Í maí í fyrra tilkynntu þau að þau væru að skilja eftir 27 ára hjónaband. Skilnaðurinn gekk í gegn í ágúst og eiga þau saman þrjú börn.
Melinda, 58 ára, ræðir um skilnaðinn á einlægu nótunum í viðtali hjá Fortune. „Það einkennilega við Covid var að ég fékk næðið til að gera það sem ég þurfti að gera,“ segir hún.
„Þetta var ótrúlega sársaukafullt, á svo marga vegu, en ég fékk næði til að komast í gegnum það.“
Saman hafa Melinda og Bill gefið margar milljónir Bandaríkjadala í góðgerðarmál í gegnum góðgerðasamtök þeirra, Bill & Melinda Gates Foundation, og hafa haldið því áfram þrátt fyrir skilnaðinn.
„Ég hélt áfram að vinna með manneskjunni sem ég fór frá. Ég þurfti að mæta og vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum einasta degi. Þannig þó ég hafi verið grátandi klukkan níu um morguninn þurfti ég að vera tilbúin fyrir fjarfund klukkan tíu – með manneskjunni sem ég var að fara frá,“ segir hún.
„Og ég lærði að sem leiðtogi get ég gert það.“
Um orsök skilnaðarins hafði hún þetta að segja: „Ég hafði nokkrar ástæður fyrir því að ég gæti ekki verið áfram í þessu hjónabandi.“
Í mars opnaði hún sig um framhjáhald Bill árið 2000. Hún sagði að hún hafi fyrirgefið Bill á sínum tíma og þau hefðu „unnið í gegnum þetta“ en síðan „kom sá tímapunktur þar sem það var nóg þarna og ég áttaði mig á því að þetta væri bara ekki heilbrigt og ég gat ekki lengur treyst því sem við áttum.“