
Orðið á götunni er að fyrsta starfsár ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur hafi gengið bærilega. Þrátt fyrir mikla tafaleiki og málþóf stjórnarandstöðunnar í ýmsum málum, ekki hvað síst í veiðigjaldamálinu, hafa mörg mikilvæg mál náðst í gegn. Ber þar kannski fyrst að nefna leiðréttingu veiðigjalda.
Orðið á götunni er að ríkisstjórninni hafi auðnast að fá samþykkt ýmis sjálfsögð mál, sem síðustu ríkisstjórn tókst ekki að ná í gegn. Hefur þó stjórnarandstaðan barist með kjafti og klóm gegn flestum málum, jafnvel málum sem runnin eru undan rifjum síðustu ríkisstjórnar. Má þar m.a. nefna kílómetragjaldið, sem löngu var tímabært að breyta fyrirkomulagi gjaldtöku af umferð hér á landi.
Hlutur ríkisins í Íslandsbanka var seldur á vordögum án eftirmála eða afsagna ráðherra. Síðustu ríkisstjórn tókst aldrei að selja hluti á bankanum án þess að úr yrðu hneykslismál og meira að segja hrökklaðist Bjarni Benediktsson úr fjármálaráðuneytinu fyrir sinn þátt í sölu bankans.
Nú, rétt fyrir hátíðar, tilkynnti svo Logi Einarsson, menningarmálaráðherra, aðgerðir varðandi fjölmiðla sem flestir virðast sáttir við. Hjó hann þar á hnút sem hafði reynst fyrri ríkisstjórn ofviða. Þrátt fyrir endalaust tal um stefnumörkun varðandi fjölmiðla og stöðu RÚV gagnvart einkareknum miðlum um margra ára skeið, gerðist nákvæmlega ekkert í þeim málum í tíð síðustu ríkisstjórnar. Lilja Alfreðsdóttir kom einfaldlega ekki nokkrum sköpuðum hlut í ver.
Nú hefur ríkisstjórnin setið í eitt ár og Logi Einarsson lagt fram skýra og afgerandi stefnu sem fer nærri því að tvöfalda stuðning til einkarekinna fjölmiðla og tekur stóran hluta hans af auglýsingatekjum RÚV. Einnig er svo búið um hnútana að tryggt er að ásókn RÚV í auglýsingar eru hömlur settar vegna þess að allar tekjur yfir ákveðnu hámarki munu renna óskiptar til stuðnings við einkarekna miðla.
Orðið á götunni er að vösk vinnubrögð Loga í þessu máli undirstriki vel muninn á þessari ríkisstjórn annars vegar og vinstri stjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kjósendur höfnuðu í fyrra hins vegar. Sú fyrri var ríkisstjórn aðgerðaleysis en núverandi ríkisstjórn ber nafn með rentu þegar hún er kölluð verkstjórn.