fbpx
Föstudagur 29.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Nína Richter skrifar: Frelsi til að vera tussa

Eyjan
Föstudaginn 29. ágúst 2025 06:00

Mynd: Unsplash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Internetið er uppfullt af alls konar ráðgjöf, allt frá húsgagnasmíði til verðbréfakaupa. Vinsæl tegund er persónuleg ráðgjöf– hvernig sé best að vera. Hvernig á að koma vel fyrir eða standa sig í atvinnuviðtali. Þetta getur líka smogið inn í þynnri glufur – í vandmeðfarnari setlög persónuleikans, eins og hvernig á að næla sér í maka eða sannfæra fólk um að þú sért rétta manneskjan.

Netnornirnar hafa síðan kokkað upp útgáfur af þessu sem kallast á ensku dark psychology – einhvers konar unglingaútgáfa af listinni að notfæra sér fólk. Í anda bókarinnar The Game eftir Neil Strauss frá 2005, sem kynnir leiðir fyrir karlmenn til að beita sálfræði í þeim tilgangi að snara hjásvæfur á fölskum forsendum. Bókin sætti harðri gagnrýni á sínum tíma en inntak hennar lifir áfram í ákveðnum kreðsum og í myrkustu hornum TikTok – í útgáfu sem nú er ætluð öllum; konum, kvárum og körlum.

Auðvæðing, eða það sem á ensku kallast gentrification, hefur troðið sér inn á öll svið lífsins. Jafnvel þar sem hún á alls ekki heima. Við lágmörkum núning, slípum af hornin þangað til sem stærstur markaður situr eftir. Þvert á kynslóðir, þvert á þjóðfélagshópa. Engin skoðun, engin skuldbinding, enginn móðgast. Þægindi og úrval ofar öllu.

Þetta sjáum við á stefnumótaforritum þar sem þú getur valið viðmælendur eftir útliti og þrengt leitina með síum. Þar er hægt að eiga skuldbindingalaus samskipti – og losa sig jafn auðveldlega úr þeim án teljandi eftirmála. Þetta minnir á hraðtísku: bolur er ónýtur af því að hann var aðeins í tísku í viku. Sama efnið í sama ástandi – en ónýt gæði.

Við erum ekki gerð fyrir þessi stöðluðu kerfi. Allir sem ég þekki sem hafa notað þessi forrit ítrekað eða stundað stefnumótamarkaðinn að ráði tala um djúpa tilfinningalega þreytu og jafnvel leiða sem fylgir í kjölfarið. Þetta er yfirborðslegt, kyndir undir samanburð og óöryggi – og er of auðvelt, of aðgengilegt.

Þessi aðgengileiki hefur líka smitast inn í önnur samskipti. Óþægilegar aðstæður eru valkvæðar á internetöld. Þú getur einfaldlega hætt að svara, blokkað eða af-vinað fólk með einum smelli. Handhægt, vissulega. Við erum öll upptekin – en hvers vegna ættum við að eyða tíma í eitthvað sem er erfitt? Verum bara hress.

Þá komum við að kjarna málsins. Við erum sjálf í ríkari mæli farin að leita á netið til að aðlaga persónuleikann að þörfum markaðarins – sérstaklega þessa félagslega markaðar.

En það mun ekki öllum líka við þig, sama hvernig þú ert eða hvernig þú breytir þér. Mörgum finnst erfitt að sætta sig við þetta. Aðrir hafa fagnað staðreyndinni og jafnvel gert að sínu persónulega vörumerki að vera óaðgengilegir. En sama hvaða útgáfa þú ert, þá ertu einfaldlega bragðtegund sem ákveðið hlutfall mun aldrei samþykkja.

Það er frelsi í þessari nálgun. Þetta þýðir að í rauninni gætirðu allt eins verið þú sjálfur. Stöðug betrun hefur engan tilgang umfram ákveðið hófstillt mark (endilega haltu áfram að fara í sturtu og heilsa fólki). Allt umfram það laðar aðeins að þér fólk sem er með þér á röngum forsendum.

Þetta snýst ekki um að vera fílaður af öllum. Þetta snýst um að rétta fólkið fíli þig ekki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Arfleifð Egils í Borgarnesi

Óttar Guðmundsson skrifar: Arfleifð Egils í Borgarnesi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig

Málþæfður minnihluti þarf að átta sig
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Öldungurinn sem sá ekki vandann

Svarthöfði skrifar: Öldungurinn sem sá ekki vandann
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Stjörnustund ráðherrans

Óttar Guðmundsson skrifar: Stjörnustund ráðherrans
EyjanFastir pennar
26.07.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
EyjanFastir pennar
25.07.2025

Svarthöfði skrifar: Fólk er ekki fífl – það skilur sérhagsmunina þegar það sér þá

Svarthöfði skrifar: Fólk er ekki fífl – það skilur sérhagsmunina þegar það sér þá