fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Séra Helgi játaði kynferðisbrot gegn Ingvari og tveimur öðrum – „Ég leit upp til hans sem barn og treysti“

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 4. september 2018 20:00

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2010 játaði Helgi Hróbjartsson, prestur og trúboði, fyrir fagráði um kynferðisbrotamál innan kirkjunnar að hafa framið kynferðisbrot gegn þremur ungum drengjum 25 árum áður. Brot Helga fólust annars vegar í kynferðislegu ofbeldi og hins vegar í kynferðislegri áreitni. Ingvar Valgeirsson er einn þeirra manna sem kærðu Helga og segist Ingvar ávallt hafa vonað að hann væri eina fórnarlamb Helga, en tíminn hafi leitt í ljós að drengirnir sem Helgi leitaði á voru mun fleiri. Ingvar segist vera gríðarlega heppinn að ekki hafi farið verr í hans tilviki.

„Ég byrjaði í KFUM á Akureyri árið 1985, þegar ég var 13 ára gamall,“ segir Ingvar, sem starfar í dag sem tónlistarmaður og verslunarstjóri í Hljóð X og hljóðfæraversluninni Rín. „Þetta var yndislegt starf og þarna kynntist ég fjölda góðs fólks, og enn þann dag í dag höldum við gömlu KFUM-arnir óreglulegu sambandi. Þar eignaðist ég marga vini og kunningja sem ég mun eiga alla tíð, sumir þeirra hafa reynst mér gríðarlega vel eftir að þetta mál kom upp.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Fljótlega eftir að Ingvar byrjaði í KFUM, þótt hann muni ekki tímann nákvæmlega, kom séra Helgi Hróbjartsson sem gestur á samkomu. Á þeim tíma hafði Helgi verið kristniboði í Afríku og starfaði sem afleysingaprestur í Hrísey og fór hópur Ingvars í KFUM minnst eina ferð til Hríseyjar að heimsækja hann.

„Hann kom frá Afríku með alveg magnaðar sögur, sem maður vissi svo sem ekki hvort voru sannar eða ekki,“ segir Ingvar, sem lýsir Helga sem góðum ræðumanni og lífsreyndum manni, en á þessum tíma var Helgi rúmlega fimmtugur.

„Þarna var ég lítill og óframfærinn og svona eftir á að hyggja kannski draumaskotmark fyrir níðinga. Helgi var mjög vinalegur við mig strax, og mér þótti það merkilegt að þessi maður sem var búinn að vera í sjónvarpi, útvarpi og blöðum, maður sem manni fannst frægur maður og mjög þekktur, skyldi hafa áhuga á að tala við mig.“

Helgi Hróbjartsson viðurkenndi að vera barnaníðingur og að hafa brotið á þremur börnum.

Helgi var heillandi og undirbjó jarðveginn vel

Að sögn Ingvars var Helgi heillandi maður og sannfærandi og segir hann fullorðna fólkið hafa hrifist af honum. Segir Ingvar að nokkur börn hafi þó ekki hrifist af Helga, en þau hafi verið í minnihluta. „Það var oftar en ekki vegna þess að hann var með ákaflega gamaldags og asnalegar skoðanir á tónlist. Hann vildi til dæmis ekki hafa trommur með í tónlistinni af því að þær voru af hinu illa. Eftir á að hyggja er svolítið fyndið að slíkt hafi komið frá manni sem var svo uppvís að því að misnota börn.“

Síðla árs 1985, eða snemma árs 1986, byrjaði Helgi þegar hann var staddur á Akureyri að hringja heim til Ingvars. „Hann bauð mér í flugtúr til Húsavíkur. Þá vissi hann, og sagði mér það, að hann vissi að foreldrar mínir væru ekki heima. Ég man að mér fannst furðulegt að hann vissi það. Við hittum pabba á flugvellinum á Húsavík og ég er ekki viss hvor þeirra var meira hissa, pabbi eða Helgi. Við fórum aldrei af flugvellinum og inn í Húsavíkurbæ, eins og til stóð, en seinna bauð Helgi mér í bíltúr.“

„Þarna sá ég að Helgi var ekki sá maður sem hann gaf sig út fyrir að vera“

Sumarið 1986 þegar Ingvar var 14 ára voru foreldrar hans að heiman og þótti ekki tiltökumál að unglingurinn væri einn heima.

„Þá bauð Helgi mér í bíltúr út í sveit, sem mér þótti skrítið,“ segir Ingvar og bætir við að þarna hafi greinilega einhver rauð ljós verið farin að gera vart við sig um að vinalegheit Helga við hann væru ekki eðlileg.

„Helgi stoppaði bílinn einhvers staðar og ég sagði við hann að ég þekkti fólkið á næsta bæ, sem var reyndar haugalygi. Þá keyrði hann annað og ég sagði aftur við hann að ég þekkti fólkið þarna á hverjum bæ.“

Þá ákvað Helgi að keyra til Akureyrar aftur og tjalda á tjaldsvæðinu þar. Ingvar ætlaði að ganga heim, þegar Helgi bað hann um að koma og tala við sig inni í tjaldinu.

„Ég fór inn, þá greip hann mig og ætlaði að kyssa mig. Hann hélt mér fast og kyssti mig beint á munninn og ég herpti varirnar saman. Mér fannst eins og hann hefði verið að troða tungunni í kokið á mér, sem mér fannst ekki eftirsóknarvert, og ég man að ég beit mig í tunguna og fann blóðbragðið. Ég reif mig lausan, fór út úr tjaldinu, stoppaði og sagði bless og hljóp heim.“

Aðspurður af hverju Ingvar fór ekki til lögreglunnar eða sagði foreldrum sínum frá, segir hann málið ekki þess eðlis að hægt hafi verið að fara með það til lögreglunnar, en það hafi verið mikið áfall að upplifa að maðurinn sem hann leit upp til hafi ekki verið sá maður sem hann gaf sig út fyrir að vera. „Ég sagði ekki foreldrum mínum frá þessu, sem voru mistök að sjálfsögðu, en ég var bara 14 ára og það voru engar leiðbeiningar um þetta, ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Ég sagði heldur ekki mörgum frá þessu fyrst um sinn.

Þetta sat alltaf í mér. En það sem hafði mögulega gerst var að frá því að Helgi hitti litla óframfærna strákinn sem fór með veggjum, og þar til hann lét loks til skarar skríða, hafði þessi frábæri félagsskapur sem ég var í breytt mér í aðeins ákveðnari strák þannig að draumafórnarlambið var ekki alveg „drauma“ lengur, eða það hugsa ég svona eftir á.“

Eftir atvikið hélt Helgi áfram heimsóknum í KFUM, en Ingvar reyndi að forðast hann og varaði einnig einhverja aðra stráka við Helga. Í eitt skipti segist hann hafa svarað Helga með skætingi, þegar umræður komu upp um skoðanir hans á tónlist og trommum og mörgum árum seinna kom í ljós að aðrir tóku eftir að vinskapur Ingvars og Helga var fyrir bí.

Eftir að upp komst um níðingsverk Helga fékk hann ekki að starfa áfram innan kirkjunnar.

„Maður óskar engum manni að lenda í svona“

Ingvar tekur fram að brot Helga gagnvart honum hafi verið smærra en gagnvart öðrum þolendum hans, líkt og seinna kom í ljós, en engu að síður alvarlegt: „Fimmtugur maður grípur ekki 14 ára strák og reynir að troða tungunni ofan í kok á honum og káfar á honum.

Ég fór að sperra eyrum – hvort ég heyrði af fleiri slíkum tilvikum og ég vonaði heitt og innilega að hann hefði ekki gert þetta oft. Maður óskar engum manni að lenda í svona.“

Það áttu hins vegar eftir að líða mörg ár þar til Ingvar komst að því að fórnarlömb Helga voru fleiri og í flestum tilvikum voru brotin gegn þeim alvarlegri, mun alvarlegri en gegn Ingvari.

„Árið 2003 komst ég að því að hann hafði, meðan hann var prestur í Hrísey, borið áfengi í mann sem ég þekki mjög vel. Hann var þá líklega 14 ára gamall, og það atvik gerðist áður en Helgi leitaði á mig. Í því tilviki bauð Helgi stráknum heim til sín, bar í hann áfengi og bauð honum að gista og gaf það til kynna að hann ætti að sofa í rúmi Helga. Strákurinn drakk eitthvað og lét sig svo hverfa, en Helgi vissi ekki að strákurinn var löngu byrjaður að drekka,“ segir Ingvar, sem fékk þarna staðfestingu á að áreitni Helga gagnvart honum sjálfum var ekki einsdæmi. Ingvar hóf að spyrjast fyrir, en það skilaði engum árangri þrátt fyrir að hann hafi reynt mikið og þrátt fyrir að hann hafi heyrt einhverjar sögusagnir um að Helgi hefði leitað á fleiri.

„Gríðarlegur léttir að frásögnum okkar um misnotkun var trúað“

Á fimmtudagskvöldi í ágúst árið 2010 fékk Ingvar símtal frá æskuvini sínum, Bjarna Randver Sigurvinssyni, guðfræðikennara við Háskóla Íslands, sem á þeim tíma hafði starfað innan kirkjunnar, meðal annars sem aðstoðarmaður Karls Sigurbjörnssonar biskups.

„Þarna spurði Bjarni mig út í samtalið sem hann varð vitni að 24 árum áður, þegar ég svaraði Helga með stælum. Hann mundi að ég hafði verið mikið í kringum Helga á þeim tíma, en hafði svo tekið eftir að ég var farinn að forðast hann og talaði ekki eins vel um hann og áður. Bjarni spurði mig hvort að eitthvað hefði gerst milli mín og Helga þarna 24 árum áður,“ segir Ingvar. „Og ég man að ég svara: „Já ég ætla að segja þér hvað gerðist. Svo sagði ég honum söguna.“

Bjarni upplýsti þá Ingvar um að til hans hefði leitað maður og sá maður hefði orðið fyrir misnotkun af hálfu Helga. Segir Ingvar að Bjarni hafi í samstarfi við séra Guðmund Karl Brynjarsson brugðist skjótt við og var málinu komið í farveg og strax á mánudegi eftir símtalið við Bjarna, hafi Ingvar talað við fagráð kirkjunnar. „Gunnar Matthíasson, prestur hjá fagráðinu, talaði við mig og ég talaði við hann nokkrum sinnum, hann tók mér gríðarlega vel og gerði það sem ég hélt að yrði erfitt viðtal tiltölulega auðvelt.

Maðurinn sem leitaði til Bjarna var misnotaður af Helga áður en mitt tilvik átti sér stað. Ég veit ekki hversu oft Helgi misnotaði hann, en það var oftar en einu sinni og það var miklu, miklu verra en það sem ég lenti í og miklu, miklu verra en nokkur 14–15 ára strákur á að þurfa að upplifa,“ segir Ingvar, sem talaði sjálfur við manninn.

„Fagráðið tók okkur gríðarlega vel og ég er ákaflega þakklátur fyrir það. Ég hafði í upphafi ekki trú á að þetta myndi ganga og var viss um að yrði ekkert úr þessu en það leið ekki langur tími þar til ég sá að okkur var trúað og þetta var tekið föstum tökum. Það var gríðarlegur léttir og þegar okkur var sagt að hann hefði játað þá var það einhver mesta vellíðunartilfinning sem ég man eftir, það var gríðarlega mikill léttir,“ en mennirnir þrír sem kærðu Helga voru Ingvar, maðurinn sem Helgi bar áfengi í í Hrísey og sá sem fyrstur hafði samband við Bjarna. Málið var einnig skoðað hjá lögreglu sem var full af vilja gerð til að gera eitthvað að sögn Ingvars, en gat það ekki þar sem brotin voru fyrnd samkvæmt lögum og því ekkert hægt að gera.

Líkt og kom fram í umfjöllun DV um málið 20. september árið 2010 gekkst Helgi við brotunum þegar sakir voru bornar á hann og lýsti því yfir í kjölfarið að hann myndi ekki starfa framar fyrir kirkjuna eða önnur samtök henni tengd. Helgi var staddur í Eþíópíu þegar málið kom upp þar sem hann var að ljúka skammtímaverkefni og var á heimleið þegar hann var boðaður á fund fagráðsins. Til stóð að hann færi síðan til Noregs, sem hann og gerði.

„Sá af okkur þremur sem lenti verst í Helga átti bréf sem Helgi hafði skrifað til hans, eins konar afsökunarbeiðni og mögulega játaði Helgi af því að hann hélt að hann ætti þetta bréf ennþá. Síðar hef ég fengið staðfest að hann játaði skýlaust brotið gegn mér, þrátt fyrir að mig hafi minnt að hann hafi borið fyrir sig minnisleysi og sagst ekki muna mikið frá þessum tíma.“

Í kjölfarið fór að kvisast að prestur hefði játað á sig kynferðisbrot og nöfn annarra presta voru nefnd sem gerenda í málinu. Ingvar hafði samband við alla fjölmiðla landsins og upplýsti þá um hver presturinn væri, en enginn nafngreindi hann fyrir utan DV sem birti bæði nafn og mynd af Helga bæði á forsíðu og í grein í blaðinu.

„Áður en blaðið kom út hafði samband við mig ungur maður sem hafði lent í Helga, og verr en ég, mun verr. Sá maður sagði foreldrum sínum frá kynferðislegri misnotkun Helga árið 2000, þau trúðu honum ekki, þannig að það var ákaflega mikil gleði þegar ég rétti honum eintak af DV með orðunum „láttu pabba þinn hafa þetta.“ Þessi maður hefur ekki sagt sögu sína opinberlega, og hafði aldrei samband við fagráð kirkjunnar þrátt fyrir að ég hafi eindregið ráðlagt honum það á sínum tíma.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Fórnarlömb Helga minnst átta talsins

„Síðar hef ég talað við tvo til viðbótar sem hvorki höfðu samband við fagráðið né lögreglu, og bara núna fyrir stuttu var ég í fyrsta sinn að tala við mann sem ég reyndar vissi af í einhvern tíma, sá hefur aldrei tjáð sig opinberlega um Helga og staðfesti hann við mig að hann hefði einnig orðið fyrir misnotkun af hálfu hans.

Fyrir utan okkur þrjá sem kærðum voru fjórir aðrir sem lentu í honum, allir verr en ég og sumir, að því er virðist, á versta mögulega hátt. Eins veit ég af einum til viðbótar sem lenti í Helga, en sá er látinn og getur því ekki sagt sögu sína í dag. Fórnarlömb Helga eru því mun fleiri en við þrír sem kærðum hann fyrir fagráðinu, og minnst átta talsins.“

Reynsla þeirra af Helga er öll sú sama í meginatriðum að sögn Ingvars: „Jarðvegurinn er undirbúinn á löngum tíma, það eru bíltúrar, það eru sögur, það er reynt að vingast við foreldra eða aðra. Þetta eru vikur, jafnvel mánuðir sem er eytt í undirbúning og í einhverjum tilvikum eitthvað af peningum. Við vorum allir á svipuðum aldri þegar brotin áttu sér stað, en þau eru ekki framin á sama tíma, heldur eiga sér stað á meira en áratug. Einhver þeirra voru framin í gegnum störf hans í kristilegu starfi sem prestur eða í æskulýðsstarfi en ekki öll. Helgi sótti í svoleiðis störf, kom mikið í KFUM á Akureyri þar sem voru grösugar veiðilendur ef svo má segja. Mál Helga sýnir að hann reyndi að byggja upp traust til þess eins að misnota það. Hann sótti í unglingastarf, var einstaklega mælskur og sjarmerandi, vafði fólki um fingur sér og var miðpunktur athyglinnar hvar sem hann kom.“

„Var aldrei reiður sjálfum mér eða kirkjunni, heldur eingöngu Helga“

Ingvar hitti Helga ekki mikið eftir að hann leitaði á hann. Helgi kom eitthvað í KFUM eftir það, en rambaði síðan mörgum árum seinna inn í búðina til Ingvars. „Furðulegt nokk þá var hann í íbúð í næsta húsi. Við töluðum saman í anddyrinu þar, samtalið var voðalega stirt og ég var að vonast til að Helgi myndi biðja mig afsökunar, sem hann gerði ekki og ég fór bara.“

Ingvar segir að ekki hafi komið til greina að hætta í KFUM eftir að Helgi áreitti hann og hann hafi aldrei orðið reiður kirkjunni heldur einungis Helga. „Það hefur áhrif á mann að lenda í svona 14 ára gamall og ég var gríðarlega heppinn að ekki fór verr. Hjá einhverjum fórnarlamba Helga voru brotin ítrekuð og krakkar sem lenda í svona misnotkun lenda oft í sjálfsásökun. Sem betur fer lenti ég ekki í henni, ég vissi allan tímann að ég gerði ekkert rangt. Ég var ekki reiður út í mig, ekki kirkjuna eða Guð, en ég var mjög reiður og sár út í Helga. Að hann skyldi svona greinilega vísvitandi byggja upp samband og traust og reyna að ávinna sér traust fólks til þess eins að misnota það á versta mögulegan hátt. Og með þessu var hann að skemma líf barna, hann var að skemma svo margt, hann var að misnota starf sitt sem trúboði og prestur, hann var að særa fólk og ég get ekki ímyndað mér hvað fjölskylda hans hefur gengið í gegnum, þetta hlýtur að vera hræðilegt fyrir þau líka.

Ég man ekki eftir mörgum fullorðnum sem hann gat ekki spilað inn á, en einhverjir krakkar sáu í gegnum hann og ég man að mér fannst það svo leiðinlegt áður en ég komst að því hvaða mann hann hafði að geyma. Mér fannst það stórfurðulegt að þau skildu ekki sjá hvað þetta var merkilegur maður. Svo þegar ég komst að því hvaða mann hann hafði að geyma sá ég að þau sáu hlutina bara betur en ég. Sumir lesa fólk bara betur en aðrir.

Hvað finnst þér um syndir kirkjunnar og þá níðinga sem komið hefur í ljós að hafi þrifist með níðingsverk sín innan hennar?

„Níðingar sækja í störf og aðstæður þar sem þeir komast upp með verk sín. Við erum með dæmi úr kirkjunni, trúarsöfnuðum, íþróttafélögum, starfi með fötluðum. Varmenni sækja í slík störf. Ég hef hins vegar ekkert út á kirkjuna sjálfa að setja í mínu tilviki og er ánægður með viðbrögð hennar í okkar máli.

Prestum er treyst fyrir börnum og þar af leiðandi er glæpurinn alvarlegri, þar sem þetta er ekki bara kynferðisglæpur heldur einnig verið að misnota það traust sem þeim er sýnt í vinnu.

Mörg eldri málana koma upp á öðrum tíma, þegar umræðan var önnur en hún er í dag, þolendum var ekki trúað og menn jafnvel vissu ekki hvernig átti að taka á þessum málum. Blessunarlega eftir alla umræðuna í þjóðfélaginu og metoo-byltinguna um allan heim, þá stíga þolendur óhræddir fram með sína sögu og vita að það felst engin skömm í að segja frá, enda aldrei þolandanum um að kenna, heldur gerandanum og engum öðrum,“ segir Ingvar, sem man ekki eftir neinni fræðslu eða umræðu um kynferðisbrot þegar hann var barn og unglingur, fyrir utan fréttir um Steingrím Njálsson, sem var margdæmdur fyrir barnaníð, en hann lést árið 1. maí 2013. „Maður hugsaði: Vá, hvað þetta er sjúkt, það getur ekki verið nema einn svona, svo komst maður að því að þeir eru margir og þeir eru víða.“

Sonurinn var fyrstur til að heyra af máli Ingvars áður en það var kært

Líkt og áður kom fram sagði Ingvar engum frá á sínum tíma, þegar Helgi áreitti hann, og var hann orðinn fullorðinn maður þegar hann sagði fyrst frá. Eftir símtalið við Bjarna hjá kirkjunni árið 2010, var 18 ára sonur Ingvar sá fyrsti sem hann hringdi í. „Áður en ég talaði um málið við konuna mína og foreldra mína, þá hringdi ég í son minn og ræddi þetta við hann. Þetta kom á hann, en ég hef alltaf verið extra passasamur með börnin mín og kannski eðlilega. Í dag á ég son á unglingsaldri sem ég reyni að passa vel upp á, stundum full vel að hans mati.“

Hvernig upplifun var það að komast að því að fórnarlömb Helga voru fleiri en þú?

„Það fannst mér ekki gott, ég var alltaf að vona að þetta hefði bara verið ég. Svo komst ég að því árið 2003 að áður en hann leitaði á mig hafði hann veitt vini mínum áfengi og reynt að fá hann til að gista. Þannig að mér fannst sorglegt að það væru fleiri en ég. Svo þegar ég komst að því síðar að hann hafði nauðgað dreng, og fleiri en einum, fannst mér það gríðarlega sorglegt. Misnotkun Helga olli hjá minnst einum okkar þolenda varanlegum skaða, miklu meiri skaða en hjá okkur hinum. Misnotkun er eitthvað sem enginn á að þurfa að upplifa og hvað þá frá einstaklingi sem maður lítur upp til sem barn og treystir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Allir mættu nema Mbappe
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum

Fór að gráta eftir að hafa stundað kynlíf með 100 karlmönnum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram

Vandræði í paradís? – Hafdís og Kleini hafa eytt öllum myndum af hvort öðru á Instagram