fbpx
Miðvikudagur 28.maí 2025
Eyjan

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir skrifar: Búvörulagadómur Hæstaréttar

Eyjan
Þriðjudaginn 27. maí 2025 16:10

Ragnheiður Elfa Þorsteinsdóttir, lektor við Lagadeild H.A.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í bloggi sem ég skrifaði á vef lagadeildar Háskólans á Akureyri 19. nóvember 2024 sl. var fjallað um niðurstöðu í svonefndum búvörulagadómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 18. nóvember 2024. Í dómi héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að meðferð Alþingis á frumvarpi til breytinga á búvörulögum hafi verið í ósamræmi við fyrirmæli 44. gr. stjórnarskrárinnar um að þrjár umræður á Alþingi. Var dómurinn gagnrýndur fyrir það að með honum hafi dómsvaldið teygt sig um of inn á valdsvið löggjafans, Alþingis, með dómi sínum um að hin þinglega meðferð frumvarpsins hefði ekki verið til samræmis við áskilnað 44. gr. stjórnarskrár um að frumvarp skuli afgreitt við þrjár umræður. Laut gagnrýnin að því að með dómi héraðsdóms hafi verið lagt efnislegt mat á pólitískt mat þingsins á því hvort skilyrði 44. gr. hafi verið uppfyllt. Sú niðurstaða hafi ekki verið til samræmis við þá grunnstoð stjórnskipunarinnar sem er hið þrígreinda ríkisvald, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að Alþingi og forseti Íslands fari saman með löggjafarvaldið. Forseti og önnur stjórnarvöld framkvæmdarvaldið og dómendur fari með dómsvaldið.

Nú hefur Hæstiréttur kveðið upp dóm sinn, en málinu var áfrýjað beint til Hæstaréttar, sjá dóm Hæstaréttar frá 21. maí sl., mál nr. 56/2024. Þar snéri dómurinn niðurstöðu héraðsdóms við. Dómur Hæstaréttar er merkilegur fyrir þær sakir að þar er að finna ítarlega umfjöllun um efni og markmið 44. gr. stjórnarskrárinnar og fyrirmæli þingskapalaga.

Víðtækt en ekki óheft svigrúm Alþingis við meðferð lagafrumvarpa

Eftir að hafa rakið meðferð frumvarpsins fyrir þinginu komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að svigrúm Alþingis til mats á þeim atriðum sem máli skiptu væri víðtækt en ekki óheft. Matskennt sé hvenær breytingartillaga við frumvarp feli „í sér slíka gerbreytingu á frumvarpi að rétt sé að fara með hana sem nýtt og sjálfstætt frumvarp“ samkvæmt 44. gr. stjórnarskrárinnar.

Þá fjallaði Hæstiréttur um hið þrígreinda ríkisvald en í „ljósi stöðu Alþingis í stjórnskipuninni og þeirrar þrígreiningar ríkisvaldsins sem leiðir af 2. gr. stjórnarskrárinnar“ sem fyrr er rakin verði að „ætla þinginu víðtækt svigrúm til mats um þessi atriði.“ Komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að þingið hefði ekki farið út fyrir það svigrúm sem það nyti til breytinga á frumvarpi með þeim hætti að brotið hefði verið gegn 44. gr. stjórnarskrárinnar.

Það væri því ekki á valdsviði dómstóla að „endurskoða það pólitíska mat kjörinna fulltrúa á Alþingi“ sem hafi búið að baki breytingatillögu þeirri sem meirihluti atvinnuveganefndar og sem þingið féllst á við aðra og þriðju umræðu. Var því hafnað að lögin nr. 30/2024 hefðu ekki verið sett á stjórnskipulega réttan hátt.

Þýðingarmikill dómur og fordæmisgefandi

Dómi Hæstaréttar fylgdi ítarlegur rökstuðningur þar sem m.a. er fjallað um mörk löggjafarvalds og dómsvalds um þetta. Dómurinn veitir ákveðna leiðsögn um hvar þessi mörk kunna að liggja, en játar Alþingi víðtækt svigrúm til mats um það, þó þannig að það er ekki óheft. Niðurstaðan um það hvort skilyrði 44. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið uppfyllt hefur þó mikla þýðingu í stjórnskipunarrétti og dómurinn mikilvægur fyrir túlkun á 44. gr. stjórnarskrárinnar. Að því leyti til markar dómurinn tímamót.

Höfundur er lektor við lagadeild Háskólans á Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Bólu-Hjálmar

Óttar Guðmundsson skrifar: Bólu-Hjálmar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Enn tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi – boðar ekki gott fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2026

Orðið á götunni: Enn tapar Sjálfstæðisflokkurinn fylgi – boðar ekki gott fyrir sveitarstjórnarkosningar í maí 2026