Bandarísk fjölskylda samanstendur af tveimur mæðrum og tveimur feðrum, þau eru fjögur í sambandi og því fjölkær (e. polyamorous).
Taya og Sean Hartless kynntust Alysiu og Tyler Rodgers á netinu árið 2019 í von um að krydda upp á kynlífið. En hjónin smullu saman og urðu öll ástfangin hvert af öðru. LadBible greinir frá.
Árið 2020 fluttu þau öll inn saman og hafa síðan þá eignast tvö börn. Fyrir áttu Alysia og Tyler tvö börn. Þar sem þau sofa öll fjögur saman vita þau ekki hver feðraði yngstu tvö börnin og þau segjast vilja halda því þannig.
Taya viðurkennir að sumir fjölskyldumeðlimir hafa ekki tekið aðstæður þeirra í sátt, en þrátt fyrir það myndu þau ekki vilja breyta neinu. Hún segist trúa því að þetta sé besta leiðin til að ala upp börn.
„Ekkert okkar var fjölkært fyrir þetta, en við bara kynntumst og urðum ástfangin,“ segir Taya.
„Við komum öll að uppeldi barnanna, við erum ein stór hamingjusöm fjölskylda. Margir skilja ekki út á hvað fjölástir ganga eða telja þetta vera óheilbrigt og skrýtið.“
Taya segir þau glíma vissulega við einhver vandamál eins og flestar fjölskyldur.
„Það er alveg rétt að þetta hefur ekki alltaf verið auðvelt og það tók mig smá tíma að viðurkenna loksins að ég hefði tilfinningar til einhvers annars, og við verðum að sjálfsögðu stundum afbrýðisöm,“ segir hún.
„En núna er þetta svo eðlilegt, og ég er svo þakklát að eiga nokkra maka sem koma að uppeldi barnanna. Af hverju ætti maður ekki að vilja meiri ást og stuðning og bara fleiri hendur til að hjálpa?“
Taya, 27 ára, giftist Sean, 45 ára, árið 2015. Alysia, 33 ára, giftist Tyler, 35 ára, árið 2012, og eignuðust þau tvö börn, son, 8 ára, og dóttur, 6 ára.