fbpx
Laugardagur 16.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Frá Brjánslæk til Brussel

Eyjan
Fimmtudaginn 15. maí 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við fyllum öll líf okkar allt of mikið með alls konar áhyggjum út af veröldinni en veitum því ekki eftirtekt hversu ágætlega hún getur komist af án okkar.“

Þetta segir í 105 ára gömlu bréfi, sem Tómas Guðmundsson skáld skrifaði systur sinni ungur að árum.

Það átti að vísu eftir að koma á daginn að lega landsins í veröldinni skipti máli í hugmyndafræðilegum átökum um frelsi og alræði. Að öðru leyti stendur eftir að veröldin kemst ágætlega af án okkar.

Hitt er að í samtímanum þarf Ísland meir á samfélagi þjóða að halda en flestar aðrar þjóðir. Þannig eru lifandi tengsl á milli litlu ferjuhafnarinnar á Brjánslæk á Barðaströnd og höfuðstöðva NATO og ESB í Brussel í Belgíu.

Þögnin

Á mánudag flutti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra Alþingi árlega skýrslu um utanríkispólitík Íslands. Fátt ræður meir um hag landsins, heimila og fyrirtækja, þéttbýlis og dreifðra byggða en þau viðfangsefni sem þar eru til umfjöllunar.

Frá fyrstu skrefum Íslands inn á samstarfsvettvang frjálsra þjóða eftir seinni heimsstyrjöld hefur mikilvægi þess ekki verið ríkara að stjórnvöld takist á við nýjar aðstæður til að tryggja efnahagslega og pólitíska stöðu landsins.

Af sjálfu leiðir að þjóðin hefur ekki í langan tíma átt meira tilkall til þess að fá að heyra skilaboð ríkisstjórnar og stjórnarandstöðuflokka um þessi efni.

En þá brá svo við að stjórnendum RÚV þótti grafarþögnin eiga best við. Hún geymir væntanlega skilning þeirra á hlutverki ríkisrekinnar fréttastofu.

Samhljómur

Ræður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur utanríkisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur fyrrum utanríkisráðherra og fyrsta talsmanns úr röðum stjórnarandstöðunnar voru um margt eftirtektarverðar.

Báðar byggðu þær mál sitt á sama skýra hugmyndafræðilega grunni. Og það sem meira er: Í skilaboðum þeirra var góður samhljómur um flest.

Raunsætt mat beggja á þeim breyttum aðstæðum í veröldinni, sem kalla á að ný skref verði stigin við mótun varnarmálastefnu og framkvæmd hennar, féll vel saman.

Örugg og ábyrg stefna í öryggis- og varnarmálum hefur öðru fremur tryggt fullveldi landsins á lýðveldistímanum.

Þegar umrót og breyttar aðstæður kalla á að ný skref séu stigin á þessu sviði skiptir samstaða þessara tveggja höfuð talsmanna ríkisstjórnar og stærsta stjórnarandstöðuflokksins miklu máli.

Í sömu átt

Báðar lögðu þær Þorgerður Katrín og Þórdís Kolbrún áherslu á að nýjar aðstæður kölluðu líka á skýra framtíðarsýn varðandi alþjóðlega efnahagssamvinnu. Einnig þar var hugmyndafræðilegur samhljómur.

Í því sambandi er rétt að hafa hugfast að fjölþjóðlegt samstarf um varnir og viðskipti endurspeglar tvær hliðar á sama peningi eins og berum orðum segir í stofnsáttmála NATO.

Þær ræddu ágreiningslaust um nauðsyn þess að styrkja fjölþjóðlegt efnahagslegt samstarf. Spurninguna um hitt hvernig það verður best gert nálguðust þær þó með mismunandi hætti.

Þorgerður Katrín talaði skýrt um þá stefnu ríkisstjórnarinnar að fela þjóðinni að taka ákvörðun um framhald viðræðna um fulla aðild að Evrópusambandinu.

Þórdís Kolbrún lagði áherslu á að nú þyrfti Evrópa að sýna hvers hún væri megnug í viðleitni til að styrkja efnahagslega samvinnu í álfunni.

Þrátt fyrir mismunandi nálgun beindu báðar sjónum í sömu átt.

Pólitík hreyfingarleysis

Þrátt fyrir þennan ágæta samhljóm í skilaboðum þessara tveggja höfuðtalsmanna þjóðarinnar í utanríkismálum endurspeglar málflutningur þeirra ekki allsherjarsamstöðu þegar kemur að mikilvægi efnahagslegrar samvinnu.

Í því sambandi má nefna að Miðflokkur, Framsókn og hluti Sjálfstæðisflokks tala fyrir því Ísland taki ákvarðanir, sem stefnt gætu EES samningnum í uppnám. Óábyrgur málflutningur af þessu tagi er ein ástæðan fyrir því að enginn þessara flokka á nú sæti í ríkisstjórn.

Að öðru leyti virðast Miðflokkur, Framsókn og hluti Sjálfstæðisflokks telja að það mikla umrót, sem nú á sér stað í heimsviðskiptum, gefi ekki tilefni til að Ísland hreyfi sig í takt við gjörbreytta heimsmynd.

Þéttara efnahagslegt samstarf með þeim þjóðum, sem við stöndum hugmyndafræðilega næst, er ekki á þeirra dagskrá. Þetta er utanríkispólitík hreyfingarleysis þegar allt er á hreyfingu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Virðingarleysi fyrir lögreglu

Björn Jón skrifar: Virðingarleysi fyrir lögreglu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða

Sigmundur Ernir skrifar: Hræðslan við breytingar er íhaldinu ofviða
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást

Óttar Guðmundsson skrifar: Æskuást
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?

Svarthöfði skrifar: Veit Guðrún Hafsteinsdóttir hvort hún er að koma eða fara?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
11.07.2025

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!

Svarthöfði skrifar: Hættið nú að moka, greyin mín!