fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Í snjóþvegnum gallabuxum með herðapúða og krumpað hár – Var níundi áratugurinn sá besti eða versti í sögu tískunnar?

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Laugardaginn 8. október 2022 09:44

Edda Björgvins leikkona ásamt börnum sínum, Evu Dögg og Björgvini Franzí tískuþætti tímaritsins Heimsmyndar árið 1986.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Litagleðin var allrækilega við lýði á á níunda áratugnum og þóttu allar flíkur og allt skart í neonlitum afar smart. Því skærara, því svalara.

Öllum hefðbundnum reglum um litasamsetningar var hent til hliðar og æpandi litum af öllum toga var miskunnarlaust blandað saman.

Hið glænýja sport, eróbikk, hafði mikil áhrif.

Áratugurinn hófst með innrás nýs æðis i sprikli sem fékk nafnið eróbikk og fór sem eldur í sinu um heiminn. Eróbikki fylgdu litríkir búningar sem blönduðust á sérkennilegan, en þó skemmtilegan, hátt við hefðbundnari fatnað.

Fyrst á meðal ungmenna en fljótlega rataði blandan á sýningarpalla stóru tískuhúsanna.

Edda Björgvins leikkona ásamt börnum sínum, Evu Dögg og Björgvini Franz í tískuþætti árið 1986.

Ísland var þar ekki undanskilið þótt að landinn hafi að mörgu leyti ekki gengið jafn langt og sumar nágrannaþjóðirnar, þar sem sjá mátti stúlkur arka um götur í æfingabolum og tjullpilsum svo að segja einum fata, þó aldrei án legghlífa.

Hugsanlega má um kenna öllu verra tíðarfari á eyjunni í norðri en suðrænni löndum. Og þó því í að minnsta púffpilsin, oft einmitt úr tjullefni, áttu stóran hóp aðdáenda hér á landi.

Megum við eiga von á að sjá eitthvað þessu líkt aftur?

Einn af fylgifiskum æfingafatnaðarins voru legghlífar, löngum einkum notaðar af dönsurum og þá ekki sem tískuflík heldur sem hitagjafi. Allt í einu urðu legghlífar tískufatnaður.

Legghlífar voru notaðar við næstum hvað sem er, þær voru í öllum litum og úr alls kyns efnum og í fyrsta skipti í mannkynssögunni mátti sjá prjónaðar legghlífar samhliða háum hælum á diskótekum borgarinnar.

Svo og grifflur. Prjónaðar og saumaðar og á tímabili fermdust allar stúlkur með blúndgrifflur.

Sú sem þetta skrifar fermdist með með hvítar blúndugrifflur. Svo og næstum allar fermingarsysturnar.

Handavinnukennarar efri bekkja grunnskóla landsins sáu sér margir leik á borði með því að skipta út sokkaleistum fyrir legghlífar sem skyldulepp og stórjókst áhugi nemenda á prjónaskap í kjölfarið.

Praktístk já, smart? Spurt er.

Litagleðin kom einnig skýrt fram í skarti þessa tíma og voru stórir og skærlitaðir skartgripir á við eyrnalokka, hálsmen og armbönd afar vinsæl, oftar en ekki úr plasti. Og þar var sama regla við lýði, blanda mátti saman litum að vild.

Stundum voru eyrnalokkar ekki í sama lit, jafnvel ekki eins í formi og stærð, og var reyndar meira en allt í lagi að hafa aðeins einn stóran og skæran eyrnalokk.

Þessi negldi stílinn.

Litirnir skiluðu sér einnig á andlit kvenna en það má deila um hvort sakna beri skærra gulra/blárra/bleikra/grænna augnskugga, æpandi bleikra/rauðra kinnalita, og ljósblárra augnblýanta, já og maskara sem rokseldust í ljósbláu.

Allt var stórt og var hárið þar ekki undanskilið. Einnig hjá körlum því níundi áratugurinn á heiðurinn af einum merkasta hárgreiðslustíl í manna minnum; múllanum.  Sennilega hafa framleiðendur hárlakks og sambærilegra efna ekki upplifað jafn mikla gósentíð og frá túperingatímabili sjöunda áratugarins.

80s Mens Hairstyles
Þeir voru hárprúðir herramennirnir.

Í grunninn var reglan ávallt sú sama: Sítt að aftan, styttra og upp að ofan, og svo auðvitað vængirnir góðu sem kröfðust töluverðarðar nákvæmni ef vel skyldi fara.

Við skulum heldur ekki gleyma permanentinu sem bæði kyn sóttu stíft í en telja má níunda áratuginn svanasöng þess ágæta efnis. Í bili í það minnsta, því enginn veit hvað tíska morgundagsins ber í skauti sér.

Er ekki krumpujárnið að koma aftur?

Hlíðartaglið átti einnig sinn blómatíma í upphafi níunda áratugarins, þó ekki lengi, og hefur ekki sést síðan. Sakna þess sennilega fáir.

Ragga Gísla alltaf töff

Á þessum árum var nýr þjóðfélagshópur að ryðja sér til rúms, ungt og vel menntað fólk sem hafði komið sér vel fyrir í atvinnulífinu, oft fjármálageiranum.

Þau fengu viðurnefnið yuppies, eða uppar á íslensku,  og þénuðu margfalt á við foreldra sína. Og klæddu sig í takt við það. Allt gekk út á vel sniðnar flíkar út fyrsta flokks hráefni en það voru kannski fyrst og fremst aukahlutirnir sem settu punktið yfir i-ið. Kóréttur trefill í rétta litnum frá rétta hönnuðinum, rándýr handtaska (helst úr takmörkuðu upplagi) en síðast en ekki síst úrið.

Vanþekking á úrum var einn tískuglæpur sem uppi gat framið og var það frekar bundið við karlmenn.

Reyndar var uppakúltúrinn ekki mjög mikill hér á landi  fyrir aldamót en náði áður óþekktum hæðum á árunum fyrir hrun.

Tískuþáttur Vikunnar úr blaði frá 1983

Á níunda áratugnum fóru ungar konur fyrst verulega að láta til sín taka í stjórnunarstöðum innan fyrirtækja. Þær vildu að sjálfsögðu láta taka sig alvarleg en sömuleiðis halda í kvenleika sinn. Og úr var dragtin með axlapúðunum. Reyndar voru að ekki einvörðungu dragtarjakkar sem skörtuðu axlapúðum, þá var einnig að finna í kjólum, blússum og reyndar flestu.

Dynasti var gríðarlega vinsæll og hafði áhrif á tískuna.

Axlapúðadrottningar áratugarins voru leikkonur í þáttum á við hina gríðarlega vinsælu sjónvarpssápu Dynasty en fátítt var að íslenskar konur gengu jafn langt.

 

Fyrir þá sem ekki töldu sig uppa voru gallabuxur málið. Snjóþvegnar gallabuxur. Og ekki bara buxur því gallajakkar þurftu að þola sömu meðferð. Og eins og ein snjóþvegin flík sé ekki nóg var ekki hikað við að vera bæði í snjóþvegnum jakka og buxum. Samtímis.

 

Af einhverju ástæðum fengu Íslendindingar sérstaka ást á einni sérstakri tegund buxna, Levi’s 501, og var enginn maður með mönnum nema eiga að minnsta kosti einar slíkar. Þær kostuðu aftur á móti hvítuna úr augunum og voru ferðir til Bandaríkjanna blóðmjólkaðrar til kaupa á 501 buxum sem útsjónarsamir aðilar seldur með dágóðum hagnaði hér heima.

Aðrir áttu vini og kunningja vestan hafs sem skikkaðir voru í að koma til landsins með sem mest magn af brókunum og átti Bandaríkjamenn bágt með að skilja þessa ásókn í brækur sem þeir einfaldlega litu á sem vinnuflík.

Enginn, nákvæmlega ENGINN, var jafn töff og Icy hópurinn.

Við megum einnig þakka níunda áratugnum fatnað úr spandexi, litríkum hárböndum, ,,scrunchie” teygjum auk mittistaskna, á ensku nefndar ,,fanny packs”.

Já, hin ofurtúristalega mittistaska var í alvöru eftirsótt tískuvara.

Don Cano var málið.

Það er þó tvennt sem kannski helst stendur upp úr þegar að kemur að íslenskri tísku á níunda áratug síðustu aldar.

Annars vegar eru það Don Cano gallarnir og hins Millet úlpurnar.

Allir voru í Millet úlpum.

Don Cano krumpu- og glansgallarnir komu á markað hér á landi árið 1981 og slógu öll met í vinsældum. Ísland var reyndar alveg sér á báti hvað vinsældir gallanna varðaði en næst okkur komu að sjálfsögðu frændur vorir Norðmenn. Enginn unglingur vildi játa að eiga ekki slíkan og þeir öfundsverðustu áttu jafnvel fleiri en einn.

Úr tímaritinu Lúxus árið 1985

Millet úlpurnar mættu til landsins 1985 og varð sama ofursprengjan í vinsældum og í Don Cano göllunum. Ungmenni landsins vældu í foreldrum sínum um slíka úlpu en þær voru bæði rándýrar og illfáanlegar. Þær seldust upp, liggur við áður en þær náðu á hafnarbakkann, og tók þá við biðlistinn góði. Úlpurnar voru það eftirsóknarverðar að fæstum datt í hug að láta þær úr augnsýn því stuldur á Millet úlpum var hreinlega landlægur andskoti.

Þær komu í nokkrum litum, miseftirsóknarverðum, en Millet úlpa var samt sem áður Millet úlpa.

Úr Vikunni árið 1981

Sú sem þetta ritar átti ljósbláa og elskaði hana út af lífinu. Sem aftur vekur spurningu um hvar hún geti verið niðurkomin í dag?

Best að grafa í geymslunni, það er aldrei að vita. Þær eru nefnilega aftur ,,in“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Drottning Norðursins er laxveiðibók sem sætir tíðindum

Drottning Norðursins er laxveiðibók sem sætir tíðindum