fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fókus

Bláa perlan Chefchaouen: Sólarfríi á Spáni breytt í ævintýraferð til Marokkó

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 26. ágúst 2018 18:00

Ævintýraborgin Chefchaouen

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bláa perlan Chefchaouen: Sólarfríi á Spáni breytt í ævintýraferð til Marokkó

Spænskar sólarstrendur voru vinsæll áfangastaður Íslendinga í sumar, líkt og undangengin ár. Sól, hiti og afslappað strandlíf heillar marga og ekki skemmir verðlagið fyrir en það er margfalt hagstæðara en hér heima.

Ykkar einlægur var í þeim hópi að bregða sér til Spánar í sumarleyfi sínu ásamt konu og börnum. Í bænum Santa Pola, nærri Alicante, hefur stórfjölskylda konunnar haft aðgang að griðastað í áratugi og því höfum við alloft varið sumarleyfum okkar í þessum skemmtilega bæ. Sá galli er þó á gjöf Njarðar að ég þoli ekki að flatmaga á sólarströndum. Það hefur verið leyst með þeirri málamiðlun að í slíkum fríum fæ ég að skipuleggja nokkurra daga ferðir í nærliggjandi borgir eða bæi til þess að upplifa nýja staði.

Undanfarin ár höfum við heimsótt Granada, Malaga, Sevilla, Valencia og Barcelona svo einhverjar borgir séu nefndar. Í ár ákvað ég þó að ganga örlítið lengra og skipulagði nokkurra daga ferðalag fyrir fjölskylduna, tvo fullorðna og tvö börn á aldrinum 5–7 ára, til bláu borgarinnar Chefchaouen í norðvesturhluta Marokkó. Óhætt er að mæla með heimsókn á þessar slóðir og hér er stutt ferðasaga ásamt ýmsum hjálplegum ábendingum.

Borgin bláa. Chefchaouen er afar fallegur og rólegur bær. Óhætt er að mæla með heimsókn þangað.

Siglt til Marokkó

Talsvert úrval af ferjuferðum frá Spáni til Marokkó er í boði. Til dæmis frá Malaga, Almeria, Algeciras, Motril, Tarifa og jafnvel Barcelona. Síðastnefnda ferðin tekur þó rúman sólarhring.

Við ákváðum að sigla frá Algeciras en þaðan er afar stutt að sigla yfir til Marokkó, rúmur hálftími. Til samanburðar tekur siglingin frá Malaga um sjö klukkustundir. Eftir á að hyggja voru það smávægileg mistök en aðeins vegna þess að einhverra hluta vegna eru tafir afar tíðar á ferjunni frá Algeciras til hafnarinnar Tangier Med, sem er í rúmlega 50 kílómetra fjarlægð frá Tangierborg. Þannig tók ferðin okkar rúma klukkustund.

Gestgjafi okkar í Chefchaouen benti okkur á að það sama gildir ekki um ferjurnar frá Tarifa og munurinn er sá að ferjan siglir frá eldri höfn í sjálfri Tangierborg og því er það talsvert betri valkostur ef hugmyndin er að fara í dagsferð til Marokkó. Ef hugmyndin er að skoða Chefchaouen er aksturstíminn nánast sá sami frá Tangierborg og Tangier Med.

Baráttan um vegabréfsáritun

Ferjuferðin yfir til Marokkó kostaði fjögurra manna fjölskyldu rúmar 12 þúsund krónur, fram og til baka. Við ákváðum að skilja bílinn okkar eftir í okkar heimsálfu, aðallega af því að við höfðum lesið að umferðin í Marokkó gæti verið villt á köflum. Það reyndist vera rétt ákvörðun. Við fórum til að mynda aðeins í tvær langar leigubílaferðir í landinu og lentum bara í árekstri í 50% tilvika!

Siglingin sjálf er þægileg en sérstaklega vegna þess að við höfðum séð þá ábendingu á spjallborði að mikilvægt væri að taka sér stöðu strax við skrifborð eitt í kaffiteríu ferjunnar til þess að fá vegabréfsáritun til Marokkó. Heimamenn virtust líka þurfa að fara í röðina og fá einhvers konar stimpil á sérstakt eyðublað.

Við vorum síðust um borð en gengum rakleitt að ómerktu dúklögðu borði í kaffiteríunni sem var stúkað af með bankaböndum. Konan mín, Kristín Erla, greip vegabréf fjölskyldunnar og tók sér stöðu við borðið á meðan ég reyndi að passa upp á farangur okkar og börnin. Það virtist vekja aðra farþega til meðvitundar og á örskömmum tíma var komin líklega um tvö hundruð manna röð fyrir aftan Kristínu mína. Verkskiptingin í marokkóskum fjölskyldum virðist þó vera öðruvísi því 99% þeirra sem tóku sér stöðu voru karlmenn.

 

Margar kenningar á lofti um bláa litinn

Eins og áður segir er borgin Chefchaoeun í norðvesturhluta Marokkó og gnæfir mikilfenglegur Rif-fjallagarðurinn yfir borginni. Heimamenn segja að borgin hafi byggst upp sem eins konar flóttamannabúðir múslíma og gyðinga sem flúðu átök á Spáni og Portúgal. Gamli bærinn, medínan, er þekkt fyrir að húsin eru máluð í afar fallegum bláum lit sem gefur bænum allt að því draumkennt yfirbragð. Margar kenningar eru á lofti um hvers vegna bærinn var málaður blár. Sagt er að um einkennislit gyðinga hafi verið að ræða en einnig er því haldið fram að liturinn fæli moskítóflugur frá borginni og húsin verði ekki eins heit. Aðrir telja að liturinn sé táknrænn fyrir kalt og hreint vatn sem rennur úr Rif-fjöllunum. Enn önnur skýring er sú að liturinn sé einfaldlega fallegur og laði að gesti og ferðamenn. Það virkaði á okkur fjölskylduna og því er þetta líkleg skýring!

 

Töfrandi þröngar götur þræddar

Chefchaouen er vinsæll ferðamannabær. Flestir sölumenn og þjónar tala ensku en einnig tala fjölmargir frönsku og spænsku. Þrátt fyrir talsverðan fjölda af ferðamönnum þá er andrúmsloftið afar afslappað og rólegt í bænum. Sölumenn eru ekki á nokkurn hátt ágengir eins og getur verið þreytandi í stærri borgum landsins.

Það er töfrum líkast að rölta um þröngar götur miðbæjarins og setjast niður til þess að fá sér te og kasta mæðinni. Engir vestrænir veitingastaðir eða keðjur eru í boði og því þurfa ferðalangar að kynna sér matarmenningu heimamanna í hvert mál. Það er ekki mikil þrekraun því að allt sem matreitt er í tagine-pottunum vinsælu er afar ljúffengt. Það helsta sem kemur á óvart er hvað Marokkómenn nota lítið af bragðsterku kryddi í matargerð sinni, að minnsta kosti á þessum slóðum.

Margt er forvitnilegt í Chefchaouen. Hér má sjá útibú hjá bakara í bænum.

Kannabisakrar alltumlykjandi

Þá er frekar erfitt að finna áfengar veigar í Chefchaouen en það hafðist þó að lokum þegar við heimsóttum verönd Parador-hótelsins í bænum. Það er frekar sjúskaður staður í miðbænum en það kom okkur talsvert á óvart að þar var hægt að fá úrval innlendra bjóra og léttvína.

Önnur gerð vímuefna er þó í hávegum höfð en allt í kringum bæinn eru víðáttumiklir akrar af kannabisplöntum. Afleiðingin er sú að bærinn er afar vinsæll hjá frjálsþenkjandi ungum Evrópubúum og hefur kannski eitthvað að gera með afslappað andrúmsloftið sem einkennir bærinn.

Vinalegir heimamenn voru duglegir að bjóða okkur upp á að prófa vöruna en rákust þá á lífsmottó undirritaðs: „Drekk allt sem rennur, snerti ekkert sem brennur“. Þó forvitnaðist ég um verðið og það var víst í kringum 100 krónur grammið. Það þykir víst frekar ódýrt!

Ræktunin er ekki beint lögleg í landinu en yfirvöld amast ekki við henni nema ef bændur reyna að flytja afurðina til Evrópu. Þá mega þeir búast við einhverjum aðgerðum en þó eru líklega flestir að stunda slíkt bak við tjöldin.

Sumarleyfisperlan Akchour

Vinsældir bæjarins meðal ferðamanna gera það að verkum að nóg er af gististöðum í bænum en aðallega er um að ræða fjölskyldurekin gistiheimili. Við tókum þá ákvörðun að bóka Airbnb-gistingu hjá spænskum hjónum, Ricardo og Nieves. Þau eiga frekar stórt og glæsilegt hús í miðbænum og leigja út neðri hæðina til ferðamanna. Nóttin kostaði rúmlega 15 þúsund krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu sem var aðeins dýrara en nóttin á gistiheimili. Á móti stjönuðu hjónin við okkur í alla staði og buðu meðal annars upp á frábæran morgunverð sem var innifalinn í verðinu. Þá leiðbeindu þau okkur um allan bæinn og voru okkur innan handar varðandi margs konar skipulagsatriði.

Þar sem við vorum með ung börn í för þá lögðum við ekki í lengri gönguferðir um rætur Rif-fjallanna. Það er þó eitthvað sem göngugarpar ættu ekki að láta framhjá sér fara því urmull fallegra gönguleiða er í boði sem gestgjafar okkar mæltu eindregið með.

Sumarleyfisstaðurinn Akchour er afar fallegur.

Alls gistum við tvær nætur í Chefchaouen sem var afar hæfilegt til þess að njóta bæjarins vel. Á heimleiðinni kíktum við á sumarleyfisstaðinn Akchour en þangað flykkjast heimamenn þegar þeir eiga frí. Um er að ræða dal eða eins konar gljúfur sem falleg og tær á hlykkjast um. Víða upp árfarveginn eru fallegir hylir sem heimamenn baða sig í þrátt fyrir að vatnið sé ískalt. Á meðan malla kássur í tagine-pottum á heimatilbúnum grillum og víða má sjá tjöld sem gestir sofa í næturlangt.

Umhverfið er ægifagurt og það er afar skemmtilegt að fá að fylgjast með því hvernig heimamenn njóta lífsins. Kunnugir segja að aðalupplifunin sé þó að ganga upp gilið en því miður höfðum við hvorki tíma né þrek í það.

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Björgvin Franz um ákvörðun dóttur sinnar að hætta á OnlyFans – „Það var verið að hóta henni“

Björgvin Franz um ákvörðun dóttur sinnar að hætta á OnlyFans – „Það var verið að hóta henni“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein

Gullni piparsveinninn með ólæknandi krabbamein
Fókus
Fyrir 3 dögum

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt
Fókus
Fyrir 3 dögum

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima

Erna Hrönn tókst á við geranda sinn fyrir dómstólum og tapaði -Veit í hjarta sínu hvar skömmin á heima
Fókus
Fyrir 4 dögum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum

Emmsjé Gauti auglýsir eftir ófrískum konum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?