Ég undra mig oft á því hversu framtíðarhorfur eru lítt til umfjöllunar hér á landi; að menn leitist við að spá fyrir um komandi tíma. Slíkar vangaveltur þeirra er gerst til þekkja á afmörkuðum sviðum þjóðfélagsins geta auðveldað forystumönnum að marka því framtíðarsýn og þar með gert alla áætlunargerð fólks og fyrirtækja raunhæfari.
Þar sem ég var að glugga í gömlu dóti á dögunum rakst ég á eintak af tímaritinu Vikunni frá árinu 1963 — blaði sem helgað var aldarfjórðungsafmæli tímaritsins og athugum að þetta er frá blómaskeiði tímaritanna, ekkert íslenskt sjónvarp komið til sögunnar og enn markaður fyrir efnismikil vikurit með vönduðu efni. Í umræddu tölublaði voru fengnir þrír valinkunnir sérfræðingar á ólíkum sviðum til að spá fyrir um þær breytingar sem kynnu að verða næsta aldarfjórðunginn — hvernig yrði umhorfs á fimmtugsafmæli Vikunnar. Viðmælendurnir voru þeir Jóhann Hannesson prófessor, Gísli Halldórsson arkitekt og Jóhannes Nordal seðlabankastjóri.
Í upphafi samtalsins voru efnahagsmálin til umfjöllunar og veltu menn því fyrir sér hvort verðgildi krónunnar héldi áfram að rýrna með sama hraða og frá því á árum heimsstyrjaldarinnar. Að mati Jóhannesar yrði það álitið gott ef afkoma fólks yrði orðin tvöfalt betri að aldarfjórðungi liðnum og hafði þar í huga það sem almennt væri talið álitið hægt að ná fram með því hagkerfi sem við byggjum við.
Blaðamaður innti þremenningana því næst álits á því hvernig þeir teldu að vinnutími myndi breytast á sama tíma en því hefði verið spáð erlendis að eftir 25 ár yrði vinnutími manna almennt orðinn níu dagar á móti hverjum fimm í fríi. Jóhannes kvaðst búast við að flestir hefðu nóg að starfa í framtíðinni, en eftir því sem vinnutíminn styttist hefðu menn meiri tíma til að sinna öðrum hlutum en sjá beinlínis fyrir sér og sínum. Þeir gætu þá farið að græða upp landið í sjálfboðavinnu. Nú væri raunar svo komið að ýmsar starfsstéttir ynnu aðeins fimm daga vikunnar svo vinnutími hefði þegar styst verulega hjá mörgum. Gísli benti þá á að þrátt fyrir aukna vélvæðingu yrði einhver að stýra tækjunum. Til þess þyrfti tæknifræðinga og alls kyns aðra sérfræðinga.
Aðspurðir um vegamál taldi Gísli óhjákvæmilegt að vegir yrðu bættir og bílar yrðu áfram aðalsamgöngutækið þá svo að einteiningsbrautir og jafnvel járnbrautir kynnu að koma til sögunnar. Við blasti að á lengri leiðum væru járnbrautir mikið þægilegri farartæki en bifreiðar. Í millilandasamgöngum taldi Gísli að til sögunnar yrðu komnar flugvélar sem skotið yrði beint upp í háloftin en svifu til jarðar á áfangstað. Með slíkri skutlu mætti komast héðan til New York á tveimur klukkustundum.
Gísli benti á að þau „geimskip“ sem nú sveimuðu umhverfis jörðina myndu án efa koma að miklu gagni í framtíðinni og sagði svo: „Eftir 25 ár munu rafeindaheilar vinna verk þúsunda manna á ýmis konar skrifstofum, og skila niðurstöðum og upplýsingum, sem ella væri ekki gerð tilraun til að afla. Þess vegna verður unnt að spá lengra fram í tímann, svo sem um fiskveiðar, veðurfar, fjárhagslega afkomu, iðnað og ýmis konar framkvæmdir.“
Flugskutlan hefur látið á sér standa sem og járnbrautirnar en annað sem Gísli nefndi átti sannarlega allt eftir að koma fram með tölvutækninni.
Gísli taldi einnig sýnt að Íslendingar myndu á komandi árum nýta mun betur þau verðmæti sem þeir sæktu úr sjó og án efa fyndust nýir markaðir. Þar sköpuðust tækifæri til stóraukinna þjóðartekna. Jóhannes nefndi í þessu sambandi að líklega væru ekki svo geipilegir möguleikar á að auka magn framleiðslunnar en stórbæta mætti nýtingu sjávarafurða. Jóhann taldi að fiskirækt yrði stunduð hér í framtíðinni í stórum stíl — ekki eingöngu á landi heldur líka í sjó.
Jóhannes áleit að Ísland ætti fyrir sér að verða eftirsótt ferðamannaland. Margt mælti með því, vaxandi frítími manna víða um lönd sem og auknar tekjur. Ekkert svið persónulegrar neyslu hefði aukist jafnmikið á undangengnum árum eins og ferðalög og búast mætti við að Ísland nyti þess eins og önnur lönd því Ísland hefði „upp á ýmislegt að bjóða, sem verður meira og meira metið, eftir því, sem lengra líður. Fyrst og fremst öræfin, eyðilönd og sérkennileg náttúra“. Gísli kvaðst eiga eina ósk í þessu sambandi en hún væri sú að komið yrði upp baðstað þar sem sjó yrði dælt upp á land og hann hitaður með vatni frá Hitaveitunni. Þar mætti eins nota rafgeislalampa „til að verma fólkið í flestu veðri“.
Jóhannes kvað ýmsa möguleika vera á stóriðju hér á landi sem byggðist á orku en á sumum sviðum iðnaðar vægi orka gríðarlega þungt í framleiðslukostnaði og ætti það sér í lagi við um framleiðslu áls (sem þá var enn kallað aluminíum) og þungavatns.
Þess var þá ekki langt að bíða að álver risi í Straumsvík og hafist yrði handa við byggingu stórvirkjana en ferðamannalandið Ísland var fjarlægari draumur þó það hafi nú ræst með baðlónum víðsvegar um landið þó þar sé lítið notast við rafgeislalampa.
Blaðamaður innti þá þremenninga álits á erlendum menningaráhrifum, hvort móðurmálið yrði í hættu. Gísli nefndi að Íslendingar yrðu sífellt meiri alheimsborgarar, margir dveldust langdvölum við nám og störf erlendis án þess að týna niður íslenskunni: „Ég held að ef menntunin er nógu góð til að byrja með, þá sé engin hætta á að við töpum niður okkar máli þess vegna. Við kynnumst betur hugsanagangi annarra þjóða og menningu þeirra, og ég sé ekki að við höfum annað en gott af því.“ Aftur á móti kvaðst hann óttast að sjónvarpið hefði ekki góð áhrif á menn, að með tilkomu þess læsu menn minna, hugsuðu minna, sæju með öðru auganu og heyrðu með öðru eyranu, notuðu heilann minna og yrðu áhrifagjarnari.
En blaðamaðurinn spurði þá hvort þeir teldu líklegt að hægt yrði að auka andlegan þroska manna á komandi aldarfjórðungi. Jóhann svaraði þegar í stað að það væri alveg undir uppeldinu komið. Jóhannes nefndi þá að litið til mannkynssögunnar hefði aldrei orðið svo ör andleg þróun að sést hafi til stökkbreytinga á því sviði. Gísli gerði að umtalsefni í þessu sambandi hversu lítinn hluta heilans menn almennt nýttu til sjálfstæðrar íhugunar. Jóhann kvaðst litla trú hafa á að lyf myndu bæta gáfur manna og andlegan þroska — þar yrðu að koma til bættar kennsluaðferðir en lítið hefði verið aðhafst hér á landi í því efni. Jóhannes bjóst ekki við neinni byltingu í kennslutækni. Árangur af nýjungum á því sviði yrði heldur ekki ljós fyrr en á löngum tíma.
Jóhannes hafði á orði að einn þeirra möguleika sem maðurinn notaði einna verst væri greindin: „Möguleikar á því að þroska hæfileika manna til að nota gáfur sínar betur en menn raunverulega gera nú, eru áreiðanlega stórkostlega miklir, bæði með því að þjálfa betur hvern einstakling, og með því að gefa hverjum einstakling tækifæri til að beita sér á þeim sviðum, þar sem hæfileikar hans eru mestir.“ Þetta sæist meðal annars á því hve geysilegur munur væri á árangri skóla og árangri barna frá mismunandi heimilum eftir því hvernig uppeldi þeirra hefði verið háttað.
Ég minnist þess að hafa lesið þetta viðtal einhvern tímann sem unglingur og fyrir mörgum árum átti ég samtal við Jóhannes Nordal og spurði hvernig honum fyndist úr hafa ræst og ég man að honum þótti þarna býsna vel að orði komist um margt.
Þegar ég les þetta núna aftur það herrans ár 2025 þykir mér þremenningarnir tala af furðumiklu innsæi og mest um vert þykir mér að þeir skyldu ekki dvelja eingöngu við vangaveltur um tækniframfarir og þróun atvinnuhátta heldur og velta fyrir sér stærri spurningum um þroska mannsins og hvernig hann gæti nýtt gáfur sínar betur.
Við þurfum ekkert að velkjast í vafa um það hvernig tækniframfarir og orkuöflun hafa gerbreytt lífskjörum okkar á þeim 62 árum sem liðin eru frá því að viðtalið birtist en áleitnari er spurningin um þroska mannsins á sama tíma, jafnt andlegan sem líkamlegan, og vekur upp nýja spurningu um það hvernig við hyggjumst sækja fram á þeim sviðum á komandi árum og áratugum.