Þegar fólk bókar sæti í flugvélum getur það átt erfitt með að ákveða hvaða sæti í vélinni eigi að velja. Hvar er best að vera, við gluggann, í miðjunni eða við ganginn?
Kat Kalamani, fyrrum flugfreyja, segir í myndbandi sem hún birti á samfélagsmiðlinum TikTok að hún myndi að minnsta kosti ekki velja sæti við gluggann. „Ég reyni alltaf að fá sæti í miðjunni eða við ganginn,“ segir hún. „Ég tek aldrei gluggasætið af öryggisástæðum.“
Myndbandið sem um ræðir hefur vakið töluverða athygli á TikTok en það hefur fengið um 2,5 milljónir áhorfa. Þá hefur það fengið fjölmargar athugasemdir frá netverjum en margir þeirra furðuðu sig á því að Kat mældi ekki með gluggasætinu. Nokkrir netverjar veltu því fyrir sér hvort hún væri að vísa í slys sem gerðist árið 2018 þegar farþegi í flugvél lést eftir að hafa sogist að hluta til út um glugga vélarinnar.
Þá voru nokkrir netverjar sem sögðust einnig hafa unnið í flugbransanum en að þeir hafi ekki sömu áhyggjur og Kat. „Ég var flugfreyja í 14 ár… ég hef aldrei heyrt um að maður sé öruggari í miðjusætinu,“ segir til dæmis í einni athugasemdinni.
„Sem fyrrum flugfreyja þá sit ég bara í gluggasætum,“ segir svo annar netverji. „Það verður allt í lagi með mig,“ segir sami netverji svo.