fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Rýnt í kristalskúlu – Stjórnmálin á kosningaári

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 10. janúar 2021 18:00

Samstarf VG og Sjálfstæðisflokks hefur gengið betur en flestir þorðu að vona. MYND/SIGTRYGGUR ARI

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gera má ráð fyrir að margvíslegur ágreiningur stjórnarflokkanna muni koma upp á yfirborðið á árinu. Nýtt flokkakerfi er að festast í sessi með mun meiri dreifingu atkvæða en áður var.

Erlendir vinir mínir verða alltaf jafnhissa þegar þeir heyra af samsteypustjórninni íslensku þar sem sitja saman miðhægriflokkur, miðju-dreifbýlisflokkur og róttækur vinstriflokkur. Næsta spurning útlendinga er þá jafnan hver sé eiginlega stefnan. Jú, hún hefur að mestu verið varðstaða um óbreytt ástand og hrossakaup um umdeildari málefni. Stefnan getur í það minnsta ekki byggst á neinni skýrri hugmyndafræði – til þess eru málamiðlanirnar of miklar.

Ef við reynum að setja okkur í spámannlegar stellingar á áramótum má telja yfirgnæfandi líkur á að ný ríkisstjórn hafi sest að völdum að loknum kosningum sem í seinasta lagi verða haldnar 25. september. Og þegar nær dregur kjördegi má telja næsta víst að margvíslegur ágreiningur stjórnarflokkanna í grundvallarmálum muni sífellt betur koma upp á yfirborðið.

Átta flokkar inni

En hvaða kostir gætu verið í stöðunni að loknum alþingiskosningum 2021? Auðvitað er of snemmt að spá fyrir um slíkt en lítum á nýjustu kannanir. MMR mældi stuðning við flokkana í fyrri hluta nóvembermánðar. Sú könnun sýndi að fylgi Samfylkingar hefði minnkað um tæp þrjú prósentustig frá fyrri könnun fyrirtækins, væri nú 13,8% og fylgi Framsóknarflokks hefði minnkað um rúm tvö prósentustig og mældist 7,6%. Sömuleiðis hefði fylgi Miðflokksins dregist saman um tvö prósentustig og mældist 7,9%. Þá var fylgi flokks Ingu Sæland, Flokks fólksins, komið upp í 6,2%. Könnunin sýndi því að allir þingflokkarnir átta héldu mönnum inni og Sósíalistaflokkur Gunnars Smára Egilssonar næði einnig inn mönnum með herkjum. Þingflokkarnir þá orðnir níu talsins, sem yrði met.

Níu flokkar eða sjö?

Í nýjustu könnun Gallups var helsta breytingin sú frá fyrri mælingu að fylgi Viðreisnar dróst saman um tvö prósentustig, en tæplega 10% kváðust myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga nú. Breytingar á fylgi annarra flokka milli kannana Gallups voru hverfandi. Tæplega 24% sögðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokk, 17% Samfylkingu, ríflega 12% nefndu Pírata, tæp 12% Vinstri græn, um 9% Miðflokk og tæp 9% Framsóknarflokk. Aftur á móti mældust flokkur Ingu Sæland og Sósíalistaflokkur Gunnars Smára undir 5% markinu og þingflokkarnir yrðu því sjö en ekki átta eins og nú.

Nýjasta mælingin er skoðanakönnun Fréttablaðsins og Zenter sem birt var á Þorláksmessu. Þar kom fram að 7,3% sögðust styðja Framsóknarflokk, 22,9% Sjálfstæðisflokk og 10,2% Vinstri græn: Stjórnin því kolfallin (líkt og í flestum öðrum könnunum kjörtímabilsins). Þá eru Píratar stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, en alls kváðust 17,0% aðspurðra myndu kjósa þá yrði gengið nú til kosninga. Samfylking kom þar á eftir með 15,6% fylgi og fylgi Viðreisnar mældist 10,2%. Miðflokkurinn fengi aftur á móti aðeins 6,7% atkvæða sem er það lægsta sem flokkurinn hefur mælst með í könnunum Zenter og Fréttablaðsins síðan í mars 2019. Flokkar Ingu Sæland og Gunnars Smára mældust báðir með undir 5% markinu eins og í könnun Gallups, Sósíalistaflokkur Gunnars Smára raunar aðeins með 3,3%. Þingflokkarnir yrðu þá sjö.

Möguleikar á myndun meirihluta kunna að ráðast að nokkru leyti af því hvort minnstu framboðin nái mönnum inn (og mögulega önnur smáframboð en þeirra Ingu og Smára). Í alþingiskosningunum 2013 voru nærri 12% atkvæða greidd framboðum sem ekki náðu mönnum inn, en þetta hafði umtalsverð áhrif á hlutföll flokka á þingi.

Spurning útvarpsmannsins

Sama dag og könnun Fréttablaðsins á fylgi flokkanna birtist var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks og fjármálaráðherra, mættur ásamt eiginkonu sinni, Þóru Baldvinsdóttur, í upptöku á hugljúfu viðtali í Ríkisútvarpinu hjá Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur útvarpsmanni. „Hvað ætlarðu að verða lengi í pólitíkinni, Bjarni?“ spurði Sigurlaug í lok viðtalsins – „Góð spurning,“ sagði Þóra þá. – „Já, Þóra bað mig að spyrja,“ bætti Sigurlaug við. Bjarni svaraði: „Ég veit það ekki alveg. Mér finnst eins og ég sé bara á fullri ferð og ég er ekkert að hugsa um að hætta en það kæmi mér ekkert á óvart að þetta myndi mögulega einn daginn gerast svona svipað eins og gerðist hjá Guðna Ágústssyni: hann bara stóð upp og gekk út.“ Þóra bætti því síðan við að hún væri orðin „brjálæðislega þreytt á þessu“ og hefði lengi beðið þess að maður sinn hætti afskiptum af stjórnmálum.

Þátturinn var sendur út klukkan níu að morgni aðfangadags meðan blaðamenn voru enn að ráða fram úr því hvaða ráðherra hefði verið viðstaddur hinn margumrædda gleðskap í Ásmundarsal kvöldið áður.

Titringur á vinstri vængnum

Erfitt er að segja fyrir um það á þessari stundu hversu víðtækar pólitískar afleiðingar þetta umtalaðasta mál jólahátíðarinnar kann að hafa og það væri að æra óstöðugan að greina öll ummæli meiri og minni spámanna sem fallið hafa. Kannski er þó athyglisverðast að líta á hvað tvímenningarnir sem yfirgáfu þingflokk Vinstri grænna höfðu að segja, en meðan flestir landsmenn nutu jólahátíðarinnar í faðmi níu vina og venslamanna sátu þau Andrés og Rósa við símann.

Andrés Ingi Jónsson tísti svo á aðfangadag: „Vinstri græn gerðu Bjarna að fjármála eftir Panama, Sigríði að dóms eftir Landsrétt og stóðu þétt við sinn mann Kristján í Samherjamálinu. Boltinn er hjá VG – en af reynslu síðustu 3 ár reikna ég ekki með þau láti Bjarna axla neina alvöru ábyrgð á Þorláksmessu djamminu.“ Og Andrés bætti um betur á jóladag eftir yfirlýsingu Bjarna og sagði að fjármálaráðherra væri „of merkilegur maður að gera of mikilvæga hluti til að spá í að sýna auðmýkt“.

Annar flóttamaður úr þingflokki VG (sem fengið hefur pólitískt hæli hjá Samfylkingu), Rósa Björk Brynjólfsdóttir, tísti líka á jóladag og sagði viðbrögð forsætisráðherra við framferði fjármálaráðherra fela í sér „gríðarleg vonbrigði. Það er ekki boðlegt að a) henda ábyrgð á hegðun BB á eigendur salarins b) að segja „þetta er ekki gott mál.“ c) „Já, ég held að þetta sé afsakanlegt.““

Fjölmargir flokksmenn Bjarna, jafnt trúnaðarmenn sem almennir flokksfélagar, tóku upp hanskann fyrir sinn mann á samfélagsmiðlum. Aftur á móti má ætla að meðal stuðningsmanna VG veki Þorláksmessuteitið á Freyjugötu mun meiri titring en í Valhöll. Ummæli þeirra Andrésar Inga og Rósu Bjarkar eru vísbending í þá átt.

Ráðherrar sitja sem fastast

Staða Bjarna er líklega fjarri eins slæm og ætla mætti en hann hefur staðið af sér ótrúlegustu óveður hingað til. Ef áfram verður sótt að honum getur hann líka slegið vopnin úr höndum andstæðinga með því að víkja tímabundið. Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokks, yrði þá kannski fenginn til að leysa hann af undir þeim formerkjum að hann hygðist sækja sér endurnýjað traust flokksmanna. Síðan yrði Bjarni endurkjörinn með rússneskri kosningu á nýbólusettum landsfundi Sjálfstæðismanna í marsmánuði, hvítþveginn af flokknum og gæti stefnt ótrauður á forsætisráðherrastólinn að loknum kosningum. En vart mun þurfa að koma til æfinga af þessu tagi.

Jólin og áramótin kunna að hylja þann ágreining sem myndast hefur milli stjórnarflokkanna út af þessu máli en ætla má að forsætisráðherra (sem og aðrir ráðherrar) vilji teygja sig býsna langt til að ljúka kjörtímabilinu. Hóti VG stjórnarslitum vegna gleðskaparins á Freyjugötu þá gætu Sjálfstæðismenn allt eins bent á margt annað sem þeim hefur mislíkað, svo sem það sem virðist vera klúður í innkaupum á bóluefni, stofnanavæðingu miðhálendisins og áfram mætti telja.

Katrín virðist líka njóta athyglinnar í embætti forsætisráðherra en henni er auðsjáanlega afar umhugað um ímynd sína og sendir reglulega frá sér tilkynningar á ensku. Í byrjun desember sagði hún til að mynda á Twitter: „Only 3 out of 44 confirmed cases of COVID-19 in Iceland from December 2nd-5th were people outside of quarantine. Brilliant work of our tracking team following the test-trace-isolate guidelines of the @WHO. Keep up the good work!“ Líklega var Katrín þarna fullbráð að fagna – en eftir situr spurningin: hvaða tilgangi eiga tíst á ensku af þessu tagi að þjóna? Fjölmargir í athugasemdum bentu á að árangur Íslands í þessum málum væri fjarri því neitt einstakur eða eftirtektarverður á heimsvísu.

Stjórnin ætti að geta þraukað

Og burtséð frá allri Þorláksmessugleði hafa menn spurt sig frá því að stjórnin var mynduð hvort henni takist að sitja út kjörtímabilið. Sem fyrr er vitaskuld ómögulegt að spá fyrir um slíkt. Atburðarás getur orðið fullkomlega ófyrirsjáanleg og hröð samanber fall ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar í september 2017, eftir aðeins átta mánuði við völd. Úr því sem komið er má þó telja líklegt að stjórn Katrínar þrauki fram í september á næsta ári, kannski með herkjum.

Gangi bærilega að útvega bóluefni og bólusetning gengur vel í byrjun ársins má ætla að atvinnulífið taki hratt við sér. Stjórnarflokkarnir óska þess heitast að geta gengið til kosninga undir þeim slagorðum að þeir hafi sigrast á veirunni og atvinnuleysinu. Eftir situr þó skuldum vafinn ríkissjóður og ekki verður komist hjá fjölda gjaldþrota í ferðaþjónustu. Að sama skapi má ætla að ekki takist að útrýma atvinnuleysi á næsta ári. Þau félagslegu vandamál sem því fylgja kunna að hafa víðtækar pólitískar afleiðingar.

Píratar og Samfylking stefna að myndun vinstristjórnar. MYND/ANTON BRINK

Samfylking og Píratar vilja vinstristjórn

En ef við spáum í mögulegt stjórnarsamstarf að loknum kosningum er fyrst til þess að taka að Píratar og Samfylking hafa (ýmist formlega og óformlega) útilokað samstarf við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk. Atkvæði greitt þeim er því atkvæði greitt vinstristjórn en miðað við kannanir þyrftu PS-flokkarnir að minnsta kosti tvo aðra með sér til að hægt yrði að mynda stjórn – jafnvel þrjá, en fimm flokka ríkisstjórn á sér engin fordæmi hér á landi.

Enginn flokkur er kominn jafnlangt í framboðsmálum og Samfylkingin í Reykjavík en þar á bæ var ákveðið að sleppa prófkjöri og uppstillinganefnd falið að ganga frá framboðslistum í febrúar – en það er óvenjusnemmt þar sem kosningar eru ekki ráðgerðar fyrr en í lok september. Nefndin mun hafa til hliðsjónar niðurstöður ráðgefandi skoðanakönnunar sem fram fór á dögunum. Athygli vakti fjöldi kunnra andlita sem gaf kost á sér. Ekki kæmi á óvart að átök yrðu um skipan listanna – enda sitja núverandi þingmenn á fleti fyrir.

Meðal þeirra sem gaf kost á sér var Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku, en kunnugir segja framboð hennar ekki hafa komið á óvart en hún hefur undanfarið komið fram í viðtölum og talað m.a. um mikilvægi þess að sporna við niðurskurði í opinberum rekstri. Afstaða af þessu tagi úr fjármálakerfinu hefur komið mörgum spánskt fyrir sjónir. Kristrún má teljast ein helsta vonarstjarna Samfylkingar, en viðmælendur segja fæsta núverandi þingmenn Samfylkingar mjög „ráðherralega“. Fyrir fáeinum árum var fjöldi öflugra forystumanna í þingliði Samfylkingar, Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna, Kristján Möller og Árni Páll en uppstilling ætti að gera flokknum kleift að raða upp sigurstranglegu liði.

Í tilfellum sumra annarra flokka er vel hægt að sjá fyrir sér ráðherralistann. Það gildir til dæmis um Viðreisn en dr. Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor er nýr varaformaður Viðreisnar og stefnir ótrauður að forystusæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Hann má teljast ráðherraefni flokksins, ásamt þeim Þorgerði Katrínu, formanni flokksins, og Hönnu Katrínu Friðriksson.

Til hægri eða vinstri?

Ef mæling MMR yrði að niðurstöðum kosninga þá væru PS-flokkarnir samtals með aðeins 27,6% fylgi og því þyrfti að minnsta kosti fimm flokka ríkisstjórn. Þá er stóra spurningin hvort Framsóknar- og Viðreisnarmenn muni horfa til vinstri eða hægri. Í baklandi beggja flokka er fólk með sterk tengsl við atvinnulífið sem þykir þegar nóg um vinstrimennskuna á stjórnarheimilinu, stóraukin umsvif hins opinbera, hækkandi skattbyrði og skuldasöfnun ríkissjóðs. Því má telja líklegra að þessir tveir flokkar horfi til samstarfs með Sjálfstæðisflokki verði kostur á myndun þriggja flokka stjórnar.

Hér á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um stirt samband Sigurðar Inga Jóhannssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hvað sem því líður má alls ekkert útiloka að Miðflokksmenn taki sæti í ríkisstjórn – en það verður þá stjórn með Sjálfstæðisflokknum að minnsta kosti – í ljósi þess að Samfylking og Píratar hafa hafnað samstarfi við Miðflokk. Fylgi Miðflokkins hefur verið á niðurleið í vetur en gera má ráð fyrir að flokkurinn komi með kröfugt útspil í aðdraganda kosninga – í anda Sigmundar Davíðs.

En hvað sem öllum vangaveltum um stjórnarmyndun líður blasir við að mikil dreifing á fylgi er komin til að vera, þingflokkar verða að öllum líkindum sjö til níu talsins og væntanlega verður enginn möguleiki á meirihlutastjórn með færri en þremur flokkum. Þetta er grundvallarbreyting á íslenskum stjórnmálum sem orðið hefur á örfáum árum.

Greinin birtist fyrst í áramótablaði DV sem kom út 30. desember. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var

Óttar Guðmundsson skrifar: Veröld sem var
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 

Björn Jón skrifar: Verðleikar og andverðleikar 
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
16.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða fólkið
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins

Sigmundur Ernir skrifar: Hvirfilbylur bölmóðsins
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund