Ný ríkisstjórn Samfylkingar Viðreisnar og Flokks fólksins hefur setið í rúma fjóra mánuði. Breytingarnar fara ekki fram hjá neinum.
Ábyrg tök á ríkisfjármálum eru að vísu ekki með öllu sársaukalaus. En byrðunum er dreift með réttlátari hætti en áður.
Ný skref í velferðarmálum hafa verið ákveðin í samræmi við þau þjóðhagslegu markmið sem stefnt er að.
Nú er samstaða um framsækna og ábyrga utanríkisstefnu. Í fyrri ríkisstjórn hvíldi sú pólitík á utanríkisráðherra einum.
Fyrri ríkisstjórn skildi eftir tómarúm. Ekki vegna hugmyndaskorts heldur vegna innri ósamstöðu. Það tómarúm hefur nú verið fyllt.
Þau afgerandi umskipti sem ný ríkisstjórn hefur þegar markað koma ekki á óvart. Þau voru boðuð fyrir kosningar.
Fyrstu mánuðir flokkanna þriggja i stjórnarandstöðu koma hins vegar í opna skjöldu.
Engu er líkara en þingmenn þeirra upplifi sjálfa sig í öngstræti. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að þingmenn tveggja þeirra hafa enga reynslu í stjórnarandstöðu.
Á síðustu kjörtímabilum sýndu Píratar að þeir kunnu öðrum fremur þá list að teygja lopann í umræðum og efna til þrætubókar um aukaatriði.
Þegar þeir féllu út af þingi bjuggust flestir við að tómarúm myndaðist í þinginu að þessu leyti. En það fór á annan veg. Forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa varið mestri orku sinni og nær öllu hugviti í að fylla einmitt þetta tómarúm, sem Píratar skildu eftir.
Segja má að þeim hafi tekist það fullkomlega.
Það er ekki unnt að ætlast til þess að flokkar í stjórnarandstöðu sameinist um pólitík gegn stjórnarstefnunni.
Í stjórnarandstöðu gefst flokkum þvert á móti tækifæri til þess að draga fram og sýna eigin stefnu.
Á þessum fyrsta þriðjungi ársins hefur engum stjórnarandstöðuflokkanna tekist að kynna trúverðuga pólitík, sem leyst gæti sameiginlega stefnu stjórnarflokkanna af hólmi.
Framsókn var málefnalega vængbrotin í kosningabaráttunni. Það tekur tíma að finna fjölina á ný.
Miðflokkurinn hefur frá upphafi gælt við popúlisma og er enn hálfvolgur í þeim efnum.
Vandi Sjálfstæðisflokksins er sá að fylgi hans byggir fyrst og fremst á gamalli ímynd, sem þingflokkurinn á í vandræðum með að endurspegla í þingsalnum.
Í stórum dráttum má segja að ríkisstjórnarflokkarnir séu að framkvæma þá breiðu, ábyrgu og víðsýnu hugmyndafræði, sem Sjálfstæðisflokkurinn stóð áður fyrir, einna best á Viðreisnarárunum með Alþýðuflokknum og síðan á tíunda áratugnum fyrst með Alþýðuflokknum og svo með Framsókn.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra er að snúa við blaðinu í ríkisfjármálum með mjög ábyrgum og markvissum hætti. Það minnir óneitanlega á fjármálastjórn Viðreisnaráranna og tveggja ríkisstjórna á tíunda áratugnum.
Inga Sæland félagsmálaráðherra er að ná árangri með velferðarumbætur sem minna á afgerandi árangur Alþýðuflokksins í þeim efnum í byrjun Viðreisnartímans.
Örugg stjórnartök atvinnuvegaráðherra og orkuráðherra minna líka á hugmyndafræði atvinnufrelsis og orkuuppbyggingar Viðreisnaráranna. Dómsmálaráðherra virðist svo ná vel til almennings á sínu flókna og viðkvæma málefnasvið. Eins er menningar- nýsköpunar og háskólaráðherra að stíga áhugaverð ný skref.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra fylgir eftir stefnu forvera síns og tekur um leið frumkvæði að nýjum skrefum í alþjóðasamvinnu rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn sameinuðust um á sínum tíma.
Eins og vindar blása ræðst afkoma almennings og fyrirtækja öðru fremur af ábyrgri og framsækinni utanríkisstefnu á næstu árum. Ný skref eru óhjákvæmileg.
Á dögunum klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í afstöðu til bókunar 35. Það sýnir að ekki hefði verið unnt að mynda með honum ábyrga ríkisstjórn um framkvæmd EES samningsins.
Örugg ríkisstjórnarforysta Kristrúnar Frostadóttur minnir um sumt á fyrstu ár Davíðs Oddssonar í stjórnarráðinu.
Að öllu þessu virtu er ofur skiljanlegt að stjórnarandstaðan og alveg sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn eigi erfitt með að ná áttum. Það er snúið að vera í andstöðu við sína eigin gömlu hugmyndafræðilegu ímynd.
Þótt fyllt hafi verið upp í tómarúm Pírata er það eitt og sér ekki sterk málefnaleg undirstaða til framtíðar.