fbpx
Laugardagur 17.maí 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Væla og skæla samkvæmt pöntunum

Eyjan
Laugardaginn 17. maí 2025 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú er svo komið að Morgunblaðið birtir á hverjum einasta degi fréttir eða greinar sem einkennast af eintómu væli og nöldri hinna svekktu og sigruðu. Nokkur dæmi eru um þetta í laugardagsblaði Mogga. Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, krefst þess að borgin falli frá áformum um þéttingu byggðar í Grafarvogi eins og hópur íbúa hefur talað fyrir. Marta heldur því fram „að það eigi að þrengja svona að fólki og ræna það lífsgæðum og lýðheilsunni.“ Það er ekkert minna! Byggð hefur verið þétt út um alla borg um árabil og Grafarvogsbúar telja það svo sem allt í lagi – en ekki bara hjá þeim. Stefnan er greinilega eins og segir í laginu . . . „Bara ef það hentar mér.“ Hefur Marta engar áhyggjur af því gífurlega byggingarmagni sem hefur verið heimilað á lóð Sjálfstæðisflokksins við Valhöll. Mun sú mikla þétting byggðar ekki „skaða lífsgæði og lýðheilsu“ íbúanna þar í kring?

Orðið á götunni er að málflutningur Írisar Róbertsdóttur, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, sem birt er frétt um á forsíðu Morgunblaðsins sé aumkunarverður og beinlínis vandræðalegur fyrir hana. Fyrirsögnin er „Veiðigjaldahækkun þungbær úti á landi.“ Þetta væl er reyndar alveg upp úr kokkabók Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem starfsmenn þeirra hafa stafað ofan í þingmenn stjórnarandstöðunnar að undanförnu. Íris kann alveg sönginn. En hún veit örugglega betur. Þó að Ísfélagið í Vestmannaeyjum muni greiða hærri veiðigjöld eftir fyrirhugaða hækkun mun það ekki bitna neitt á atvinnulífinu eða högum fólks í Vestmannaeyjum. Eina sem mun hugsanlega gerast er að eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna í Eyjum munu jafnvel ekki vera eins stórtækir í margvíslegum fjárfestingum í Reykjavík og verið hefur á undanförnum árum. Þeir munu hugsanlega kaupa færri heildsölur, færri verslunarfyrirtæki og færri stórmarkaði, iðnfyrirtæki og risafasteignir til útleigu á höfuðborgarsvæðinu. Það mun ekki valda neinum skaða í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið virðist ekki lengur sjá neitt jákvætt í samfélaginu. Þegar skipt er um lögreglustjóra í einu umdæmi vegna umfangsmikilla skipulagsbreytinga er reynt yfir þvera forsíðu blaðsins að gera úr þeim atburði það sem blaðið kallar „sorgarferli.“ Orðið sorgarferli er yfirleitt ekki notað nema þegar dauðsföll eða hörmungar verða. Endurskipulagning í einu lögregluumdæmi er sem betur fer ekki svo stór viðburður.

Orðið á götunni er að Björn Bjarnason, fyrrum stjórnmálamaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hafi hvorki aukið hróður sinn né blaðsins með sorglegri grein sinni í blaði dagsins. Grátur og gnístran tanna er það sem fyrst kemur í hugann við lestur skrifa hans. Björn Bjarnason fékk heldur betur sín tækifæri hjá Sjálfstæðisflokknum á sínum tíma. Hann gegndi bæði stöðu dómsmálaráðherra og menntamálaráðherra um skeið. En sól hans reis aldrei eins hátt og hann ætlaðist til. Björn langaði að feta í fótspor föður síns, Bjarna heitins Benediktssonar, og verða formaður flokksins og forsætisráðherra og helst einnig utanríkisráðherra og borgarstjóri í Reykjavík eins og faðirinn. En til þess kom aldrei þótt sumt af því væri reynt án árangurs. Nú er Björn kominn á níræðisaldur, hans bestu tímar sem pólitískur vígamaður langt að baki eins og skrif hans bera með sér. Grein Björns í blaði dagsins er uppfull af takmarkalausu svekkelsi yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi nú misst völdin í landstjórninni eftir nær samfellda valdatíð í aldarþriðjung. Björn og aðrir flokksmenn verða að venjast þessum nýju staðreyndum án þess að reyna að afgreiða forystumenn nýrrar ríkisstjórnar með innantómum orðum eins og „stöðuhroki“ og „storkandi framkoma“ þegar þeir flytja mál sitt með öðrum hætti en hentar Birni Bjarnasyni. Og enn er verið að væla yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þurft að færa sig um set í þinghúsinu þegar hann var ekki lengur með fjölmennasta þingflokkinn!

Fleira mætti nefna til marks um ólund Moggamanna. Þeir geta ekki glaðst yfir þeim stóra sigri sem ríkisstjórnin, en þó einkum og sér í lagi fjármálaráðherra, unnu með hinu vel heppnaða útboði á hlutabréfum ríkisins í Íslandsbanka sem seldust á þremur dögum þar sem eftirspurnin var meira en tvöföld. Allt fór vel sem er vitanlega allt annað en það sem gerðist þegar vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og Bjarna Benediktssonar klúðraði sölu hlutabréfa í bankanum með þekktum eftirmálum. Einnig er vikið enn á ný að því að ríkisstjórnin ætli að gera aðför að fjölmiðlafrelsi með því að minnka aðeins styrki til tveggja stærstu miðlanna, Árvakurs og Sýnar, þannig að heldur meira komi í hlut lítilla fjölmiðla, einkum úti á landi. Væl þetta er ámátlegt þegar framlög til þessara stóru skerðast um fáeinar milljónir króna en þessi fyrirtæki velta milljörðum á ári, Mogginn í eigu sægreifa sem styrkja útgáfuna rausnarlega og Sýn í eigu eignamanna og lífeyrissjóða landsins. Er einhver ástæða til að gráta?

Orðið á götunni er að stöðug ólund Morgunblaðsins sé ekkert annað en skemmtiefni fyrir þá sem styðja hvorki blaðið, stjórnarandstöðuna né samtök sægreifa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hún er samsæriskenningasmiður, andstæðingur bóluefna og getnaðarvarna – Nú verður hún landlæknir og aðalráðgjafi Trump

Hún er samsæriskenningasmiður, andstæðingur bóluefna og getnaðarvarna – Nú verður hún landlæknir og aðalráðgjafi Trump
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Er Bergþór Ólason orðinn helsti siðgæðisvörður Alþingis?

Orðið á götunni: Er Bergþór Ólason orðinn helsti siðgæðisvörður Alþingis?
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Heiðrún Lind um auglýsingarnar umdeildu: „Fátt sem að við höfum gert sem ákveðnum aðilum líkar vel við”

Heiðrún Lind um auglýsingarnar umdeildu: „Fátt sem að við höfum gert sem ákveðnum aðilum líkar vel við”
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Aumkunarverð framganga stjórnarandstöðunnar – málþóf, tafaleikir og bjánataktar – samtök sægreifa með útsendara í þinghúsinu

Orðið á götunni: Aumkunarverð framganga stjórnarandstöðunnar – málþóf, tafaleikir og bjánataktar – samtök sægreifa með útsendara í þinghúsinu