Sundlaug Akureyrar er uppáhaldssundlaug Íslendinga ef marka má könnun Maskínu. Í öðru sæti er Sundlaug Kópavogs og í þriðja sæti Lágafellslaug í Mosfellsbæ.
Í tilkynningu kemur fram að könnunin hafi verið lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu, þjóðhópi fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu. Svarendur voru alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri og voru svörin vegin samkvæmt mannfjöldatölum Hagstofunnar um kyn, aldur og búsetu. Þannig var tryggt að þau endurspegluðu þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 19. til 24. ágúst og voru svarendur 2.149 talsins.
Alls nefndu 154, eða 9,7%, Sundlaug Akureyrar og 118, eða 7,4% Sundlaug Kópavogs. 113 (7,1%) nefndu Lágafellslaug í Mosfellsbæ og 105 nefndu Laugardalslaug, 6,6%. 104 nefndu Árbæjarlaug, 91 nefndu Salalaug og 81 nefndi Breiðholtslaug. Þar á eftir komu Vesturbæjarlaug, Sundhöll Reykjavíkur, Suðurbæjarlaug, Álftaneslaug, Dalslaug, Grafarvogslaug, Seltjarnarneslaug, Þelamerkurlaug, Sundlaugin á Hofsósi, Vatnaveröld og Sundlaugin í Þorlákshöfn.
Hér má sjá niðurstöðurnar: