Nýlega var tilkynnt að hinn umdeildi Dónald Trump væri að losa sig við liðónýtan skattstjóra, Billy Long að nafni með því að gera hann að sendiherra á Íslandi. Margir heilagir og góðgjarnir Íslendingar fylltustu réttlátri reiði og sögðu það til skammar að fá mann þennan til Íslands. Starfsferill og pólitísk afskipti hans voru rakin og fullyrt að hann væri þess ekki verður að setjast í sendiherrastólinn inn við Engiteig.
Nú er það ekkert nýtt að óæskilegir menn séu sendir milli landa í atvinnuskyni. Allir Íslendingar þekkja söguna af Gunnari á Hlíðarenda og Kolskeggi bróður hans. Þeir voru dæmdir til þriggja ára útlegðar fjarri heimahögum. Gunnar sat sem fastast enda vildi hann ekki yfirgefa Hallgerði og líkamsræktarstöðina sína á Hvolsvelli. Þessi heimaseta endaði með ósköpum og var Gunnar drepinn af gömlum viðskiptafélögum. Kolskeggur á hinn bóginn fór utan og kom aldrei aftur. Hann endaði í Miklagarði eða Istanbul þar sem hann rak nuddstofu og teppabúð.
Skáldin Hallgrímur Pétursson og Sigurður Breiðfjörð hrökkluðust í iðnnám til Kaupmannahafnar fyrir tilstuðlan barnaverndaryfirvalda. Báðir komust þeir til þroska á erlendum smíðaverkstæðum og urðu smám saman þjóðskáld.
Á seinni árum hefur tíðkast að senda uppgjafastjórnmálamenn til starfa erlendis þegar ekkert starf fannst fyrir þá hérlendis. Í Brussel verður vart þverfótað fyrir slokknuðum íslenskum vonarstjörnum sem leita sér frama hjá EFTA, Nató eða ESB. Þessu fólki er venjulega ágætlega tekið í útlöndum. Enginn leggur þeim til lasts að þau hafi verið verið send utan hálfgerðum hreppaflutningi vegna þess að á Íslandi fannst „engin húfa sem hæfði derinu“ svo vitnað sé í Megas.
Við skulum fagna innilega hinum mislukkaða skattstjóra Mr. Long og bjóða hann hjartanlega velkominn. Hann er líka uppboðshaldari og fyrrum þingmaður og fjárfestir. Ekki veitir af að fá hingað mann með svo fjölbreytta reynslu af atvinnulífinu. Á myndum virðist hann glaður og hress sem er nauðsynlegt á þessum vandlætingartímum.