Arnar Þór Jónsson fyrrum forsetaframbjóðandi, fyrrverandi héraðsdómari og fyrrverandi varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins segist hafa orðið forviða þegar hann fékk svar við þeirri spurningu hvers vegna svo margir framámenn innan Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins studdu Katrín Jakobsdóttur, sem þá var nýhætt sem formaður Vinstri grænna, í forsetakosningunum á síðasta ári. Arnar Þór segist hafa þótt það skrýtið að styðja frambjóðanda með aðra pólitíska lífssýn en maður sjálfur. Svarið hafi hins vegar verið það að Katrín skildi hvernig kerfið virkaði og myndi ekki rugga neinum bátum. Arnar Þór segist enn fremur hafa verið varað hótað því með óbeinum hætti áður en hann tilkynnti um forsetaframboð sitt að annar frambjóðandi myndi stíga fram sem væri sterkari en hans framboð gæti nokkurn tímann verið. Hvort Katrín var sá frambjóðandi er óljóst en Arnar Þór virðist gefa það í skyn.
Arnar Þór greinir frá þessu í viðtali við Björn Þorláksson á Samstöðinni. Viðtalið er kynnt með titlinum „Uppljóstrun“ á Youtube-síðu stöðvarinnar en hvort það eru þessi orð Arnars um forsetakosningarnar sem átt er við er ekki tekið fram.
Í viðtalinu furða Björn og Arnar Þór sig í sameiningu á samkrulli Katrínar, leiðtoga Vinstri grænna í áratug, við Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn í kosningabaráttunni og nefna sem dæmi að Kristján Þór Júlíusson, fyrrum ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins hafi tekið virkan þátt í kosningaviðburðum Katrínar. Segist Björn til að mynda hafa orðið vitni að því að á framboðsfundi Katrínar á Akureyri hafi Kristján Þór gengið á milli gesta, heilsað hverjum og einum og gefið barmmerki merkt framboði Katrínar.
Arnar Þór segir það ekki ganga upp í sínum huga að leiðtogi vinstri manna hafi notið stuðnings úr ranni Sjálfstæðismanna og segist hafa spurst nánar fyrir:
„Þegar ég talaði líka við áhrifamenn í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og heyrði það að … Ég get alveg sagt það hér hvað það var. Ég sagði: bíddu af hverju ertu komin á þann stað að þú ætlar að styðja manneskju til æðstu metorða sem er í rauninni í grundvallaratriðum með allt aðra lífssýn heldur en þú? Hvað er það sem skýrir það fyrir mér að þú ætlir að segja skilið við þær hugmyndir sem þú hefur byggt allt þitt líf og öll þín skrif á? Þá fékk ég svarið og þetta er raunverulegt svar og ég er ekki að búa þetta til og taktu nú vel eftir: „Katrín skilur hvernig kerfið virkar. Katrín mun ekki rugga neinum bátum.“ Þetta var bara svona vá fyrir mér.“
Björn og Arnar Þór voru sammála um að þetta hefði ógnað verulega stöðu forsetaembættisins sem varnagla eða öryggisventils gegn aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Alþingis.
Arnar Þór segir að þessi samtöl hafi hann átt við menn í innsta hring þessara elstu starfandi stjórnmálaflokka á Íslandi en neitar að nefna nöfn. Hann segist enn fremur hafa skömmu áður en hann tilkynnti um sitt framboð til forseta borist skilaboð frá mönnum úr innsta hring Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og úr gamla Alþýðuflokknum. Skilaboðin hafi verið öll efnislega á sömu lund: „Þú munt ekki komast í gegn. Þú ert að kljást við ofurefli. Það verður stillt upp frambjóðanda sem verður sterkari en nokkur óháður frambjóðandi getur nokkurn tímann ráðið við. Þú átt að hafa vit á því að draga þig til hlés. Það væri þér fyrir bestu.“
Hafa ber í huga að Arnar Þór tilkynnti framboð sitt í upphafi árs 2024 en Katrín í apríl sama ár. Hann segist aðspurður líta svo á að þessi skilaboð hafi falið í sér hótun eða aðvörun, klædd í búning umhyggju. Hvort Katrín hafi verið sá frambjóðandi sem átt var við með þessum skilaboðum tekur Arnar Þór þó ekki fram með beinum hætti.