Markmið Bandaríkjanna er að brjóta upp það skipulag heimsmála, sem þau sjálf byggðu upp eftir seinni heimsstyrjöld.
Kína og Rússland hafa lengi stefnt að sama marki. Það þýðir þó ekki að þau vilji fylla upp í tómarúmið með sama hætti.
Flest bendir til að Bandaríkin vilji koma á heimskipan þar sem leiðtogar þessara þriggja stóru kjarnorkuvelda eigi samskipti eftir lögmáli, sem kennt er við guðfeður fjölskyldna á Sikiley.
Bandaríkin hafa vikið frá þeim gildum og þeirri hugmyndafræði, sem samstarf vestrænna ríkja hefur hvílt á í áratugi.
Þegar fjármálamarkaðir heimsins voru um það bil að hrynja fyrir skömmu frestaði Trump forseti framkvæmd heimstollastefnu sinnar að hluta.
Þeirri auðmýkingu lýsti hann sem svo miklum sigri að nú stæðu leiðtogar heimsins í langri röð til þess að flensa afturendann á honum, svo orðalag hans sjálfs sé notað óbrenglað.
Ég hef ekki nógu mikla söguþekkingu til að finna dæmi um sams konar lýsingu á samskiptalögmálum ríkja. Samband gömlu Ráðstjórnarríkjanna við leppríkin byggði að vísu á svipuðum grundvelli, en leiðtogar þeirra notuðu þó aldrei þetta orðalag.
Hugmynd forseta Bandaríkjanna virðist vera sú að nota þessa afturendabiðröð, sem hann kallar svo, til að deila og drottna.
Hugmyndafræði ríkisstjórnar Bandaríkjanna er reist á þeirri skoðun að í viðskiptum geti aðeins annar aðilinn grætt. „Ameríka fyrst kenningin“ byggir á því að Bandaríkin ein eigi að njóta ábata í viðskiptum við aðrar þjóðir. Ofurtollastefnan á að tryggja að svo verði.
Evrópusambandið er of öflugt til þess að Bandaríkin geti verið viss um að þau megni að sveigja það að lögmáli afturendabiðraðarinnar.
Þess vegna stefna Bandaríkin að því að sundra samstöðu Evrópuþjóða um fullveldi ríkja, lýðræði, mannréttindi og frjáls viðskipti þar sem stór ríki og smá sitja við sama borð.
Yfirlýsingar ríkisstjórnar Bandaríkjanna hafa veikt svo samtryggingarákvæði NATO-sáttmálans að verulegar efasemdir eru um að það virki.
Eftir stendur að eina virka samtryggingarákvæðið fyrir Evrópuþjóðir er í sáttmála Evrópusambandsins.
Að baki því er þó ekki sams konar skipulagt hervald eins og í NATO. En gildi þess er ótvírætt sem best sést á því að það er helsta hindrunin gegn innlimun Grænlands í Bandaríkin. Þar er NATO úr leik.
Í byrjun kalda stríðsins átti Ísland mikil viðskipti við Ráðstjórnarríkin. Við seldum þangað stóran hluta sjávarafurðanna og keyptum þaðan alla olíu. Að auki áttu sér stað fjölþætt menningarleg samskipti.
Samt gátu Ráðstjórnarríkin aldrei nýtt sér þessa þörf Íslands fyrir viðskipti til þess að ná pólitískum áhrifum.
Ástæðan var sú samtrygging, sem fólst í NATO sáttmálanum og varnarsamningnum. Nú er hún verulegri óvissu undirorpin.
Það eru augljósir hagsmunir Íslands að geta haldið áfram viðskiptum við Bandaríkin. En grundvöllur þeirra er ekki lengur sameiginleg gildi fremur en í viðskiptunum við Ráðstjórnarríkin á sinni tíð. Traustið er farið.
Þetta eru alveg nýjar aðstæður. Í raun pólitísk kúvending. Fyrir þá sök er óhjákvæmilegt að huga að því að styrkja betur pólitíska stöðu okkar í Evrópu. Aðild að samtryggingarákvæði Evrópusambandsins er nærtækasta lausnin.
Hún styrkir ekki bara tengslin innan Norðurlanda og samskiptin við önnur Evrópuríki. Flest bendir til þess að þetta evrópska samtryggingarákvæði sé mikilvægur bakhjarl fyrir Ísland í áframhaldandi viðskiptum við Bandaríkin ef þau eiga hér eftir sem hingað til að byggjast á jafnréttisgrundvelli þrátt fyrir stærðarmun.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að það verði í höndum þjóðarinnar að segja já eða nei um framhald viðræðna við Evrópusambandið um fulla aðild og meta hvort Ísland eigi að tryggja pólitíska hagsmuni sína betur í umróti alþjóðlegrar samvinnu.
Heimsmyndin hefur smám saman verið að breytast. Jafnvel eftir að Bandaríkin hafa kollvarpað heimsmyndinni eru allir stjórnarandstöðuflokkarnir á móti því að kjósendur fái þetta vald. Hreyfingarleysi í utanríkismálum er þeirra boðskapur þótt allt sé á hverfandi hveli.
Þetta sýnir vel hvernig áratuga frumkvæði og ábyrgð utanríkismálum hefur flust á milli flokka.