Ekki er það einasta svo að sagan endurtaki sig á Íslandi, heldur fer hún hratt í hringi. Og það er vitaskuld sakir þess að landsmenn telja sig ekki þurfa að læra af henni.
Þar er þrákelkni eyjarskeggja komin í allri sinni einstrengni. Lærdómurinn komi ekki að utan, heldur innan úr þeim sjálfum, einangruðum og utanveltu, og þess heldur harðduglegum annesjabúum sem þurfi ekki á þekkingu annarra að halda. En ekkert af því útlenska henti íslenskum aðstæðum. Landinn sé sjálfum sér nógur. Og svo verði um aldur og ævi. Það megi heita lögmál lands og þjóðar.
Íslenskir athafnamenn, sem hugsa út fyrir landsteinana og keppast við að hasla sér völl á frjálsum mörkuðum, hafa haft áhyggjur af þessum þankagangi um langa hríð. Þeir hafa ekki verið sannfærðir um ágæti heimóttaráráttunnar. Og telja hana standa framförum heimamanna fyrir þrifum.
Rök þeirra eru rist í afkomu og rekstur, og ljúga líkast til engu um arðbærni og ágóða, enda standa þau skýrum stöfum í ársskýrslum langrar sögu íslenskra utanríkisviðskipta.
Heyrum fyrst í Sigurði Helgasyni, farsælum forstjóra Flugleiða frá því á síðustu öld, en þá var honum eitt sinn hugsað til uppgangs Loftleiða upp úr seinna stríði, sem varð á tímabili stærst íslenskra fyrirtækja. Þegar best lét náði það þriggja prósenta hlutdeild í flugmarkaði yfir Atlantshafið og stóð undir nafni sem fyrsta íslenska útrásarfélagið, enda fengust níutíu af hundraði tekna þess að utan.
En örsmár og sveiflukenndur krónugjaldmiðillinn hefði ávallt staðið starfsemi Loftleiða fyrir þrifum. Erlendir bankamenn hafi aldrei viljað líta við honum, enda sæju þeir hann hvergi skráðan. Því hafi ársreikningar Loftleiða að lokum verið færðir í Bandaríkjadal. Ekkert mark hafi verið tekið á þeim íslensku í því mikla róti sem einkenndi efnahagsmálin heima fyrir þar sem saman fóru stökkbreytingar í verðbólgu og eilífar dýfur og toppar í gengi krónunnar frá einu ári til annars.
Altso, krónunni hafi verið hafnað í alþjóðaviðskiptum. Það væri ekki hægt að færa hana til bókar.
„Staðreyndin er sú að kerfisáhætta og kostnaður krónunnar grefur undan efnahagslegu sjálfstæði íslenskrar þjóðar.“
Heyrum því næst í Boga Nils Bogasyni, öflugum forstjóra Icelandair á nýrri tíð, en gengissveiflur krónunnar eru enn þá að plaga flugstarfsemi íslenskra félaga að hans mati. Reksturinn skrökvi ekki. Reglubundnar sveiflur krónunnar eru honum áhyggjuefni. Enn sem fyrr. Veruleg styrking krónunnar nú um stundir hafi afar neikvæð áhrif á rekstrarniðurstöðu félagsins. Bréf þess falli fyrir vikið.
„Raungengi íslensku krónunnar er nú nálægt sögulegu hámarki. Sagan sýnir að þessi staða er ósjálfbær og mikil áskorun fyrir útflutningsgreinar þjóðarinnar,“ segir Bogi Nils í Viðskiptablaðinu.
Svo sagan endurtekur sig, öld fram af öld. Krónan sveiflar afkomu Loftleiða, Flugleiða, Icelandair, Play og færa má rök fyrir því að hún hafi orðið WOW að falli.
Staðreyndin er sú að kerfisáhætta og kostnaður krónunnar grefur undan efnahagslegu sjálfstæði íslenskrar þjóðar. Enda þótt vaxtaáþjánin af völdum hennar sé augljós, eru gengissveiflur hennar algerlega ófyrirséðar. Smæð krónunnar skiptir þar sköpum. Hún þolir ekki aukningu á innstreymi á gjaldeyri, því hún leiðir til yfirsveiflu sem á endanum kemur niður á öllum.
Tökum dæmi. Krónan hækkaði um nærri þriðjung frá 2015 til 2017 sem gerði samkeppnishæfni allra útflutningsgreina afleita og gróf undan stöðu þeirra. Í árslok 2024, eftir pestardýfuna, var raungengið svo aftur komið í svipaðar hæðir og var upp úr 2015, og álíka háfleygt og það var frá 2005 til 2008.
Fyrirsjáanleikinn er enginn. Hann hefur aldrei verið nokkur. Hvorki í tilviki fyrirtækja né heimila.
En þrákelknin er þó söm við sig. Hún minnir á ótta Íslendinga við litasjónvarp frá því fyrir hálfri öld. Þá lögðust framsóknarþingmenn á Alþingi gegn litvæðingunni, enda sáu þeir á fylgiskönnunum að meirihluti landsmanna var sáttur við svarthvítt sjónvarp. Þjóðin teldi ekki tímabært að fá fleiri liti.
Og þannig er það enn í dag.