
Stjórnarandstaðan brást við því að ráðherra ætli sér að nýta lagaheimild sína til að auglýsa stöðu skólastjóra Borgarholtsskóla eins og honum hafi verið sýnt banatilræði. Formælingar einstakra stjórnarandstöðuþingmanna á Alþingi í gær voru með þeim hætti að þeir urðu sér til skammar og minntu helst á æðið sem rann á suma þeirra síðasta sumar þegar stjórnarandstaðan hélt uppi málþófi í fimm vikur án þess að það hefði önnur áhrif en að valda þeim sjálfum álitshnekki – jú og ýmis þjóðþrifamál fengu ekki afgreiðslu með afleiðingum fyrir þjóð og land.
Reynt hefur verið að gera Ársæl Guðmundsson að píslarvætti. Hann hefur sjálfur haft forystu um það og fengið nokkra þingmenn stjórnarandstöðunnar til að stíga í gildruna og einnig hafa sumir fjölmiðlar stokkið fram án þess að kynna sér málið að því er virðist. Það eru gildar ástæður fyrir því að skipað er í stöður af þessu tagi til fimm ára í senn og ekkert athugavert við að þær séu auglýstar að skipunartíma liðnum. Ársæll hefur uppskorið það eitt með upphlaupi sínu og bandamanna sinna að farið er að lýsa í bakgrunn ferils hans og þá kemur sitthvað á daginn sem gerir það að verkum að alvarlega fellur á þann geislabaug sem hann hefur reynt að skreyta sjálfan sig með.
Orðið á götunni er að hann hefði betur haldið sér á mottunni í stað þess að ýfa allt upp sem liggur fyrir úr fortíðinni. Þegar hann var skipaður í stöðu skólastjóra Borgarholtsskóla var freklega gengið fram hjá fólki sem var talið mun hæfara en Ársæll af valnefnd vegna ráðningarinnar. Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, lét skipa Ársæl í embættið þó að aðrir væru til þess hæfari að mati valnefndar sem meðal annars leiddi til þess að fulltrúi ráðuneytisins í nefndinni sagði af sér vegna ófaglegra vinnubragða Illuga og pólitískrar spillingar. Þetta mættu þeir menn hafa í huga sem nú stökkva fram og reyna að spinna spillingarmál úr því að starfið verði auglýst eins og fullkomlega heimilt og eðlilegt er.
Reynt hefur verið að gera Ingu Sæland, formann Flokks fólksins, tortryggilega vegna málsins. Hún hefur nú stigið fram og lýst því yfir að hún hafi ekki komið nærri ákvörðun menntamálaráðherra eins og hún hefur verið vænd um. Reynt er að blása upp ellefu mánaða gamalt símtal hennar við Ársæl þennan, sem hún hefur fyrir löngu beðist velvirðingar á enda hið ómerkilegasta mál – að öðru leyti en því að Ársæll valdi að koma frásögn af sínum skilningi þess símtals í fjölmiðla sem vitanlega var hreint trúnaðarbrot af hans hálfu. Inga Sæland hefur ekki erft það við hann en Ársæll reynir nú í reiðikasti sínu að halda því fram að um einhvers konar hefnd sé að ræða. Inga hefur engin afskipti haft af ákvörðun ráðherrans. Ársæll virðist hins vegar vera sérlega sjálfhverfur maður og heldur að ráðherrar hafi ekki annað við tíma sinn að gera en hugsa um hann. Það er mikill misskilningur.
Orðið á götunni er að Ársæll hafi sem skólameistari Borgarholtsskóla brugðist nemanda sem hann bar ábyrgð á. Hann rauf trúnað við Ingu Sæland og deildi tveggja manna samtali þeirra á kennarastofu Borgarholtsskóla og margt bendir til þess að hann hafi farið frjálslega með efni þess samtals. Passar það vel við lýsingar starfsmanna Iðnskólans í Hafnarfirði um að Ársæll sé maður sem sé margsaga. það er annað orð yfir lygara. Raunar virðist Stuðmannalagið „Bara ef það hentar mér“ eiga vel við Ársæl. Hann hefur verið víkingur breytinga á framhaldsskólakerfinu þegar það hefur hentað honum og hans starfsframa en ef það er ekki í hans persónulegu þágu, eins og fyrirhugaðar breytingar á framhaldsskólakerfinu nú, þá er hann á móti.
Ársæll hefur lýst yfir fullkominni andstöðu við fyrirhugaðar breytingar menntamálaráðherra á framhaldsskólanum. Hann segir reyndar að engin leið sé að átta sig á þeim tillögum og hvað þær þýði. Samt hefur hann fordæmt þær og lýst yfir fullkominni andstöðu. Hann er sem sagt á móti menntamálastefnu menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar. Er skrítið að menntamálaráðherra vilji fá annan mann í starfið?
Áður en Ársæll gengur lengra í ávirðingum sínum ætti hann að rifja upp aðdragandann að því þegar Illugi Gunnarsson, þá ráðherra, gekk fram hjá hæfara fólki til að koma honum í embætti skólastjóra Borgarholtsskóla. Sú ákvörðun ráðherra lyktaði illa af spillingu og þjösnaskap gagnvart fólki sem talið var betur að starfinu komið en Ársæll. Um þessa ákvörðun skrifaði Jónas heitinn Kristjánsson, ritstjóri DV, virtasti og mest lesni pistlahöfundur landsins:
„Allir skólanefndarmenn Borgarholtsskóla mæltu með sama manni sem skólastjóra. Fulltrúi menntamálaráðuneytisins sagði af sér, er ráðherra réð Ársæl Guðmundsson í staðinn á ófaglegum grundvelli. Ársæll er innanbúðar hjá Illuga Gunnarssyni og einn af höfundum hinnar illræmdu Hvítbókar Illuga. Skólanefndin fékk að heyra, að ekkert þýddi að mæla með þeim hæfasta, staðan væri eyrnamerkt Ársæli. Illugi þorði ekki sjálfur í skítverkin og fékk Ólöfu Nordal innanríkis til að taka það að sér. Það segir ekki lítið, að sjálfur fulltrúi ráðuneytisins segi af sér, þegar gamla, úldna Ísland valtar yfir allt og alla. Rekum bófana af þingi.“
Ársæll hefur talað við fjölmiðla um fyrirhugaða auglýsingu sem „kaldar kveðjur“ til sín þar sem um „ævistarfið“ hans sé að ræða. Það er ekki rétt frekar en margt annað sem frá honum hefur komið. Ársæll hefur víða starfað – ekki bara í Borgarholtsskóla. Hann var grunnskólakennari á Blönduósi, settur skólameistari í Fjölbrautaskóla Norðurlands og starfaði við fleiri skóla. Þá var hann hafnarstjóri og sveitarstjóri Skagafjarðar árin 2002 til 2006 á vegum meirihluta Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna. Síðar var hann yfir Iðnskóla Hafnarfjarðar, hætti þar til að leggja niður Iðnskóla Hafnarfjarðar og sameina Tækniskólanum við litla þökk samstarfsmanna í Iðnskólanum, og gegndi svo embættum í menntamálaráðuneytinu í tíð Illuga Gunnarssonar. Hann hefur því víða komið við og starf hans í Borgarholtsskóla hefur fráleitt verið „ævistarf“ hans. Auk þess er honum frjálst að sækja um starfið á næsta ári þegar það verður auglýst. Ársæll verður bara að skilja það að þetta embætti er ekki þinglýst eign hans, eins og ætla mætti af öllum fyrirganginum. Raunar má af ferli hans draga þá ályktun að allt þar til hann var skipaður skólameistari Borgarholtsskóla, gegn vilja valnefndar, hafi hann varla tollað í starfi neins staðar.
Orðið á götunni er að þeir þingmenn sem létu reiði og æsing hlaupa með sig í gönur í gærmorgun ættu að hugsa alvarlega sinn gang. Bullið í þeim er allt aðgengilegt í þingtíðindum og þeir ættu því að hugsa sig vel um áður en næsta reiðikast knýr dyra hjá þeim. Sumir þeirra sem tóku til máls eru fyrrverandi ráðherrar sem hafa ekki enn sætt sig við valdamissinn og tapa sér reglubundið í reiðiköstum. Einnig voru þarna á ferðinni nýir þingmenn sem hafa ekki enn þá náð utan um verkefnið sem þeir voru kjörnir til en gætu átt eftir að jafna sig.
Mál Ársæls Guðmundssonar er ósköp ómerkilegt þegar öllu er á botninn hvolft. Það nær því ekki einu sinni að teljast stormur í tebolli. Það telst mun frekar vera fellibylur í fingurbjörg.