fbpx
Mánudagur 01.september 2025
Eyjan

Hnýta í Ingu vegna hjásetunnar en hún segist hafa sparslað í götin

Eyjan
Mánudaginn 1. september 2025 19:30

Inga Sæland

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Inga Sæland félags- og húsnæðismálaráðherra var glöð í bragði fyrr í dag þegar hún kynnti breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem taka gildi frá og með deginum í dag. Inga sagði breytingarnar afar mikilvægar fyrir öryrkja og létta þeim lífið. Þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa einnig fagnað breytingunum og minnt rækilega á að hér sé verið að hrinda í framkvæmd breytingum sem samþykktar hafi á verið á þingi í tíð síðustu ríkisstjórnar og að Inga og hennar flokkur hafi þá setið hjá. Inga segist hins vegar hafa nýtt tímann síðan hún tók við ráðuneyti félagsmála til að laga þá vankanta sem hafi verið á nýja kerfinu en bent hefur verið á að einn hópur, sem þarfnist sárlega kjarabóta hafi setið eftir – ellilífeyrisþegar.

Annars virðast Inga og stjórnarandstöðuþingmennirnir sammála um kosti nýja lerfisins, það auki virkni öryrkja og geri þeim auðveldara að vinna hlutastörf hafi þeir getu til þess og að flestir í þessum hópi muni hafa meira á milli handanna en Inga segir ríkissjóð munu leggja til 20 milljarða króna aukalega í örorkulífeyriskerfið.

Breytingarnar voru lagðar fram og samþykktar í tíð forvera Ingu, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, sem var félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra frá 2021-2024. Guðmundur kynnti einmitt breytingarnar ekki síst með þeim hætti að þeir snérust um að einfalda örorkulífeyriskerfið sem þar til í dag hefur þótt þunglamalegt og flókið.

Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsóknarflokkurinn?

Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Sjálfstæðisflokksins fagnar nýja kerfinu í aðsendri grein á Vísi. Hún gagnrýnir Ingu fyrir að hafa setið hjá ásamt öðrum þingmönnum Flokks fólksins þegar málið var samþykkt á síðasta kjörtímabili en segir gott að henni hafi snúist hugur. Guðrún gerir þó ekki mikið úr ábyrgð Guðmundar Inga á málinu heldur leggur hún áherslu á að það byggi á hugmyndum um stefnu í velferðarmálum sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi lengi barist fyrir. Aðalmálið í nýja kerfinu sé það sem flokkurinn hafi lengi lagt áherslu á. Framvegis verði spurt hvað örorkulífeyrisþegar geti í stað þess að spyrja hvað þeir geti ekki.

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins tekur einnig undir með formanninum um að flokkur þeirra eigi mesta heiðurinn að breytingunum.

Í grein Ingibjargar Isaksen þingmanns Framsóknarflokksins kveður við sama fagnaðartón. Ingibjörg minnir á að Inga hafi áður líst yfir efasemdum um nýja kerfið en hafi nú greinilega skipt um skoðun. Ingibjörg leggur í greininni áherslu á hlut síns flokks og vill meina að grunnurinn að þessum breytingum hafi fyrst verið lagður af félagsmálaráðherrum Framsóknarflokksins en flokkurinn fór síðast með félagsmálaráðuneytið í ríkisstjórn kjörtímabilið 2013-2017.

Sigríður Andersen þingmaður Miðflokksins leggur hins vegar áherslu á í pistli á Facebook að Inga hafi ekkert haft með þessar breytingar að gera sem hún fagni svo mjög nú, enda hafi hún setið hjá þegar þær voru samþykktar á síðasta kjörtímabili:

„Inga Sæland hefur sjálf slegið sig til riddara fyrir þessar breytingar, síðast í beinni útsendingu frá Tenerife. Þeir sem sátu á þingi á síðasta kjörtímabili ættu þó að þekkja söguna betur.“

Sparsla í götin en hvað með eldri borgara?

Inga kynnti breytingarnar í dag og einnig voru gefnar út tilheyrandi reglugerðir sem hún setti. Í grein á Vísi  þakkar hún þeim sem hófu vegferðina að nýja kerfinu án þess að nefna nokkur nöfn í því samhengi. Inga útskýrir hjásetu sína og annarra þingmanna Flokks fólksins, þegar málið var samþykkt á síðasta kjörtímabili, með því að þingmennirnir hafi verið mjög áhyggjufullir yfir þeim annmörkum á kerfinu sem þá hafi verið augljósir.

Þegar hún hafi tekið við félagsmálaráðuneytinu í desember á síðasta ári hafi henni hins vegar gefist tækifæri til þess að bæta nýja kerfið:

„Ásamt frábærum sérfræðingum Félags- og húsnæðismálaráðuneytisins og stofnana þess, að fá að bæta kerfið enn frekar og sparsla í götin sem ég hafði hvað mestar áhyggjur af. Takk fyrir óþrjótandi elju ykkar allra þar sem oft hefur viðveran verið löng og ströng.“

Inga útskýrir þó ekki frekar í greininni hvaða breytingar hafi verið gerðar á nýja kerfinu eftir að hún tók við ráðherraembætti og áður en það tók gildi.

Þótt stjórnmálamenn séu hins vegar almennt ánægðir með nýja örorkulífeyriskerfið sem hægt er að kynna sér nánar hér hefur verið gagnrýnt að ekki hafi verið ráðist í sambærilegar aðgerðir til að bæta stöðu ellilífeyrisþega. Fjölmiðilinn Trölli greinir til að mynda frá því að eldri borgari sem þurfi að reiða sig alfarið á ellilífeyri frá Tryggingastofnun, sem nemi rétt yfir 300.000 krónum á mánuði, eftir skatta, sakni þess að hafa ekkert orðið var við að til standi að bæta kjör þessa hóps.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna

Hraðinn og nálægðin við viðskiptavininn er það sem heillar við smásöluna