

Það gliðnar á milli Ameríkuflekans og þess evrópska sem aldrei fyrr, en ekki bara í landfræðilegum skilningi, eins og löngum fyrr og síðar, heldur í þeim pólitíska, svo hriktir í og skelfur um allar jarðir.
Bandaríkin hafa sagt skilið við lýðræði og mannréttindi. Forysturíki vestrænnar samvinnu hefur yfirgefið gildi sín og snúið sér að aðþrengdri einsleitni. Það langar að loka sig af í heimi hér og kasta lyklinum á haf út. Umskiptin eru alger. Og þau eru vitfirringsleg.
Ný og hrollvekjandi þjóðaröryggisstefna úr Vesturheimi hótar því öðru fremur að Bandaríkin eigi ekki lengur samleið með Evrópu í öryggismálum. Þar eru meginskilin komin. Sjálf flekaskilin. Og raunar einhver þau sögulegustu tíðindi sem litið hafa heimsins ljós í stjórnmálasögu síðustu aldar og þeirrar nýju, sem nú hefur safnað fjórðungi tíma síns.
Einræðisríki Ameríku er í uppsiglingu. Stjórnmálaskýrendur beggja vegna Atlantsála keppast við að leiða líkur að því að bandaríska breytingin sé komin til að vera, enda eru uppi grunsemdir um að núverandi valdhaldi í Washington ætli sér að halda völdum að afloknu yfirstandandi kjörtímabili. Hann og hans sturlaða hugsun sé komin til að vera í vesturheimskri pólitík. Ekki verði aftur snúið.
Og þankinn er þessi: Menning okkar hefur mengast! Hana þarf að hreinsa af útlenskri óværu! Ella fer fyrir okkur Ameríkumönnum eins og Evrópu sem hefur hleypt óhóflegum fjölda óhæfra kynþátta inn í álfuna, sem mun lina hana og leggja að velli!
„Það er lýsandi fyrir stöðu mála að dönsk stjórnvöld hafa í fyrsta skipti lýst opinberlega yfir áhyggjum af öryggi landsins gagnvart Bandaríkjunum.“
En tölum hreint út: Bandaríki þessara þjóðernisöfga hafa tekið af skarið á efsta valdastóli sínum; þau taki ekki lengur þátt í fjölþjóðasamfélaginu, enda telji þarlenskir það stórskaðlegt fyrir land og lýð að þynna út mikilvirkasta mannkynið!
Og talar hér leiðtogi langsamlega blönduðustu þjóðar heimskringlunnar, sem sakir þeirrar kynngimögnuðu mixtúru hefur náð hvað lengst í lífskjörum og ríkidæmi í sögu mannkyns.
En hvað um það.
Bandaríkin eru hrædd. Og ekki bara við sjálf sig heldur alla aðra. En þannig hverfur maður hvað harðast inn í sjálfan sig. Og álítur alla aðra varga í véum, ef ekki vitleysinga.
Fyrir Evrópu – og raunar Kanada í sama mæli – merkir þetta að standa fastar en nokkru sinni á eigin fótum, bæði efnahagslega og hernaðarlega. Atlantshafsbandalagið nær ekki lengur suður fyrir Vötnin miklu. Fyrir Ísland er raunin flóknari, því hérlensk stjórnvöld hafa í áratugi útvistað öllum vörnum landsins, annars vegar til Bandaríkjanna í gegnum varnarsamninginn og hins vegar með aðildinni að Nató. Á aðra þessara stoða er ekki lengur hægt að treysta. Bandaríkin hafa nefnilega afsalað sér hlutverki sínu sem löggæsluvald heimsins.
Það er lýsandi fyrir stöðu mála að dönsk stjórnvöld hafa í fyrsta skipti lýst opinberlega yfir áhyggjum af öryggi landsins gagnvart Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu leyniþjónustu danska hersins. Í henni er varað við því að bandarísk stjórnvöld beiti efnahagslegri valdbeitingu til að ná fram vilja sínum, meðal annars með hótunum um háa tolla. Þau útiloki heldur ekki að beita herafla, jafnvel gegn samherjum sínum.
Þetta mat er hluti stærri greiningar dönsku leyniþjónustunnar sem felst í því að stórveldi láti í auknum mæli eigin hagsmuni ráða og séu tilbúin að beita hörku til að ná fram markmiðum sínum.
Og nú er það líka Íslendinga að hugsa sinn gang.