Ástralska listasafnið í Sydney sætir harðri gagnrýni fyrir að leyfa karlmanni, klæddum kvenkyns undirfötum, að leika með Lego kubba á viðburði ætluðum börnum.
Kona, sem vakti athygli fjölmiðla á málinu, kallar þetta „ógeðslegt“ og segir að hún hefði krafist þess að safnið myndi reka manninn út, en öryggisverðir hefðu neitað. Konan birti myndir frá viðburðinum á Twitter, en hefur síðan þá eytt þeim. Málið hefur vakið talsverða athygli í Ástralíu og gagnrýndi fjölmiðlamaðurinn Ben Fordham ástralska listasafnið í beinni á útvarpsstöðinni 2GB.
„Ég er ekki viss með þetta, ég hvet ykkur til að skoða myndirnar. Mér finnst þetta krípí,“ sagði hann.
Talsmaður safnsins segir í yfirlýsingu að safnið sé öruggur staður fyrir alla.
Myndirnar voru teknar á viðburðinum „Nights at the Museum“ í síðasta mánuði og má sjá þar nokkur börn leika með Lego, og fullorðinn karlmann klæddum uppháum sokkum, undirfötum og jakka. Við hliðina á honum er annar fullorðinn einstaklingur með hatt.
„Þið leyfið karlmanni í blætisfatnaði að leika sér með börnunum í Lego,“ segir konan sem tók og birti myndirnar.
„Þegar ég talaði við öryggisvörðinn sagðist hann ekkert geta gert og benti mér á manneskjuna sem skipulagði viðburðinn. Hann sat þarna með allt stykkið sjáanlegt. Ógeðslegt!!“
Í yfirlýsingu frá safninu kom fram að „einstaklingarnir í fínu fötunum héldu sig út af fyrir sig og höfðu ekki gert neitt rangt.“
Talsmaður safnsins sagði í samtali við News.au að safnið væri „öruggur staður þar sem allir eru velkomnir.“
Hann sagði einnig að ekkert annað foreldri eða annar safngestur hefðu kvartað vegna málsins, en til að tryggja að öllum líði vel á næstu viðburðum, munu legósvæðið aðeins vera opið börnum héðan í frá.