Svarthöfði man þá tíð er júlí var sjónvarpslaus mánuður og ekkert sjónvarp á fimmtudögum í neinum mánuði. Sjónvarpið var svarthvítt og lítið, myndin óskýr. Þetta var í árdaga sjónvarps á Íslandi, samkeppnin engin nema ef vera skyldi fyrir Kanasjónvarpið sem svo var aflagt nokkrum árum síðar.
Núna í sumar finnst Svarthöfða hann horfinn á vissan hátt aftur til þessara sjónvarpslausu júlídaga í den. Hann er nefnilega það sem kallað er fréttafíkill og getur vart á sér heilum tekið missi hann af einum einasta fréttatíma í sjónvarpi eða útvarpi. Gildir þá einu að vitaskuld er hann búinn að innbyrða allar helstu fréttir dagsins með rápi um vefmiðla og samfélagsmiðla.
Ríkisútvarpið, sem er eini fjölmiðillinn á landinu sem hefur þá skilgreindu skyldu að sjá um að halda okkur mörlandanum upplýstum um allt sem máli skiptir, hefur með öðrum orðum öryggishlutverki að gegna og fær fyrir vikið einhverja sjö milljarða frá skattgreiðendum, er nefnilega hættur að senda út sjónvarpsfréttir á kristilegum tíma.
Með nokkurra daga fyrirvara í júní var tilkynnt að sjónvarpsfréttir yrði fluttar til kl. 21 til að hægt væri að senda beint út fótboltaleiki frá Evrópu. Nú er Svarthöfði sannarlega knattspyrnuáhugamaður en þessi ráðstöfun fannst honum undarleg af ýmsum sökum. Það er fyrrgreint öryggishlutverk en líka það að ríkismiðillinn hefur yfir að ráða tveimur heilum sjónvarpsrásum og gæti því hæglega sent út fótboltann á RÚV2 og leyft dagskránni bara að halda sér á RÚV1.
Eftir smá eftirgrennslan komst Svarthöfði að því að vissulega sendir RÚV fótboltann út á RÚV 2. En RÚV 1 er líka tekin undir þetta þannig að milli kl. 19 og 21 er sami fótboltaleikurinn sendur út á báðum sjónvarpsrásum RÚV. Frekari eftirgrennslan leiddi í ljós að ástæðan fyrir þessu er sú að RÚV telur sig hámarka auglýsingasölu með því að hafa fótbolta á tveimur rásum frekar en að senda út sína hefðbundnu dagskrá á annarri þeirra.
Það er eitthvað stórkostlega galið við þetta og Svarthöfði leyfir sér að efast um að sé horft til lengri tíma en bara þess fótboltamóts, sem nú stendur yfir, sé ekkert ólíklegt að RÚV sé að skaða möguleika sína á auglýsingasölu til framtíðar. Það er nefnilega þannig að Svarthöfði finnur fyrir mikilli frelsistilfinningu nú þegar hann þarf ekki að horfa á fréttir Sýnar og RÚV í beit. Hann er frelsaður og laus undan vanaokinu að þurfa alltaf að stilla á RÚV kl. 19 og sitja svo við skjáinn fram eftir kvöldi eftir að fréttum lýkur. Og það er ekkert víst að hann komi aftur, alls ekkert víst. og hann er þess fullviss að sama gildir um marga dygga áhorfendur RÚV. Og ef áhorfið minnkar hverfa auglýsingatekjurnar.
Og nú er það svo, sem ekki var þegar sjónvarpslaust var í júli, að íslenskir sjónvarpsáhorfendur hafa val. Þeir þurfa ekki að horfa á RÚV.
Svarthöfði minnist orða hluthafans sem spurði stjórnendur Coca Cola fyrirtækisins að því, þegar þeir tóku kókið af markaði og settu „nýtt kók“ á markaðinn, hvort ekki væri allt í lagi með þá andlega. Auðvitað hrundi kóksalan og menn neyddust til að setja gamla kókið aftur á markað en náðu aldrei að vinna upp það sem hafði tapast.
Svarthöfði spyr stjórnendur RÚV: Ert ekki allt í lagi með ykkur andlega?