„Það er satt að segja dapurlegt að þingmaður Framsóknarflokksins, sem er flokkur sem hefur hingað til talist til frekar frjálslyndra afla í evrópskum stjórnmálum, skuli ýja að því að það eigi að feta þessa slóð.“
Þetta sagði Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Þarna var hann að svara fyrirspurn frá þingmanni Framsóknar, Ingibjörgu Isaksen, sem vill að Alþingi óski eftir sérstakri skýrslu frá Ríkisútvarpinu eftir umfjöllun miðilsins upp úr gögnum frá og um spæjarastofuna PPP sf.
Ingibjörg rakti í fyrirspurn að trúnaðargögn, sem áttu að vera í öruggri vörslu hjá embætti sérstaks saksóknara, hafi orðið að umfjöllunarefni hjá Ríkisútvarpinu. Um sé að ræða viðkvæm gögn um málefni einstaklinga. Þetta veki upp spurningar um hvernig meðferð ólögmætra trúnaðargagna er háttað hjá Ríkisútvarpinu og hvaða ábyrgð hvílir á þeim sem fara með stjórn ríkismiðilsins.
Logi sagði í svari sínu að ráðherra eigi ekki að skipta sér af fréttaöflun eða efnisumfjöllun ríkismiðilsins og varar hann við því að Alþingi reyni að hafa slík afskipti.
„Það væri nýmæli og ég held að við myndum ekki færast úr 17. sætinu, sem við sitjum í núna á alþjóðlegum listum yfir traust til fjölmiðla, ef pólitísk afskipti yrðu meiri af heimildaöflun eða fréttaumfjöllun. Ég vara þess vegna við því að Alþingi fari sérstaklega að sýsla með það um hvað er fjallað, með hvaða hætti gagna er aflað og annað slíkt.
Það hafa komið upp mál sem beinlínis hafa verið lögreglumál. Ég hef verið spurður um það hvort og með hvaða hætti ég ætlaði að skipta mér af því og hlutast til um það. Það er ekki betra ef gerð er krafa um að Alþingi eða ráðherrar séu að hlutast til um mál sem heyra undir réttarkerfið. Alþingi verður auðvitað að ákveða hvað það gerir. En ég teldi að þá værum við komin inn á nýjar slóðir sem kannski væri varhugavert að feta. RÚV og Alþingi skipa stjórnina. Það sé ekki undir ráðherra komið að hafa inngrip í einstaka efnisumfjöllun eða fréttaöflun.“
Ingibjörg steig aftur upp í pontu og ítrekaði að það liggi ljóst fyrir að Ríkisútvarpið sé með í fórum sínum gríðarlega viðkvæm gögn frá lögreglu og embætti sérstaks saksóknara. Ingibjörg telur nauðsynlegt að ráðherra sjái til þess að þessi gögn séu meðhöndluð af ábyrgð og að tryggt sé að frekari birting þessara gagna skaði hvorki réttaröryggi né réttarvitund almennings.
„Er hæstvirtur ráðherra virkilega þeirrar skoðunar að Alþingi eigi ekki að aðhafast frekar í málinu hvað varðar RÚV þar sem hlutverk Alþingis er jú að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu? Telur hæstvirtur ráðherra ekki mikilvægt að kalla fram upplýsingar um það hvernig Ríkisútvarpið, ríkisfjölmiðillinn, fer með þessi viðkvæmu gögn sem eiga klárlega að vera í höndum lögreglunnar?“
Logi svaraði aftur og virtist undrandi á spurningunni, enda væri þingmaðurinn að leggja til að ráðherra eða Alþingi reyni að hafa áhrif á fréttir, fréttaöflun og heimildaöflun Ríkisútvarpsins.
„Virðulegur forseti. Það er satt að segja frekar dapurlegt að þingmaður Framsóknarflokksins, sem er flokkur sem hefur hingað til talist til frekar frjálslyndra afla í evrópskum stjórnmálum, skuli ýja að því að það eigi að feta þessa slóð. Við værum þá komin á einhvern allt annan stað varðandi samband stjórnmála og frjálsrar fjölmiðlunar ef við færum að rannsaka þetta með þessum hætti. Ráðherra — jú, hann er yfir RÚV, en það þýðir ekki að hann eigi, megi eða geti vaðið þar inn og haft áhrif á fréttir og fréttaöflun og heimildaöflun. Ég sagði ekki að þingið ætti ekki að gera það. Ég sagði að ég teldi að þingið væri að feta verulega varhugaverða braut ef það gerði það. Ég held að fólk hér inni ætti að hugsa sig verulega um áður en það stígur það skref.“