fbpx
Laugardagur 10.maí 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Aumkunarverð framganga stjórnarandstöðunnar – málþóf, tafaleikir og bjánataktar – samtök sægreifa með útsendara í þinghúsinu

Eyjan
Laugardaginn 10. maí 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrsta umræða á Alþingi um frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun afnotagjalds af sjávarauðlindinni tók á sig vandræðalega mynd fyrir stjórnarandstöðuna sem birtist í miklum vanþroska og er á góðri leið með að slá út margháttaðan kjánaskap Pírata frá fyrri tímum. Margir héldu að það væri ekki hægt en málþóf stjórnarandstöðunnar, tafaleikir og almennur kjánaskapur í þinginu sýnir að merki Pírata er haldið hátt á lofti. Þykir nú lítið leggjast fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem búist var við meira af. Enginn er hissa á þingflokki Miðflokksins sem er einkennilegt samansafn, til dæmis Klausturdóna og brottrekinna stjórnmálamanna. Framsóknarflokkurinn er svo laskaður að þingmenn hans eru lítt sýnilegir í þingumræðunni.

Orðið á götunni er að þingmönnum sé engin vorkunn að hafa þurft að funda í dag til að ljúka fyrstu umræðu um veiðigjaldafrumvarpið. Þeir geta sjálfum sér um kennt fyrir að halda uppi innantómri umræðu og endurtekningum í þinginu dag eftir dag. Þingið hefur nægan tíma og þingmenn geta þá lagt á sig lengri vinnudaga. Það vorkennir þeim enginn. Ekkert er því til fyrirstöðu að Alþingi starfi til 1. júlí ef þurfa þykir. Hvers vegna liggur svo mikið á að ljúka störfum þingsins byrjun júní? Þingmenn geta haldið fundi út júní og ættu að gera það til að vanda til verka. Í þingskapalögum er við það miðað að engir þingfundir fari fram í júlímánuði ár hvert.

Stjórnarandstaðan beitir blekkingum með stöðugu tali sínu um að um skattahækkun sé að ræða með hækkuðu veiðileyfagjaldi. Þeir vita eins og aðrir að veiðileyfagjald er frádráttarbær rekstrarkostnaður sjávarútvegsfyrirtækjanna og alls ekki skattur. Jens Garðar Helgason, þingmaður Samherja, hefur staglast á þessu bæði í þinginu og einnig í viðtölum við fjölmiðla. Vitaskuld veit hann manna best að veiðileyfagjald er ekkert annað er frádráttarbær rekstrarkostnaður útgerðarinnar enda starfaði hann í dótturfyrirtæki Samherja og var formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi um tíma. En hann velur að beita blekkingum eins og fleiri félagar hans í stjórnarandstöðunni.

Orðið á götunni er að stjórnarandstaðan taki athugasemdalaust við beinum fyrirmælum og leiðbeiningum frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. Staðfest er að síðast liðinn mánudag hafi Birta Karen Tryggvadóttir, hagfræðingur SFS, setið með þingliði Sjálfstæðisflokksins í kaffistofu Alþingis í Skála og stafað ofan í þingmennina hvernig þeir ættu að bregðast við og fjalla um veiðleyfagjöldin en samtökin hafa verið óþreytandi við að dreifa falsupplýsingum um afkomu og greiðslur sjávarútvegsins, þar á meðal upplognar tölur um svonefnt skattspor greinarinnar. Þau svífast einskis. Þingmenn sem hafa lengi setið á þingi minnast ekki eins grímulauss áróðurs hagsmunasamtaka innan veggja þingsins eins og í þessu tilviki. Ekki minnast þeir heldur þess að áður hafi kjörnir þingmenn gleypt við slíkum áróðri af jafn jafn góðri lyst og stjórnarandstaðan nú.

Orðið á götunni er að nýleg skoðanakönnun Maskínu hefði átt að sýna stjórnarandstöðunni og samtökum sægreifa að þeir eru á rangri leið í áróðri sínum. Ósmekklegar auglýsingar samtakanna virka öfugt á fólk og eru þeim hreint ekki til framdráttar. Þá mælist stuðningur við málið um 70 prósent og fer vaxandi. Ríkisstjórnin hefur þjóðina með sér í þessu máli. Því meira sem stjórnarandstaðan hamast með aumkunarverðum hætti því meiri verður stuðningur þjóðarinnar við áform ríkisstjórnarinnar.

Búist var við því að málflutningur Sjálfstæðisflokksins yrði ábyrgari en raun ber vitni í þessu máli og að nýr formaður reyndi að lyfta flokknum á örlítið hærra plan. Það hefur ekki gerst. Miðflokkurinn er samur við sig. Þar hafa tveir þingmenn haft sig mest í frammi og haldið uppi stöðugum derringi. Þar er um að ræða Bergþór Ólason sem ætti sennilega að hafa vit á að vekja ekki of mikla athygli á sér því að fólk er ekki búið að gleyma framgöngu hans og skefjalausum dónaskap í máli sem kennt er við Klaustur. Klausturdónarnir eru flestir í Miðflokknum. Einnig hefur Sigríður Andersen gert sig breiða bæði í þessu máli og einnig málum sem varða dómsmálaráðuneytið. Sigríði var vikið úr stöðu dómsmálaráðherra árið 2019 eftir að hafa orðið uppvís að vandræðalegu klúðri. Vinstri græn kröfðust brottvikningar hennar úr vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur og höfðu ella í hótunum. Bjarni Benediktsson, þáverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, var ekki lengi að taka ákvörðun um að fórna Sigríði og var hún rekin á dyr. Þetta er ekki gleymt.

Orðið á götunni er að þeir sem eru með allt niður um sig ættu að hafa sig hæga og spara sér allan derring.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Diljá Mist Einarsdóttir: Ég er Evrópusinni – Evrópa loksins að vakna til lífsins

Diljá Mist Einarsdóttir: Ég er Evrópusinni – Evrópa loksins að vakna til lífsins
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Ný Gallupkönnun er áfall fyrir stjórnarandstöðuna – Samfylkingin á flugi

Orðið á götunni: Ný Gallupkönnun er áfall fyrir stjórnarandstöðuna – Samfylkingin á flugi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Diljá Mist Einarsdóttir: Umræðan um sjávarútveg stjórnast af tilfinningum – verðum að vanda okkur, líka auglýsingarnar

Diljá Mist Einarsdóttir: Umræðan um sjávarútveg stjórnast af tilfinningum – verðum að vanda okkur, líka auglýsingarnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Áslaug Arna tekur sér leyfi á þingi til að elta langþráðan draum

Áslaug Arna tekur sér leyfi á þingi til að elta langþráðan draum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Meira um grátskýrslu forstjóra Síldarvinnslunnar – Samherji á fyrirtækið en ekki lífeyrissjóðirnir

Orðið á götunni: Meira um grátskýrslu forstjóra Síldarvinnslunnar – Samherji á fyrirtækið en ekki lífeyrissjóðirnir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbrúnu ofbýður framkoma Vilhjálms – „Aldrei man ég eftir svo grófu dæmi“

Kolbrúnu ofbýður framkoma Vilhjálms – „Aldrei man ég eftir svo grófu dæmi“