fbpx
Föstudagur 24.september 2021
EyjanFastir pennar

Samfylkingin sem „jaðarsamfélag vina“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 16. maí 2021 18:00

Þingflokkur Samfylkingarinnar. Mynd/aðsend

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum árum skráði ég endurminningar Guðmundar H. Garðarssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokks og formanns VR 1957–1980, en hann starfaði náið með alþýðuflokksmönnum í verkalýðshreyfingunni jafnt sem á vettvangi vestræns samstarfs. Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins, var forsætisráðherra þegar innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið var samþykkt á Alþingi. Gefum Guðmundi orðið:

„Þá sjáum við hvað hann var merkilegur maður hann Stefán Jóhann. Hann hafði vit á að eiga gott samstarf við flokksbræður sína á Norðurlöndunum. Kratarnir í Vestur-Evrópu voru harðir NATO-menn, sérstaklega Norðmenn. Þeir vissu hvernig fór fyrir verkalýðsleiðtogunum í austurhluta álfunnar þegar kommúnistar náðu völdum. Þá voru sósíaldemókratar látnir hverfa.“

Norrænir jafnaðarmenn

Ýmsir af eldri forystumönnum Alþýðuflokksins voru það sem kallað var „norrænir jafnaðarmenn“. Þeirra á meðal voru Stefán Jóhann, Guðmundur Í. Guðmundsson og Emil Jónsson. Guðmundur velti því upp í endurminningum sínum hver væri arfleifð höfuðleiðtoga íslenskra sósíaldemókrata, líkt og Stefáns Jóhanns:

„Það má ekki minnast á hann lengur, því það er ekki nógu fínt fyrir Samfylkingarmenn. En í þeirra hópi er kommúnistum hiklaust hampað. „Nútímajafnaðarmenn“ í Samfylkingunni segja ekki að Stefán Jóhann hafi verið góður vegna þess að þeir ætla að byggja upp valdakerfi sitt á öðru en því að vera sérstakir baráttumenn fyrir verkalýðinn.“

Hér er ekki ætlunin að rekja sögu Alþýðuflokksins. Áhugasömum um hana skal bent á 575 blaðsíðna verk Guðjóns Friðrikssonar Úr fjötrum. En Samfylkingin verður — sem arftaki Alþýðuflokks og Alþýðubandalags (og fleiri flokka og flokksbrota) — burðarás í íslenskum stjórnmálum fyrsta áratug þessarar aldar. Hæst fór fylgið í 31,0% í alþingiskosningunum 2003 og næstmest fylgi hlaut flokkurinn í kjölfar bankahrunsins (þrátt fyrir að sitja í ríkisstjórn) eða 29,8%. Síðan þá hefur sitthvað farið úrskeiðis. Fylgið hrunið og flokkurinn glímt við margvísleg innanmein sem nær gengu af honum dauðum 2016.

Síðan þá hefur Samfylkingin rétt nokkuð kútnum og svo virtist á þessu kjörtímabili sem flokkurinn væri að styrkja stöðu sína. Í nóvember síðastliðnum mældi Gallup fylgið á landsvísu liðlega 17% en er framboðsmál tóku að skýrast seig á ógæfuhliðina. Samkvæmt könnun Gallup í seinasta mánuði fengi flokkurinn 12% atkvæða yrði kosið nú.

„Jaðarsamfélag vina“

Uppröðun á lista hefur valdið ólgu í flokknum en í febrúar síðastliðnum sagði Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, varaþingmaður Samfylkingarinnar, sig frá öllum ábyrgðarstörfum innan flokksins og úr flokknum sömuleiðis. Jóhann Vigdís skrifaði:

„Ég verð þó að viður­kenna að það eru mér von­brigði að upp­stillingar­nefnd í Reykja­vík kjósi að bjóða ný­liðum, hæfu fólki sem sannar­lega er meira en velkomið til starfa — og þó fyrr hefði verið — að skipa þrjú af fjórum efstu sætum flokksins í Reykjavíkur­kjör­dæmunum fyrir kosningar til Al­þingis næsta haust.

Þetta eru ekki bara harka­leg skila­boð til mín per­sónu­lega heldur ekki síður til annarra í gras­rót Sam­fylkingarinnar — sem hafa lagt ó­mælda uppbyggingarvinnu af mörkum undan­farin ár.

Sannar­lega er ég sein­þreytt til vand­ræða, en þegar mér of­býður þá geri ég eins og góð kona sagði um árið; kýs með fótunum.“

Einn þeirra sem sagt hefur sig úr Samfylkingunni nýverið er Pétur Georg Markan sem starfar sem samskiptastjóri á Biskupsstofu. Pétur hafði fylgt flokknum frá stofnun. Í færslu á fésbókinni sagði hann:

„Nú hefur erindi Samfylkingarinnar breyst frá því að vera breiðfylking yfir í pólitískt jaðarsamfélag vina. Allt er breytingum háð. Í ljósi þessa hef ég sjálfur ekki lengur erindi innan flokksins, vilja til fylgja honum eða félagslega uppörvun. Það hefur fyrst og fremst birst í því að ég hef ekki viljað gefa kost á mér til trúnaðarstarfa eða verið í framboðs hugleiðingum.“

Í kjölfarið bárust af því fréttir að Pétur væri genginn til liðs við Viðreisn í Norðvesturkjördæmi. Ég hnaut um þetta orðalag Péturs: „jaðarsamfélag vina“ og hygg að slíkan merkimiða mætti setja á flesta flokka hérlendis. Eiginlegt flokksstarf er nánast horfið hvarvetna í kjölfar ríkisvæðingar stjórnmálanna og stórfjölgunar flokka. En kannski er þetta sýnilegra í Samfylkingunni en annar staðar í ljósi þess að flokkurinn var sannarlega um skeið burðarás í íslenskum stjórnmálum — fjöldahreyfing sem átti möguleika á að verða höfuðflokkur landsins líkt og systurflokkarnir í nágrannalöndunum.

Sósíaldemókrataflokkar nærri miðju

Raunar hafa flokkar sósíaldemókrata hvarvetna tapað fylgi á undanförnum árum en litið til systurflokka Samfylkingar í nágrannalöndunum er staðan mun sterkari en hér. Javnaðarflokkurin í Færeyjum hlaut 22,1% fylgi í lögþingskosningunum 2019. Í kosningum til Stórþingsins 2017 hlaut norski Verkamannaflokkurinn 27,4%. Kosið var til Folketinget í Danmörku 2019 og þá fékk Sósíaldemókrataflokkurinn 25,9% atkvæða og leiðtogi flokksins er hinn skörulegi forsætiráðherra Dana, Mette Frederiksen. Starfsbróðir hennar handan Eyrarsundsins er flokksbróðirinn, Stefan Löfven, en flokkur hans hlaut 28,3% atkvæða í kosningum til sænska Ríkisdagsins 2018.

Hinn íslenski sósíaldemókrataflokkur er því bersýnilega á allt öðrum og verri stað. Sá munur verður ekki greindur til hlítar í litlu greinarkorni en þó blasir við að systurflokkar Samfylkingarinnar í nágrannalöndunum eru miklu lengra inni á miðju stjórnmálanna; vissulega allir velferðarflokkar en ekki síður bandamenn atvinnulífs og helstu talsmenn vestrænnar samvinnu. Uppskriftina að „öflugum jafnaðarmannaflokki“ er því ekki að finna yst á vinstrivængnum. En svo kann vel að vera að forystumenn Samfylkingar hafi hreinlega gefið upp á bátinn þá hugmynd að vera höfuðflokkurinn íslenskra stjórnmála og kjósi heldur „jaðarsamfélag vina“.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fastir pennarFókus
27.06.2021

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn

Sonur minn er fíkill – Finnst ég þurfa að velja hann eða eiginmanninn
EyjanFastir pennar
27.06.2021

Kjósendur hafa varla skýra valkosti

Kjósendur hafa varla skýra valkosti
EyjanFastir pennar
13.06.2021

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“

„Kerfið ver sig með kjafti og klóm“
433Fastir pennarSport
09.06.2021

Ólgusjór og vond spil á hendi – Arnar Þór kemur út sem sigurvegari

Ólgusjór og vond spil á hendi – Arnar Þór kemur út sem sigurvegari
433Fastir pennarSport
04.05.2021

Ég nenni ekki að heyra þessa afsökun aftur í sumar

Ég nenni ekki að heyra þessa afsökun aftur í sumar
EyjanFastir pennar
02.05.2021

Vondir embættismenn

Vondir embættismenn
EyjanFastir pennar
25.04.2021

Handritin og Beethoven í Færeyjum

Handritin og Beethoven í Færeyjum
EyjanFastir pennar
11.04.2021

Ríkiseinkasalan og litli atvinnurekandinn

Ríkiseinkasalan og litli atvinnurekandinn
EyjanFastir pennar
09.04.2021

Farsóttarfangelsið

Farsóttarfangelsið