fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Gunnar segist hafa læknað sjálfan sig af ADHD – Þetta gerði hann

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Fimmtudaginn 29. september 2022 11:02

Gunnar Dan Wiium. Aðsend mynd.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Dan Wiium, smíðakennari og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Þvottahúsið, opnar sig um reynslu sína af ADHD, hvaða áhrif taugaröskunin hefur haft á líf hans síðustu áratugi og hvernig honum tókst að „lækna sjálfan mig af ADHD“ sem og geðhvarfasýki og alkóhólisma í pistli á Vísi.

Hann segist hafa lesið á dögunum vel skrifaða grein eftir doktorsnema sem samanstóð af samantekt rannsókna um ADHD lyf. Gunnar vill nálgast umræðuna úr annarri átt, en hann segist vera haldinn taugaröskuninni og hafi tekist að lækna sig sjálfur – hann á þá við að hann heldur einkennunum niðri án þess að nota lyf.

Erfið æska og lítið um minningar

Gunnar segist muna lítið eftir æskunni. „Ástæðan fyrir þessu minnisleysi mínu kemst ég næst því að álykta að ég hreyfði mig og hugsaði of hratt miðað við heiminn. Það er sem hausinn á mér hafi alltaf verið útum allt á sama tíma.“

Hann segir að vegna þessa hafi hann átt erfitt með nám og verið kvíðinn. Snemma byrjaði hann að hugsa um stelpur. „Það að vera skotinn í stelpur varð mjög snemma hjá mér að sterkum þrjáhyggjuhugsunum. Sú þráhyggja var svo leyst af með klámi þegar kynhvötin vaknaði og var það fyrir mér í þrjá áratugi viss boðefnasprengja, enginn athyglisbrestur í klámi, það er eins einbeitt og hægt er fyrir þá sem þekkja.“

Áfengi og vímuefni tímabundin lausn

Gunnar byrjaði að sækjast í áfengi og THC fíkniefni. „Það sem þessi lyfefni gerðu fyrir mig var að veita mér þessa tímabundnu lausn undan að vera í þessum hrærigraut af öllu. Lyfefnin færðu mér áður óþekkta gleði og samkennd með meðbræðrum mínum og systrum en svo rann af mér víman og allt varð eins nema örlítið verra,“ segir hann.

Hann féll í flestum fögum í framhaldsskóla og segir að það hafði slæm áhrif á sjálfsmyndina að geta ekki lært. „Manni fer að líða minni máttar. Samfélagið sýnir mér afreksfólk í öllum sviðum og þar myndast afstaðan, viðmiðið. Ég er ekki nógu góður, nógu flottur, nógu klár, nógu skemmtilegur, frjáls, hávaxin, fitt, nógu þetta og nógu hitt. Allt út af því að ég virðist ekki geta fokking einbeitt mér og meðtekið upplýsingar, sett þær á rétta staði og unnið úr þeim. Tileinkað mér eitthvað sem mér finnst kannski ekkert endilega áhugavert eða skemmtilegt, allt út af ADHD myndi maður segja í dag.“

Þarf engar klínískar rannsóknir

„Þessi einkenni sem ég er að upplifa þarna sem barn og unglingur og jú, langt inn í fullorðins árin eru aðeins einkenni. Ég þarf engar klínískar rannsóknir til að segja mér það. Mínar rannsóknir hafa staðfest það fyrir mér og eru hér með ekki kynntar sem skoðanir heldur raunveruleg reynsla sem unnið hefur verið úr,“ segir hann.

„Ég hefði þurft leiðsögn hvað varðar núvitund, hjálp, ég hefði þurft ró, stöðuleika, heilbrigt matarræði, tómstundir, tengsl, minna sælgæti og allskonar. Ég er ekki að plammera foreldra mína að neinu leyti, mér þykir mjög vænt um foreldra mína og allir gerðu sitt besta, einnig trúi ég því að ég hafi valið mér foreldra í algjöru samræmi við hvað þurfti til því hér er ég vaknaður til vitundar um að ég er guðleg vera í efnishjúp í eitt lífskeiðið enn.“

Umdeild Twitter-færsla

Gunnar rifjar upp umdeilda færslu á Twitter sem íslenskur karlmaður ritaði fyrr í mánuðinum. Sá maður sagði lyf við ADHD „bara vera spítt.“ Gunnar segist ekki skilja úlfúðina sem kom í kjölfar færslunnar þar sem – eftir að hafa lesið um lyfin – virknin sé sú sama. En hann tekur fram að „stimplaða stöffið sé hreint og hárfínt meðan amfetamínið er kúkkað af alls konar kúrekum undir daufri birtu.“

„Þegar amfetamín kom inn í líf mitt breyttist allt. Amfetamín losaði í mér boðefni. noradrenalín, dópamín og serótónín og ég öðlaðist undir eins einbeitingu, velíðan og ró sem ég hafði ekki upplifað áður. Og það sem kom mér á óvart var þessi stadíska ró því ég hélt að ég ætti að verða æstur og spíttaður en það gerðist ekki nema þegar ég kannski þegar ég hafði dælt í mig of miklu magni. Amfetamín gaf mér eitthvað sem ég hafði ekki upplifað áður og ekki bara einbeitingu og kraft heldur varð ég frjór og fullur sköpunar. Ég varð allt þetta sem mig hafði skort þar til ég varð það ekki lengur og allt snerist upp í andhverfu sína. Ég fór að upplifa skerta einbeitingu og athygli, kvíða, svefnleysi og ranghugmyndir. Þessi sveifla endaði í algjörri kulnum og ég brann yfir um bókstaflega. Tilfinningarlíf mitt fór stórkostlega úr skorðum en úr þessum rústum hófst bataferðarlag mitt sem nú hefur staðið í yfir sex ár.“

Akademískur hroki

Hann segir að á bak við hverja pillu er sala og að lyfjafyrirtækin vilja að komið sé fram við ADHD eins og vírus og bakteríu.  Hins vegar vitum við ósköp lítið um taugaröskunina að sögn Gunnars „og því brjálæðislegur akademískur hroki að halda því fram að fólk, venjulegt fólk, geti ekki myndað sér skoðanir í þessum efnum með reynslu eins og sér.“

„Ég ber mikla virðingu fyrir læknavísindum og öllu tæknifólki sem gerir hvert kraftaverkið og hverja kraftaverka uppgvötvunina á fætur annarri en ég læknaði sjálfan mig af ADHD, ég læknaði sjálfan mig af geðhvarfasýki (bipolar), ég læknaði sjálfan mig af alkóhólisma. Ég læknaði sjálfan mig því í raun erum við öll læknar, við höfum kraft og úrræði til að heila og skilja og greina og breyta.“

Læknaðist af ADHD

Hann fer síðan yfir hvað hann gerði og gerir enn í dag til að „læknast af skapgerðareinkennunum ADHD.“

„Og þegar ég meina að læknast af ADHD þá meina ég að ég þurfti að ná mér í náttúruleg boðefni eins og noradrenalín, dópamín og serótónín. Til að byrja með þurfti ég að komast í skilning um að þessi hugmyndarfræði mín um tafarlausa umbun og undantekningarlausa vellíðan var ekki að virka. Lífið er fullt af allskonar og það er þjáning. Þjáningin er í lífi mínu sem vegvísir að eindum sem sitja innra með mér eftir brot sem framin hafa verið á mér sem og afleiðingar brota sem ég hef framið á öðrum, með öðrum orðum þurfti ég að horfast í augu við hver ég var og hvað ég hafði gert sjálfum mér og öðrum […] Ég þurfti að takmarka hegðun sem felur í sér að ég mata mig af rusli, TikTok, Instagram og allt þetta tilgangslausa skroll. Ég þurfti að taka svefninn minn í gegn og minnka koffín og sykur ásamt unninni matvöru. Ég þurfti að rífa mig upp á rassgatinu og fara að hreyfa mig, sjósund, lyfta þungu drasli og hjóla. Slá grasið berfættur, klappa kisum og leita eftir leiðum til góðverka, þjónusta meðbræður mína og systur. Ég þurfti að kyrja möntrur, sitja í nokkuð margar mínútur á dag og þjálfa athygli með andardrátt. Biðja til guðs um leiðsögn og fyrst og fremst um kraft og hugrekki til sitja í sjálfum mér í blíðu og stríðu. Sitja í sjálfum mér í þjáningu, sorg og þunglyndi. Upplifa eirðarleysi sem gerir mig sköpunarglaðan. Rækta tengsl við fólkið mitt, horfa í augun á konunni minni og kyssa hana á hálsinn, horfa í augun á stelpunni minni og veita henni athygli, tala við hana, hlusta á hana, fylgja henni í skólann, hjálpa til með heimalærdóm, leggja frá mér síman og tengjast fólki, tengjast náttúrunni innra með mér sem og utan.“

Að lokum segir Gunnar að ADHD-lyf séu ekki sett á markað til að lækna „heldur aðeins til að setja tímabundinn plástur á einkennaknippi hins raunverulega sjúkdóms.“

„Þessi ofangreindu orð eru ekki bara skoðanir heldur mín reynsla byggð á margra áratuga sársaukafullum rannsóknum og innsæileiftrum. Ég vitna í engar heimildir nema í orð mín sem eflaust eru flestum ómarktæk og einskins nýt. Megi mátturinn vera með okkur og lifi bylting kærleika og samkenndar,“ segir hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?

Megan Fox sá eitthvað óviðeigandi í síma MGK og hætti með honum – Er ítalska kyntröllið nýi kærastinn?
Fókus
Fyrir 4 dögum

Drottning Norðursins er laxveiðibók sem sætir tíðindum

Drottning Norðursins er laxveiðibók sem sætir tíðindum