Ragnhildur Þórðardóttir er landsþekkt sem Ragga nagli og er virk á samfélagsmiðlum undir því nafni þar sem hún skrifar um heilsu á mannamáli.
Hún segir frá mjög vandræðalegu, en fyndnu fyrir lesendur, augnabliki sem hún upplifði í gær. Færslan hefur slegið í gegn og vakið mikla kátínu meðal netverja.
„Instagram og Feisbúkk er ekki alltaf glimmer og glamúr,“ segir Ragga Nagli áður en hún útskýrir hvað hefði gerst.
„Í gær átti Naglinn eitt sitt vandræðalegasta móment í ræktinni. Hamagangur í hámarki í Crossfit brjálæði og þá byrjar tími á gólfinu svo Naglinn færir sig fyrir framan ketilbjöllurekka sem liggur alveg við endann á gólfinu og klárar djöfulganginn. Svo er dýna sótt og kviðæfingar mundaðar. Eins og oft vill verða í kviðæfingum þá vildi eiturgufa losna úr þörmum og finna sér leið út í kosmósið,“ segir hún og heldur áfram.
„Þar sem Naglinn lá alein í heiminum, eins og Palli greyið, þá var leyst úr læðingi ein góð þruma og lyktin skákaði öllum gufuhverum landsins til samans. Og auðvitað eins og örlög heimsins vilja stundum haga því, þá akkúrat á því sekúndubroti kemur hver einasti kjaftur sem var í tímanum til að sækja ketilbjöllur og allavega fimmtán manns löbbuðu lóðrétt inn í eiturskýið sem umlukti Naglann. Og litu öll sem eitt niður á Naglann… í bókstaflegri merkingu.“
Það var engin leið fyrir Röggu að koma sér úr aðstæðunum. „Því enginn annar kom til greina sem eigandi lyktarinnar en stúlkan sem lá þarna á gólfinu,“ segir hún.
Saga Röggu Nagla sýnir okkur að glansmyndin sem við sjáum á samfélagsmiðlum sé ekki veruleikinn. „Veruleikinn er oftar vindgangur og vandræðalegheit. Mistök og myglugangur. Óheppni og ófarir,“ segir hún.
Þú getur lesið pistillinn í heild sinni hér að neðan.