjárþörfum í framtíðinni.“

Að lokum stappar Magnús stálinu í starfsfólk Reykjalundar. „Fyrir ykkar hjálp hafa einstaklingar eins og ég endurnært lífslöngunina. Þið hafið gefið okkur dýrmætustu gjöfina – sjálfan lífsviljann. Það er ekki metið til fjár!“

Þú getur lesið pistilinn hans í heild sinni hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Sökuð um að blekkja aðdáendur og sviðsetja myndatökur

Sökuð um að blekkja aðdáendur og sviðsetja myndatökur
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Áfram Njarðvík – samt Selfyssingur“

„Áfram Njarðvík – samt Selfyssingur“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Róbert Oliver og Sigga selja „New York style“ íbúð

Róbert Oliver og Sigga selja „New York style“ íbúð
Fókus
Fyrir 3 dögum

Vill að eiginkonan íhugi trekant með frænku sinni

Vill að eiginkonan íhugi trekant með frænku sinni