Sigga Dögg kynfræðingur viðurkennir að hún hafi vanmetið áhugann sem píka dagsins myndi fá. Hún óskaði fyrst eftir píkumyndum þann 11. nóvember síðastliðinn. Samdægurs birti hún fyrstu myndina á vefsíðu sinni og hefur birt píku dagsins á hverjum degi síðan þá.
Síðasta píkumyndin – allavega í bili – fer í loftið 31. desember og fyrsta typpamyndin verður birt 1. janúar á leiga.betrakynlif.is. Það verða hjón sem ljúka árinu og hefja nýtt ár.
„Það eru hjón sem sendu inn, hún mun loka árinu og hann byrja nýtt. Ótrúlega sætt og mjög fallegur endir og upphaf,“ segir Sigga Dögg í samtali við DV.
„Ég held að næstsíðasta píkan, sem verður á morgun, eigi eftir að sjokkera. En ég tek bara við því sem mér er sent,“ segir hún og útskýrir nánar.
„Ég fékk skilaboð frá nýbakaðri móður. Hún sendi mér: „Ég var að eignast barn fyrir tveimur dögum, ég sit núna glaðvakandi um miðja nótt með barn á brjósti og mig langaði að sjá píku eftir fæðingu sem var búið að sauma. Ég hef aldrei séð það, ég er búin að googla endalaust og þá hugsaði ég: Ókei, ég er tilbúin að bjóða fram mína píku svo aðrar geti séð.“ Sem er alltaf markmið þessa verkefnis.“
Kynfræðingurinn er enn að fá sendar píkumyndir. „Ég áttaði mig engan vegin á því að það yrði svona mikill áhugi og svona mikil traffík. Svo kíkti ég á tölurnar og fólk er rosalega mikið að skoða þetta,“ segir hún.
Typpaeigendur hafa ekki verið jafn duglegir og píkueigendur að senda inn myndir.
„Ég geri alltaf þá kröfu að þú svarir nokkrum spurningum, því ég vil sjá að ég hafi átt samskipti við manneskju. Þeir hafa sumir sent bara mynd og engan texta, og ég birti það ekki. Ég hef þá sent til baka: „Ef þú svarar textanum þá geturðu verið með, ef ekki þá ertu ekki með,““ segir Sigga Dögg og bætir við að hún sé að fá miklu færri typpamyndir en hún bjóst við.
„Það er líka allt öðruvísi stemning fyrir þeim. Orðræðan er líka öðruvísi. Píkumyndirnar eru ekki sendar í greddu, oft þegar það er verið að senda typpamyndir þá er það viðreynsla eða verið að reyna að sjokkera eða eitthvað álíka. Þannig ég veit ekki, þegar það er ekki sú yfirskrift. Því þeir sem hafa sent mér, þá tala sumir um að þeir hafi alltaf elskað typpið sitt meðan aðrir tala um ferðalagið að því að þykja vænt um það og óöryggið. Þannig ég er að spá, að þeir sem hafa verið hvað duglegastir að senda typpamyndir í gegnum tíðina, að þetta sé ekki verkefnið fyrir þá. Þetta er ekkert spennandi, það er ekkert fútt í þessu.“
Spurningarnar eru: „Hvernig er samband þitt við typpið þitt?“, „Hvað ertu gamall?“ og „Af hverju viltu taka þátt?“
„Þetta eru hvorki flóknar né stórar spurningar en ég set þessa kröfu; til að vera með í verkefninu þarftu að svara þeim,“ segir hún.
Áhugasamir typpaeigendur geta sent typpamynd og svar við þessum spurningum á sigga@siggadogg.is. Hún tekur það skýrt fram að það eigi ekki að vera andlit með á myndunum en nokkrir karlmenn hafa sent henni typpamynd þar sem sést í andlit þeirra, en þar með færist athyglin frá orðræðunni um typpið og fer fólk að grennslast fyrir um hver sé á myndinni og þar með sé tilgangur verkefnisins horfinn.
Sigga Dögg mun taka þetta fyrir, orðræðuna í kringum kynfæramyndir og fleira í uppistandinu Sóðabrók segir frá sem verður næsta konudag, bóndadag og Valentínusardag. Miða má nálgast á Tix.is