„Þegar ég byrjaði að plana ferðina spurði ég Jack hvort hann væri til í að fara til Íslands. Hann var ekki tilbúinn í að flytja alfarið frá Svíþjóð en þegar hann vissi að þetta yrði hálft ár var hann meira en til í ævintýrið.“
„Hér á hann fjölskyldu og vini, þetta er hans land, hans menning og íslenskan er hans tungumál,“ segir Annika Wiel Hvannberg.
Annika er sænsk og ekkja bæklunarskurðlæknisins Jónasar Hvannberg sem lést aðeins 35 ára gamall árið 2013 eftir stutta baráttu við ristilkrabbamein. Hún og Jack, 8 ára sonur þeirra Jónasar, komu til Íslands í janúar og hyggjast dvelja fram í júlí.
Bæði lönd jafn mikilvæg
Með ferðinni vill Annika að Jack nái að þekkja bæði lönd foreldra sinna og líði jafn vel í þeim báðum.
„Mér finnst þetta mjög gaman en ég er að gera þetta fyrir Jack. Ég lofaði pabba hans áður en hann dó að Jack myndi alltaf þekkja fjölskyldu Jónasar á Íslandi. Fjölskylda Jónasar hefur verið okkur svo dásamleg og við finnum hvað þau vilja hafa okkur hér á Íslandi hjá sér.“
Annika hafði lengi gengið með hugmyndina í maganum en var í vinnu og sambúð í Svíþjóð.
„Jack var líka svo lítill að ég vildi ekki fjarlægja hann úr sínu umhverfi. Við reyndum að fá íslenskukennslu fyrir hann í Svíþjóð en bærinn okkar er of lítill til að hann fengi þá þjónustu. En svo lauk sambandinu og Jack var kominn á réttan aldur og vildi læra tungumálið og meira um Ísland.“
46/46/8
Hún fór að bera hugmyndin undir fólk sem fannst hún frábær og hvatti þau til að láta vaða. En það þurfti margt að smella saman. ,
„Jack þurfti að fá leyfi frá skólayfirvöldum í Svíþjóð og skólavist á Íslandi, við þurftum að finna húsnæði og ég þurfti auðvitað að finna vinnu. Ég bjó í Danmörku í fimm ár og hef flutt svo oft að mér finnst ekki mikið mál að flytja. Þetta gekk líka allt eins og í sögu, mesta vesenið var að leigja út okkar hús og finna húsnæði fyrir kettina okkar þrjá.
Við fundum þennan indæla Frakka sem elskar ketti og var í leit að húsnæði svo það gekk allt upp.“
Jack sest hjá Anniku og mamma hans hellir kaffi í bolla hann.
,,Jack hefur drukkið kaffi frá því hann var smábarn,” útskýrir Annika brosandi, augljóslega vön spurnarsvip. Aðspurður um hvort honum finnist hann meira sænskur eða íslenskur segist Jack vera jafn mikið. ,,Og ég er pínulítið danskur líka. Ég er 8% danskur, 46% íslenskur og 46% sænskur,“ segir Jack af miklu öryggi.”
Jack er augljóslega lunkinn í stærðfræði þrátt fyrir ungan aldur.
Hræðilegur mars
Annika þekkir Ísland vel, þau Jónas komu oft í heimsókn og Jack er skírður hér á landi.
„Ég elska Ísland, mér finnst landið frábært. Við komum ekki með nein plön en ætlunin var að nýta helgar og frídaga í að ferðast um landið. Við erum búin að ferðast svolítið um, farið í göngur og á skíði en þetta hefur verið erfitt. Við komumst einu sinni í Bláfjöll en urðum að flýja veðrið eftir tvo tíma. Þess vegna höfum við verið ansi mikið inni, sérstaklega í mars sem var alveg hræðilegur, en eigum fjölskyldu og vini sem hafa verið okkur mjög góð og dugleg við að hafa okkur með í öllu. En já, veðrið hefur stoppað okkur svolítið af.
Ekki það að við höfum ekki átt von á því en á eyju ferðu ekki upp í bíl og keyrir einfaldega burt eins og við gátum í Danmörku.“
Á réttum forsendum
Fyrir utan að hitta ættingja og vini og skoða landið er ein meginástæða ferðarinnar að Jack, og reyndar Annika líka, læri íslensku.
„Jack hefur komið tvisvar einn, afi hans sótti hann til Svíþjóðar og hann var viku í hvort skiptið. En ég vil að hann njóti að vera með föðurfjölskyldunni og geti komið hingað einn og verið í nokkrar vikur og mánuði í senn þegar hann verður eldri. Þá er gaman að hann eigi ekki bara fjölskyldu hér heldur líka vini og geti talað við alla á íslensku.
Ég vil ekki að Ísland sé staður sem hann fer í frí til heldur að hann þekki upplifunina af því að búa á Íslandi og geti tekið upplýsta ákvörðun þegar hann verður eldri hvort hann vilji dvelja á Íslandi. Ef hann vill til dæmis fara í gamla menntaskóla pabba síns á Íslandi, MR, þá hefur hann forsendurnar til að taka slíka ákvörðun.“
Jack tekur undir með mömmu sinni og segist vel getað hugsað sér að koma aftur til Íslands í nám.
Væri frábært að þjálfa á Íslandi
Annika var handboltastjarna í Svíþjóð, var útnefnd besta handknattleikskona Svíþjóðar árið 2006 og var hluti af stjörnuliði EM sama ár. Hún vann til silfurverðlauna á EM 2010 og tók þátt á tveimur Ólympíuleikum á ferlinum.
Aðspurð um hvort hún hafi íhugað að þjálfa á Íslandi segist hún myndi hafa elskað það en þjálfunin kalli á vinnu um kvöld og helgar.
Hugmyndin var alltaf að við Jack yrðum sem eining að uppgötva land og þjóð og því gat ég ekki farið að vinna of mikið.“
Annika útilokar samt ekki að snúa aftur til Íslands og þá til lengri tíma. „Það væri frábært að geta unnið við handboltaþjálfun á Íslandi í framtíðinni. Ef að Jack myndi vilja koma aftur myndi ég alveg skoða það, ekki spurning.“
Jack kinkar kolli og segist meira en til í að skoða það.
Hestur eða hest?
Annika var í kennaranámi í Svíþjóð þegar kom að Íslandsferðinni og vinnur á leikskóla á Íslandi.
„Börnin eru frábærir íslenskukennarar og snögg að leiðrétta mig þegar ég tala vitlaust,“ segir hún og Jack segir vini sína gera hið sama.
Bæði eru þau reyndar orðin býsna lunkin miðað við aðeins þriggja mánaða dvöl. Annika segist samt hafa haldið að þau yrðu fljótari að ná tökum á íslenskunni.
„Ég er óþolinmóð, hvað annað get ég sagt!“ segir Annika og hlær.
„En ég elska tungumál og er fljót að læra þau. Í Danmörku hlustaði ég á fólk og var snögg að ná dönskunni en það er ekki hægt með íslenskuna, það þarf virkilega að leggja sig fram við að ná tungumálinu. Við reynum að tala eins mikið saman á íslensku og við getum og deilum á kvöldin þeim orðum við lærðum þann daginn.“
Hún er afar þakklát hversu duglegir allir eru að tala bara íslensku við mæðginin.
„Ég hata að tala rangt þótt ég auðvitað geri það. Þessar íslensku beygingar? Hestur eða hest?“ Annika andvarpar og hristir höfuðið.,,Það er einfaldlega mjög erfitt að ná tökum á íslenskunni.“
Annika og Jack eru ákveðin í að halda áfram að tala saman á íslensku eftir að þau fara aftur heim til Svíþjóðar.
„Jack bað mig um það og ég er meira en til í það. Ég vil að hann viðhaldi íslenskunni sem hann lærir hér. Það getur orðið okkar leynitungumál og enginn veit um hvað við erum að tala,“ segir Annika og bikkar Jack.
„Ég vil líka taka með heim menninguna og bókmenntirnar og við munum halda áfram að læra allt það sem okkur gefst ekki tími til núna.“
Einstök ást
Annika og Jónas fengu aðeins eitt og hálft ár saman, veikindin dundu hratt yfir og segir Annika að þau hafi á þessum skamma tíma gengið í gegnum heila lífstíð af reynslu.
„Samband okkar Jónasar var einstakt og dásamlegt og allt það yndislegasta sem ástarsamband getur falið í sér. Ég náði að kynnast honum, faðma hann og elska en þetta er verra fyrir Jack sem saknar pabba síns og er dapur yfir að hafa ekki náð að kynnast honum.
Það er erfitt að alast upp föðurlaus í okkar samfélagi þar sem flestir krakkar eiga tvo foreldra. Stundum spyr ég mig af hverju ég lagði þetta á hann en við Jónas vildum eignast börn saman og ég fór í glasafrjóvgun því við héldum að Jónas ætti miklu meira eftir.
En hann lést tveimur dögum síðar.“
Líður bara þannig
Annika þagnar og strýkur hárið á syni sínum.
„Jack er ekki bara líkur pabba sínum í útliti, ég sé svo mikið af Jónasi í honum öllum. Jack er eins og pabbi sinn, góðhjartaður, fyndinn og eldklár. Ég sé líka mikið af sjálfri mér í honum enda erum við mjög náin og höfum alltaf gert allt saman og enn meira hér á Íslandi.“
Jack er sammála og segir gaman að vera með mömmu enda sé hún skemmtileg. „Næstum alltaf,“ bætir hann við.
Finnst Jack hann ná meiri tengingu við pabba sinn á Íslandi? Jack hugsar málið. „Já, en ég veit ekki af hverju. Mér líður bara þannig,“ segir hann.
„Hér getum við líka heimsótt leiðið hans sem er yndislegt,“ bæti Annika við.
Einangrunin erfið
Aðspurð um mestu breytinguna við Íslandsferðina segja mæðgin að fyrir utan fjölskyldu og vini, sakni kattanna sinna mjög mikið enda sé ekki unnt að spjalla við þá í gegnum netið.
„Jack er líka mjög virkur í félagslífi heima, er í handbolta, fótbolta, frjálsum og skátunum og bókstaflega öllu. Hann hefur prófað handbolta hér á Íslandi og á vini hér en það er ekki eins þegar hann talar ekki tungumálið. Og þegar að veðrið var sem verst vorum við mjög einangruð hér í íbúðinni. Fyrir mig sem móður var erfitt að horfa upp á hann vera svona mikið einan.
Hann er í sambandi við vini sína í Svíþjóð í gegnum netið en það er ekki það sama og þegar vinir banka upp á og vilja leika.“
Jack er í Hofsstaðarskóla og er hæstánægður með dvölina þar og hefur eignast fjölda vina. Hann segir mikið af skemmtilegum dögum sem ekki séu í Svíþjóð og nefnir dótadag og öskudag, sem honum fannst algjörlega frábær.
En það eru norðurljósin sem heilla Jack mest. „Við förum út á kvöldin að leita að norðurljósunum og höfum náð að sjá þau nokkrum sinnum,“ segja þau mæðgin.
Vöxum sem einstaklingar
Annika og Jack verða fram í miðjan júlí og vonast eftir að betra veður veiti meiri tækifæri til að skoða landið.
„Við komum með Norrænu og erum því með bíl sem er þægilegt. Við ætlum að ganga Þórsmörk, fara á fjöll og keyra um Vestfirðina. Auðvitað gætum við lengt ferðina og verið allt íslenska sumarið en okkur langar líka að njóta sænska sumarsins. Svo eru það fjölskylda og vinir. Afi hans, pabbi minn, er til dæmis áttræður í dag og það er erfitt að vera frá honum á afmælisdaginn,“ segir Annika.
„Við förum héðan með óskaplega dýrmæta reynslu og höfum vaxið sem einstaklingar. Jack veit hvernig er að vera nýi krakkinn og kunna ekki tungumálið svo kannski hann komi til með að hjálpa krökkum í sambærilegum aðstæðum heima í Svíþjóð?“ segir Annika og lítur á Jack sem kinkar kolli við hugmyndina.
Fólkinu í Bónus finnst við stórskýtin
Það var ekki margt sem hefur komið Anniku á óvart við Íslandsdvölina.
„Eitt kom mér mjög á óvart. Vinir og fjölskylda hafa verið okkur frábær en ég hafði aldrei tekið eftir því áður hversu lokaðir og fjarlægir Íslendingar geta verið þegar maður þekkir þá ekki. Sem breytist um leið og maður nær að kynnast fólki,“ bætir hún við.
Annika segist einnig hafa tekið eftir alls kyns litlum hlutum sem séu öðurvísi en hún á að venjast.
„Sjáðu til dæmis garðpalla. Pallarnir á Íslandi eru yfirleitt litlir þótt að garðurinn sér risastór. Ég skil bara ekki af hverju.“ Annika hlær og tekur til annað dæmi.
„Við vorum mjög hissa þegar að við fórum í matvöruverslun í fyrsta skipti því Íslendingar setja allar vörurnar í hrúgu á færibandið. Við höfðum aldrei séð það áður því í sænskum matvöruverslunum verður að setja vörurnar í línu og strikamerkið þarf alltaf að snúa að kassastarfsmanninum. Við gerum það gömlum vana, erum alveg ýkt sænsk og röðum öllu afar snyrtilega.
En fólkinu í Bónus finnst við stórskrýtin og það er alveg hrikalega fyndið að sjá okkur við röðunina. Við erum svo óskaplega „rétt“ eitthvað í Svíþjóð, erum allt að þýsk í reglufestunni okkar.“
Læt ekki depurðina ráða lífi mínu
Annika segir sorgina og söknuðinn eftir Jónasi alltaf vera til staðar og það muni aldrei breytast, ekki síst þar sem Jack alist upp án föður.
„Ég var spurð af sænskum blaðamanni hvort ég fyndi til biturðar en svo er ekki. Ég er döpur en læt ekki depurðina ráða lífi mínu heldur er ég þakklát fyrir að hafa átt þessar stundir með honum.“
„Það er erfitt að útskýra það, þetta verður alltaf erfitt, en ef ég ætti tímavél myndi ég engu breyta því annars ætti ég ekki Jack. Jónas mun alltaf eiga svo stóran hlut í hjarta mínu og hann verður alltaf með mér.
Ég er mikil fjölskyldumanneskja og gerði aðra tilraun en það gekk ekki upp. Ég á draum um að það rætist kannski þegar staður og stund eru rétt.“
Myndi ekki breyta neinu
Annika segir að mörgu leyti erfitt að ala ein upp barn og fara á mis við margt af því sem aðrir telji eðlilegt.
„Það er ekki tíminn sem fer í uppeldið, það er ábyrgðin sem fylgir því að vera alltaf eini ákvörðunartökuaðilinn. Stundum tek ég réttar ákvarðanir og stundum tek ég auðvitað rangar, allir foreldrar gera það, en ég hef engan til að taka undir með mér eða þá segja mér að ég sé að gera vitleysu.
Ég verð að treysta á eigið á innsæi og það getur verið erfitt. Ég myndi aldrei breyta neinu en myndi ekki ala ein upp annað barn ein míns liðs.“
Fólk hafði oft orð á því hversu sterk Annika væri í sorginni.
„Hluti af hjarta mínu mun alltaf verða brotinn en það er partur af lífinu. Ég hef ekkert verið sérstaklega sterk, maður gerir bara það sem þarf að gera. Það sem ég hef lært í gegnum þetta allt er að gera lífið ekki erfiðara en það þarf að vera.
Ekki láta reiðina stjórna þér eða missa út úr þér ljóta hluti við fólk því þú veist aldrei hvað bíður þín í lífinu. Gerðu það besta sem þú getur gert við líf þitt,“ segir Annika Wiel Hvannberg.