fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Hrönn gerði einu bönnuðu kvikmynd Íslands – „Ég þótti vera að gera eitthvað stórfenglegt með því að láta tala við mig eins og ég væri 11 ára“

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 11. september 2022 09:14

Hrönn Sveinsdóttir og Árni Sveinsson Mynd/Sigtryggur Ari

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég var alveg komin með nóg þegar að myndin var loksins frumsýnd og veit ekki enn hvort ég á eftir að vera í salnum þegar hún verður sýnd aftur. Ég hef ekki séð hana frá frumsýningunni í Háskólabíó fyrir tuttugu árum síðan. Hún fór reyndar á einhverjar kvikmyndahátíðir en ég gerði mitt besta til að sitja ekki yfir henni.

Lífið var ljúft um aldamótin 2000 og Hrönn segir fátt hafa íþyngt nema einna helst hver sæi um tónlistina á Kaffibarnum það kvöldið. Mynd/úr einkasafni

Ætli ég sé ekki búin að vera í tuttugu ára ,,börnáti?“ segir Hrönn Sveinsdóttir, annar leikstjóra myndarinnar, kvikmyndagerðarmaður og framkvæmdastjóri Bíó Paradís.

Einfaldir tímar

Þann 24. september næstkomandi verður afmælissýning á heimildarmyndinni ,,Í skóm drekans” í Bíó Paradís. Myndin skók íslenskt samfélag árið 2002. Þjóðfélagið hreinlega logaði í deilum og er myndin fyrsta og eina íslenska kvikmyndin sem lögbann hefur verið sett á.

Og það daginn fyrir frumsýningu.

Landsmenn hafa ekki barið myndina augum í tuttugu ár en hún hefur þó verið notuð sem kennsluefni, til að mynda í lögfræði, kynjafræði og félagsfræði. Það hefur aftur á móti verið snúið að verða sér úti um eintak.

Hrönn viðurkennir að vera stressuð.

„Það verður ákveðið átak að sjá sjálfa sig þetta unga segjandi allskonar vitleysu. En það er góð tíðarandastemmning í myndinni, sem er bæði gaman fyrir þá sem muna ekki þessa tíma, og líka fyrir okkur hin að rifja upp. Lífið var einfalt og ljúft á þessum árum og fátt að íþyngja manni. Þetta verður eins og að stíga upp í tímavél.“

Punktur is nýtt og smart

Hrönn var 22 ára kvikmyndagerðarmaður og þegar reynslubolti í gerð sjónvarpsefnis þegar hún fékk hugmyndina að því að taka þátt í ,,nýrri“ fegurðarsamkeppni árið 2000 og mynda ferlið. Bar sú nafnið Ungfrú Ísland.is og var kynnt sem fegurðarsamkeppni ólík hinum fyrri og með nýjar áherslur.

Internetið var smám saman að detta inn á heimili landsmanna á þessum árum og þótti allt með nettilvísun nýtt og smart.

Hipp og kúl.

Hrönn og Árni höfðu bæði átt farsælan feril sem kvikmyndargerðarmenn, leikstjórar og handritshöfundar þrátt fyrir ungan aldur. Mynd/úr einkasafni.

Forsvarsmenn keppninnar voru Ásta Kristjánsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir, eigendur Eskimo Models, Linda Pétursdóttir, fegurðardrottning með meiru og Hendrikka Waage, markaðstjóri Japis.

Sögðu þær nauðsynlegt að sýna nútímakonuna ,,metnaðarfulla, sjálfstæða og kynþokkafulla“ eins og fram kom í viðtali við Ástu í Morgunblaðinu í ársbyrjun 2000.

Hrönn var heilluð og fannst hugmyndin um að skrá sig til leiks og taka upp ferlið vera geggjuð. Svo fór að hún gerði myndina ásamt Árna Sveinssyni kvikmyndagerðarmanni, sem einnig er bróðir hennar.

Bæðir leikstýrðu þau henni.

Auðvitað myndi ég vinna

„Ég hef aldrei skilið svona fegurðarsamkeppnir. Hvernig gat ég landað sigri í fegurð? Ég gat alveg farið í brúnkusprey og hárlengingar en langaði virkilega að vita nákvæmlega allt um þetta dæmi.“

Hrönn, Árn og Sigrún rifja upp atburðina fyrir 20 árum. Mynd/Sigtryggur Aru

Henni fannst inntökuskilyrðin skemmtilega gamaldags miðað við hversu framúrstefnuleg keppnin gaf sig út fyrir að vera.

Hún hlær enn við að rifja þau upp.

„Það þurfti ákveðna hæð og að vera undir ákveðnum kílóafjölda svo og ógift og barnlaus. Ég tékkaði í öll box og var ljóshærð í þokkabót. Ég hugsaði að auðvitað myndi ég vinna þetta enda engar kröfur um hæfileika á neinum sviðum og bara formsatriði að halda keppnina.“

Svo fór að öll fjölskyldan tók þátt í gerð myndarinnar.  Hrönn sest með blaðamanni yfir kaffi ásamt Árna bróður sínum, leiktsjóra og kvikmyndargerðarmanni, og Sigrúnu Hermannsdóttur, móður þeirra, Og upprifjunin hefst. Sveinn, faðir þeirra systkina, kom einnig að verkefninu. Hann er nú látinn.

Veifaði femíniskum bókatitlum framan í Lindu Pé

„Fegurðarsamkeppnir höfðu verið gríðarlega vinsælar hér á landi en á þessum tíma höfðu þær misst fyrri ljóma og þóttu jafnvel hallærislegar. Þetta var tilraun til að hressa þetta við með því að vera töff og koma fram með nýtt mat á fegurð. Vera punktur is,“ útskýra þær mæðgur Hrönn og Sigrún.

Sigrún Hermannsdóttir, móðir Hrannar og Árna, var tökumaður. fyrir 20 árum. Mynd/Sigtryggur Ari.

Hún komst inn í keppnina og reyndi frá byrjun að ganga í augu dómara eftir bestu getu.

„Ég var mikið að spá í hvaða bækur Linda Pé væri að fíla og veifaði einhverjum feminískum titlum úr bókaklúbb Oprah Winfrey. Mér fannst ég óskaplega málefnaleg en þegar að stelpurnar voru kynntar til leiks og spurðar um stærsta drauminn svöruðu eiginlega allar að það væri að eignast eiginmann og börn.

Þetta voru ekki samantekin ráð heldur þessar óskrifuðu reglur fegurðarsamkeppna um eiginmann, börn, útiveru og ferðalög.“

Árni og Hrönn með Sigrúnu móður sinn á Kaffibarnum á þessum árum. Mynd/úr einkasafni

„Það er enginn sem segir þér þetta en þegar maður er kominn í svona keppni veit maður til hvers er ætlast.”

Reynt var að koma hinum nútímalegu skilaboðum áleiðis með að leggja áherslu á metnað stúlknanna og þótti til að mynda afar smart að vinningshafinn sem síðar varð, Elva Dögg Melsted, væri að læra gerð internetvefja enda segir Hrönn hafa talist mjög „now“ að vera viðriðin tölvur.

Sjálf skráði hún sig í keppnina sem dagskrárgerðar- og kvikmyndagerðarkona og var talin verðugur fulltrúi nýrrar kynslóðar. Því var tekið fagnandi að hún hygðist mynda ferlið.

„En það var úlfur í sauðargæru því í grunninn var þetta ekkert annað en venjuleg fegurðarsamkeppni eins og fram kemur í myndinni,“ bætir Árni við, en hann klippti myndina og leikstýrði ásamt Hrönn.

Hlaut að vera í geðrofi

Aðspurð að því hvernig myndin hafi komið til segir Árni að Hrönn hafi fengið hugmyndina og vélað mömmu þeirra, Sigrúnu Hermannsdóttur, með sér. „Sjálfur var ég í tökum fyrir Skjá einn og hafði engan tíma í þetta og hugsaði reyndar að hún hlyti að vera í einhverju geðrofi að detta þetta í hug.“

Þar sem Árni var upptekinn lét Hrönn mömmu sína fá myndavél. Sigrún hafði aldrei mundað slíkt tól áður en reyndist afbragðs tökumaður. „Það var enginn til í þetta með mér nema mamma og ég fann að sumum fannst ég vera á egótrippi.

Kannski langaði mig bara innst inn að taka þátt í fegurðarsamkeppni en væri að fegra það?“

Sigrún hefur alltaf verið einarður femínisti og segir að í sínum huga hafi verið kristaltært frá upphafi að gera sanna og raunverulega mynd um þetta fyrirbæri, fegurðarsamkeppnir. „Sem var það afkáralegasta sem konur af minni kynslóð gerðu en aflaði þeim þó mestrar umfjöllunar,“ segir hún.

Öll eru þau sammála um að nálgunin hafi verið að stíga inn í hið óþekkta með gagnrýna hugsun.

Enn meiri sirkus

En Hrönn vildi líka vinna og taldi sig verðugan kandídat í titilinn.

„Svo uppgötvaði ég pólitíkina í þessu. Vinningshafinn mátti hvorki vera nasisti né mannæta heldur góður og samstarfsfús fulltrúi á erlendri grundu við kynningar á lambakjöti,“ segir Hrönn og bætir við að þáverandi yfirmaður útflutnings íslensks lambakjöts á erlendri grundu, Baldvin Jónsson, hafi verið í dómnefnd.

„En þetta virkaði samt allt frekar auðvelt og ég var ákveðin í að vinna og fara í Miss World til að gera enn betri mynd. Ég vissi að það væri sennilega enn meiri sirkus en hérna heima og vildi ná því á mynd.“

Hrönn Sveinsdóttir. Mynd/Sigtryggur Ari

Hrönn hafði mikinn metnað fyrir keppninni og lagði sig alla fram við að gera allt rétt.

„Ég vaknaði eldsnemma til að mæta hvar sem ég átti að vera þann daginn og skráði mig í leikfimi sem ég laug reyndar um að hafa mætt í. Málið var að hlífa sér aldrei við neinu sem var í gangi.“

Allt í einu eitthvað merkilegt

Smám saman fór hún að finna fyrir ákveðnum viðhorfum hjá fólki.

„Ég hafði verið plötusnúður og fannst ég rosalega góð í því, þótt það séu nú reyndar áhöld um það. Ég hafði líka verið að gera tilraunakenndar heimildarmyndir sem sýndar voru í kvikmyndahúsum svo og verið höfundur að sjónvarpsþáttum sem sýndir voru á RÚV.

Allt í allt fannst mér ég hafa gert miklu merkilegri hluti en að taka þátt í fegurðarsamkeppni og því furðulegt þegar að íhaldssamari armur lífs míns fór allt í einu að óska mér til hamingju með eitthvað.“

Hrönn ásamt Aðalheiði Santos Sveinsdóttur. Á þessum tíma var áhyggjuleysið í fyrirúmi en svo skall stormurinn á. Mynd/úr einkasafni.

„Núna þótti ég vera að gera eitthvað stórfenglegt með því að fara í bjánaleg viðtöl og láta tala við mig eins og ég væri 11 ára og svara hver væri uppáhalds liturinn minn og hvað ég vildi verða þegar ég yrði stór.

Það hljóp ákveðin kergja í mig varðandi þennan heim þegar að ég vissi að ég ætti að segja að ég elskaði fjólubláan og dreymdi um að gifta mig. Því þá hefði ég spilað leikinn rétt,“ segir Hrönn.

Kergja sem endaði í rugli

Eftir á séð segir Hrönn hafa eyðilagt fyrir sjálfri sér í keppninni og þar með tapað krúnunni sem hana þyrsti svo mjög í.

„Forsvarsmenn keppninnar báðu mig um að nýta efnið til að gera kostaðan sjónvarpsþátt um keppnina. Það átti að vera ekta svona „það er svo gaman að taka þátt í fegurðarsamkeppni og drekka diet Coke“ þáttur.

Ég gerði þeim aftur á móti ljóst að ég ætlaði að vinna myndina alfarið án þeirra þátttöku svo og án aðkomu styrktaraðila keppninnar í stað þess að gera auglýsingu fyrir þá.

Og með því hófst kergjan sem endaði í öllu þessu rugli.“

Árni segir að farið hafi verið að líta á Hrönn sem ógn við fyrirtækið að baki keppninni og þar af leiðandi hagnaðinn.

„Hún lét ekki að stjórn og var því gert ómögulegt að halda áfram tökum.“

Á sama tíma var Árni að gera þætti sem hétu Pétur og Páll ásamt Sindra Páli Kjartanssyni og fjölluðu þeir um ólíka vinahópa. Systkinin sáu sér leik á borði. Hrönn hætti formlega tökum undir lok keppninnar og tók Árni við. Skyldi gera þátt um stelpurnar í Ungrú Ísland.is. ,,Sem varð reyndar frábær,“ bætir hann við.

Keppnin var því mynduð til enda en myndin lá óhreyfð í heilt ár. Bæði segjast þau hafa þurft að kúpla sig frá, þau hafi aðeins misst trúna á verkefninu auk þess sem Hrönn var enn hundfúl yfir að sigra ekki. Hún landaði reyndar þriðja sæti ásamt annarri stúlku.

Hinu örfáu kommentakerfi sem þá voru til hreinlega loguðu.

Langaði í sigurinn

Hrönn er einlæg þegar talið berst að titlinum.

„Mér fannst mér hafa mistekist eitthvað sem átti að vera svo barnalega einfalt. Og kannski er ég ekki alveg komin yfir það  því ég veit að ég hefði getað spilað betri leik. Ég er enn ferlega fúl út í sjálfa mig að hafa klikkað á því og  enn hissa á hversu mig langaði í raun í sigurinn eftir að ég byrjaði. Ég sem alltaf hafði haft andúð á öllu svona og var langt því frá að vera „fegurðarsamkeppnatýpa.“

„En það var svekkjandi að fá ekki að keppa í Miss World og missa líka af því að lesa upp lottótölurnar. Það hefði getað opnað manni ýmsar dyr,“ segir Hrönn íbygginn á svip.

Ekkert þessu líkt verið gert áður

Árni segist telja að tvennt standi upp úr varðandi myndina.

„Í fyrsta lagið er þetta er fyrsta alvöru karakterdrifna heimildamyndin sem gerð var á Íslandi og því allt öðruvísi en það sem áður hafði verið gert. Í öðru lagi er þetta fyrsta, og eina, myndin á Íslandi sem hefur verið bönnuð. Tjáningarfrelsi listamanna var heft og meira að segja fagfólk í bransanum hikaði.

Það voru næstum engir tilbúnir að taka afstöðu með okkur gegn ofurvaldi fyrirtækis sem vildi stjórna hvernig myndin yrði gerð, og það án þess að hafa nokkurn tíma séð hana.“

Lögbannið

Forsvarsmenn keppninnar fengu lögbannið í gegn án þess að sjá svo mikið sem mínútu úr myndinni.

„Í þeirra huga var um áróður og illkvittni að ræða. Að við hefðum verið með faldar myndavélar til að ná myndum af fáklæddum stelpum í búningsklefum eða önnur slík vitleysa. Ástæðan fyrir þessari hörku var geðveikur skortur á ímyndunarafli og vilja til að sjá og skilja hvað við vorum í raun að gera.

Framleiðandinn okkar var líka gufuruglaður, þvertók fyrir að leyfa fólki keppninnar að sjá myndina, og fór í hart á móti með þeim afleiðingum að málaferlin urðu löng og dýr,“ segir Árni.

Hrönn og Árni. Mynd/Sigtryggur Ari

Fyrst var reynt að stoppa myndina með þeim rökum að ekki mætti ræða vörumerkið Ungfrú Ísland.is án samþykkis eigenda keppninnar.

„Sýslumaður féllst ekki á það og fóru því lögmenn keppninnar, mannréttindafrömuðurinn Ragnar Aðalsteinsson og hin unga og efnilega Sigríður Rut Júlíusdóttir, fram á bann á grundvelli persónuverndarlaga sem í þessu tilfelli trompuðu tjáningarfrelsið,“ segir Árni.

Fantasía

Hann segir þetta hafa verið snjallt hjá lögfræðingunum.

„Þau fóru til stelpnanna í keppninni og bjuggu til fantasíu um þetta hræðilega fólk sem væri að reyna að eyðileggja mannorð þeirra með upptökum af þeim berrössuðum án vitneskju eða samþykkis. Vildu þær ekki stöðva þetta?

Enginn þeirra hafði séð neitt af myndinni en með svona sögum var auðvelt að draga þær inn. Þetta hefði aldrei gerst hefðu þær verið búnar að sjá myndina.“

Stúlkunum var samt sem áður boðið að sjá myndina á ákveðnum tímapunkti en afþökkuðu í samráði við lögfræðinga. ,,Þetta var komið út í algjöra vitleysu og allt í einu voru það stúlkurnar í keppninni sem voru í máli við okkur en ekki forsvarsmenn keppninnar, sem er galið,” segir Árni.

Hrönn bætir við að sá gjörningur hafi verið í takt við annað.

„Þegar ákveðið er að halda svona keppni eru fundnir alls konar styrktaraðilar svo og fólk til að vinna við þetta á fullum launum. En það voru  ungu stúlkurnar, 18 til 24 ára, sem ætlast var til að ynnu frítt og tileinkuðu líf sitt keppninni launalaust í marga mánuði.”

Hrönn segir þær hafa vanrækt skóla og vinnu og jafnvel hætt alfarið,  til að taka þátt og unnið sleitulaust kvöld og helgar, launalaust.

„Allir fengu borgað nema þær. Þær borguðu aftur á móti með sér. Það var kjóllinn, brúnkuspreyið, hárið og meiköppið. Þetta var rándýrt og væri maður svo „heppin“ að vinna mátti eiga von á ári til viðbótar í launalausri vinnu fyrir aðstandendur keppninnar. Þetta er auðvitað snilldarleið til að græða peninga enda er enginn að halda svona keppni í góðgerðarskyni.“

Hrönn segir ógeðfellt að fá ungar stúlkur til að þrælka sér út í sjálfboðavinnu. „Þessi vinnubrögðum héldu meira að segja áfram eftir keppnina því stúlkurnar voru fengnar til að fara í mál við okkur. Ekki forsvarsmenn keppninnar.“

Allt var í pattstöðu.

Átti að svelta til uppgjafar

Hrönn og Árni voru með tilbúna mynd en sáu fram á langan og rándýran málarekstur.

Reikningarnir hrúguðust upp og segir Árni augljóst að átt hafi að svelta þau til uppgjafar enda systkinin engan vegin með sama fjárhagslega bakland og aðstandendur keppninnar.

„Það átti að frumsýna myndina í apríl en þetta hélt áfram allt sumarið og um haustið var farið í að vinna að dómsátt. Stúlkurnar voru líka orðnar órólegar enda farnar að átta sig á að þær báru ábyrgð á máli sem þær vissu ekki um hvað snerist,“ segir Árni.

Með dómsátt samþykktu systkinin að greiða málskostnað en það sem upp úr stóð var að stúlkurnar, sem slíkt kusu, gátu farið fram á að verða máðar eða „blörraðar“ út.

Hrönn minnir að þrjár hafi kosið það.

„Sem mér fannst reyndar vera æðislegur effekt fyrir myndina og æpa að fegurðarsamkeppnir séu það vafasamar að það kallaði á blörr á keppendur. Það gat ekki orðið betra. Reyndar veit ég af stelpum sem hafa tekið þátt í fegurðarsamkeppnum og vilja ekki ræða það í dag.

Kannski vilja allar stelpur sem tekið hafa þátt í fegurðarsamkeppnum láta blörra sig út síðar á ævinni?“ veltir Hrönn fyrir sér.

Frá frumsýningu.

Hrönn og Árni voru á þessum tímapunkti orðin það taugaveikluð að þau máðu einnig út gestadómarann, þýsku ofurfyrisætuna Claudiu Schiffer.

„Við vildum bara ljúka þessu og koma myndinni út. Það var enginn séns tekin á að Claudia færi líka í mál við okkur. En hún er pottþétt stolt af því að vera í myndinni því þetta er á IMBD listanum hennar,“ segir Hrönn og hlær.

En fjölskyldan var orðin langþreytt.

Kommentakerfin

Internetið var í frumbernsku en mikil heift í þeim fáu kommentakerfum sem til staðar voru.

„Fólk skiptist í tvær fylkingar og ég man alltaf eftir einum fyrrverandi keppanda í fegurðarsamkeppni sem sagði það sammerkt með öllum gagnrýnendum að þeir væru feitir, ljótir og öfundsjúkir. Þeir sem samgleddust fegurðardrottningunum væru aftur á móti yfirleitt alltaf grannir og fallegir. Umræðan fór alveg frá svona kommentum og upp í háheimspekilegar umræður um femínisma.

Reyndar er allt þetta mál skólabókardæmi um hvernig má ná fram almenningsáliti án þess að leggja fram raunveruleg málsatvik,“ segir Hrönn.

Það var fjölskyldunni ljúft að landa Eddunni.

Hún segir einnig mikla dramatík hafa verið við málsmeðferð í héraðsdómi. ,

„Ragnar Aðalsteinsson tók Matlock á þetta, gekk um með rifið plakat myndarinnar og krafðist þess að fá að vita hvar Hrönn Sveinsdóttir hefði lært kvikmyndagerð. Ég bara panikkaði og sagðist hvergi hafa lært hana. Hann var kátur með það en ég fattaði augnabliki seinna að menn á við við Friðrik Þór og Baltasar Kormák höfðu heldur ekki lært kvikmyndagerð. Af hverju að hjóla í mig? Þetta var hræðilegt.“

Hrönn, Árni og Sigrún eiga mikinn fjölda úrlippa frá þessum tíma.

Endalaust áreit

Ísland var jafnvel enn minna á þessum árum og segja þau áreitið hafa verið mikið. ,

„Fólk var að koma upp að manni og tjá skoðanir sínar en jafnvel „góða” áreitið var pirrandi. Ég vildi bara fá að vera í friði á laugardagskvöldi án þess að fólk væri að skamma mig eða hrósa mér. En auðvitað varð maður alltaf að halda andliti og reyndar lítið annað hægt í svona stöðu en að halda sig heima eða fara úr landi. Sem ég svo gerði,“ segir Hrönn.

Myndin var frumsýnd í október 2002.

Árni var í Frakklandi og beið við tölvu með öndina í hálsinum eftir viðtökum. Hrönn var aftur á móti á landinu en segir þetta hafa verið súrsæta stund.

Loksins rataði myndin á hvíta tjaldið.

„Þetta var erfitt, sérstaklega án Árna. Mamma og pabbi fóru á undan mér og ég var í fullri alvöru að gæla við að hringja ekki á leigubíl og sleppa þessu bara. Reyndar var alls konar drama í kringum frumsýninguna og jafnvel stungið upp á halda hana utan landhelgi.“

Hrönn getur ekki annað en hlegið að öllu sem á gekk.

Flúði land

Myndin fékk frábærar viðtökur og standandi lófaklapp við frumsýningu.

„Það sem kom samt mest á óvart var hversu hissa allir voru. Fólk hafði búist við einhverri rætni og illgirni sem aldrei var til staðar,“ segir Árni. Hrönn bætir við að ekkert skítkast sé í myndinni, aðeins gagnrýni byggð á hennar eigin reynslu um hvernig svona maskína geti farið með fólk.

Sigrún er að nálgast áttrætt. Hún er enn jafn ákveðin í skoðunum og jafn stolt af börnum sínum. Hún segir þetta hafa verið einkennlegan tíma. Mynd/Sigtrygur Ari

Hrönn flúði land enda búin að fá nóg. Árni var mikið við störf erlendis en segist hafa fundið fyrir að vera stimplaður „vandræðagemlingur“ vegna myndarinnar.

Það var fjölskyldunni því huggun harmi gegn að fá Edduna og segja þau það hafa verið ljúfan sigur.

Allir höfðu skoðun á málinu og var myndin næstum daglega til umfjöllunar þessa mánuði.

Myndin fór á fjölda hátiða erlendis og fóru Hrönn og Árni á sumar þeirra. Þau voru þó að mestu leyti búin að fá nóg og sneru sér að öðru.

Þau segja mjög furðulega tilfinningu að fara yfir þennan tíma í dag.

„Hefðum við gert þetta vitandi hvað biði okkar? Ég veit það ekki. Sjáum við eftir þessu? Hell NO.

Þetta var geggjaður lærdómur og það er ekki eins og við höfum verið að velta okkur upp úr þessu. Það er helst núna tvo síðustu mánuðina sem við höfum rifjað upp hversu langt þetta í raun gekk,” segir Árni.

Hef engu breytt

Hrönn segir að í dag sé þunginn af gerð slíkrar myndar farin með símum og samfélagsmiðlum.

„Þetta var ákveðinn forveri og í dag væri þessi mynd sennilega Instagram story eða TikTok myndband og allt mun þægilegra.“

Hrönn Sveinsdóttir Mynd/Sigtryggur Ari

Hún hefur í engu breytt skoðunum sínum.

„Það er enn verið að selja stelpum ömurlega ímynd um að þær þurfi að kaupa alls kyns drasl til að vera fallegar. Annars séu þær einskis virði. Þetta er ömurlegur bransi en var stórmál þegar ég var að alast upp og hreinlega það merkilegasta sem kona gat gert í lífinu. Maður sá næstum aldrei konur fá viðlíka athygli og stelpurnar sem unnu fegurðarsamkeppnir.“

Hrönn hlær aðspurð hvort hún haldi sambandi við meðkeppendur sínar.

„Nei, það er er lítið um það. Sem minnir mig á að ég þarf að bjóða þeim á sýninguna. Ég vona að þær mæti,“ bætir Hrönn Sveinsdóttir, keppandi í fegurð, kvikmyndagerðarmaður og framkvæmdastjóri Bíó Paradís við.

Hér má sjá nýja stiklu úr myndinni:

Í skóm drekans verður sýnd þann 24. september í Bíó Paradís

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram