fbpx
Föstudagur 13.desember 2024
Fókus

Elly kveður: Synir Ellyjar fengu undirskrift móður sinnar að gjöf – „Ég er gífurlega þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir því að leika þessa mögnuðu konu“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 16. júní 2019 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í gærkvöldi var lokasýning á Elly í Borgarleikhúsinu. Sýningin hefur slegið öll met frá því hún var frumsýnd 18. mars 2017; Elly er sú sýning sem hefur verið sýnd oftast á Stóra sviðinu, fjöldi áhorfenda varð 104.446 talsins og lokasýningin var sú 220 í röðinni sem er líka met.

Sýningar á Elly hófust á Nýja sviðinu, þar sem stemningin var líkt og áhorfendur sætu á næturklúbbi að hlusta á Elly og hljómsveit. Fljótlega var þó ljóst að færa þurfti sýninguna á Stóra sviðið til að geta annað eftirspurn og var það gert haustið 2017 og fyrsta sýning þar var 31. ágúst 2017.

Lokasýningin í gær var engin undantekning, löngu uppselt og margir góðir gestir í salnum, þar á meðal forsetahjónin, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. Eftir sýninguna steig Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri á svið, þakkaði fyrir og tilkynnti að allir þeir sem hefðu tekið þátt í sýningunni fengju hálsmen með undirskrift Ellyjar að gjöf frá leikhúsinu.

Nökkvi og Máni, synir Ellyjar og Svavars Gestssonar, tónlistarmanns og stofnanda SG-hljómplötur, voru viðstaddir sýninguna og kallaði Gísli Örn Garðarsson, leikstjóri og annar handritshöfund,a sýningarinnar, þá á svið. Fengu þeir einnig hálsmen að gjöf með áritun móður sinnar, en Nökkvi fann áritunina eftir leit í dansk-íslenskri orðabók frá árinu 1973, sem móðir hans átti, en hún var vön að merkja allar bækur sínar.

Þjóðargersemin Raggi Bjarna steig á svið og tók lagið My Way með Katrínu Halldóru, en Raggi Bjarna hefur mætt á allar sýningar og tekið lagið í lokin. Lét hann veikindi ekki aftra sér frá því að mæta í gær.

Katrín Halldóra Sigurðardóttir sem brugðið hefur sér í gervi Ellyjar skrifaði kveðjuorð í Facebook-færslu í gær, en Katrín hefur hlotið einróma lof fyrir túlkun sína á Elly og þykir einstaklega lík söngkonunni, bæði í útliti og söng.

„Ég er gífurlega þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir því að leika þessa mögnuðu konu. Ég elska að syngja öll fallegu lögin hennar og að segja söguna hennar eins vel og ég mögulega get.
Ég er meir og glöð á sama tíma. Hópurinn sem að sýningunni stendur er lítill og náinn og þetta er búið að vera önnur fjölskylda mín, allt dásamlegir listamenn sem voru forréttindi að vinna með.
Takk allir áhorfendur fyrir komuna til okkar á þessar 220 sýningar sem hafa allar verið sýndar fyrir troðfullu húsi.
Takk fyrir mig!“

Blaðamaður Fréttablaðsins fylgdist með lokasýningunni og í myndbandi má sjá leikarana hafa sig til baksviðs og fleira.

Mikil leynd hvíldi yfir því í upphafi hver myndi bregða sér í búning Ellyjar, var það aðeins til að auka eftirvæntinguna, enda Elly ein dáðasta söngkona landsins, fyrr og síðar. Í fyrsta plakati sýningarinnar kom ekki fram hvaða söngkona tæki að sér hlutverk Ellyjar og nafns hennar var ekki getið og því aðeins hægt að giska hver ætti þennan baksvip.


Bók Margrétar Blöndal var notuð sem heimild fyrir verkið auk fjölmargra frásagna frá vinum og kunningjum Ellyjar. Í sýningunni er farið yfir ævi og störf Ellyjar, bæði sem opinber persóna og söngkona og gleði og sorgir hennar í einkalífinu.


Elly hóf feril sinn sem söngkona á sjötta áratug síðustu aldar með KK-sextettinum þegar hún var aðeins 17 ára gömul eftir að hafa séð auglýsingu í Morgunblaðinu. Eftir sjö ár í sviðljósinu söng hún inn á sína fyrstu plötu. Hún varð svo landsfræg söngstjarna á Íslandi tveimur árum síðar þegar hún söng kvikmyndalagið Vegir liggja til allra átta inn á plötu. Það var mikill kostur fyrir hana að geta sungið inn á hljómplötur og þurfa ekki að standa á sviði öll kvöld. Síðustu árin tók hún upp þráðinn og söng með danshljómsveitum þegar það hentaði henni.

Aðstandendur Elly í Borgarleikhúsinu:
Höfundar: Ólafur Egill Egilsson og Gísli Örn Garðarsson
Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir
Leikmynd: Börkur Jónsson
Lýsing: Þórður Orri Pétursson
Tónlistarstjóri: Sigurður Guðmundsson
Leikgervi: Árdís Bjarnþórsdóttir
Höfundur sviðshreyfinga: Selma Björnsdóttir |
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Sýningarstjóri: Christopher Astridge
Leikarar: Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Björgvin Franz Gíslason, Hjörtur Jóhann Jónsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Björn Stefánsson
Hljómsveit: Aron Steinn Ásbjarnarson, Björn Stefánsson, Guðmundur Óskar Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson og Örn Eldjárn

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Í gær

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram