fbpx
Fimmtudagur 06.nóvember 2025
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um breytingar og hitt sem ekki breytist

Eyjan
Fimmtudaginn 6. nóvember 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvernig líst þér á pólitíkina? Þannig spurði einn af vinum mínum til áratuga á dögunum.

Ég svaraði því til að mér litist harla vel á hana. Aðallega vegna þess að nýja ríkisstjórnin væri frjálslynd og hlutfallið milli orða og athafna hefði færst nær jafnvægi.

Ég tiltók þessi dæmi:

Orð og athafnir

Nýi orkuráðherrann hefði rofið kyrrstöðuna í virkjanamálum. Forverar hans úr stærsta stjórnarandstöðuflokknum hefðu í áratug talað um virkjanir en kosið að fórna markmiðinu fyrir samstarf við VG.

Nýi fjármálaráðherrann væri grandvar. Hann hefði innleitt stöðugleikareglu, sem væri að byrja að skila árangri. Forveri hans úr stærsta stjórnarandstöðuflokknum hefði talað um ábyrg ríkisfjármál í áratug en skilið eftir fjármálaáætlun með halla um fyrirsjáanlega framtíð og innviðaskuld að auki til að viðhalda samstarfi við VG.

Nýi dómsmálaráðherrann væri þegar farinn að framkvæma aðhaldssama innflytjendastefnu, sem sjö forverar hans úr stærsta stjórnarandstöðuflokknum hefðu talað um í heilan áratug til þess eins að skilja framkvæmd góðra orða eftir fyrir nýtt athafnasamt blóð. Allt fyrir VG.

Svo væru allir nýju ráðherrarnir að skrapa gullhúðina af reglugerðunum eftir gömlu ráðherrana.

Það sem er óbreytt

En það hefur ekki allt breyst með nýju ríkisstjórninni.

Sú ákvörðun bankanna að hætta að veita verðtryggð lán beinir kastljósinu að því sem engin ríkistjórn ræður við:

Nafnvexti er unnt að lækka með hjaðnandi verðbólgu. En raunvextir hafa verið og munu verða þrefalt hærri en í samkeppnislöndunum.

Það eru raunvextirnir sem bíta heimilin og skekkja samkeppnisstöðuna. Þeir þurfa að lækka.

Þessu gat gamla stjórnin einfaldlega ekki breytt. Það ber að virða. Hitt var verra að hún vildi ekki ræða þá staðreynd.

Að segja satt

Til þess að halda trúnaði og viðhalda trausti verða ríkisstjórnir umfram allt annað að segja kjósendum satt.

Þannig verður það líka prófsteinn á nýju ríkisstjórnina hvernig hún ræðir þær takmarkanir, sem gjaldmiðillinn setur hagstjórninni.

Í því ljósi er traustvekjandi að sjá Dag B. Eggertsson og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur ræða þessa hagstjórnarlegu blindgötu tæpitungulaust.

Þrenns konar hlutverk

Gjaldmiðill er milliliður í viðskiptum. Krónan er ekki gjaldgeng í viðskiptum milli landa og hún er líka ónothæf í sumum viðskiptum innanlands eins og kaupum á nýjum bílum.

Þá þarf gjaldmiðill að geta geymt verðmæti. Því hlutverki veldur krónan ekki. Þess vegna var verðtryggða krónan sett upp.

Loks á gjaldmiðill að vera mælikvarði á efnahagslegan árangur. Ástæðan fyrir því að fyrirtæki gera upp í erlendri mynt er fyrst og fremst sú að krónan er er ekki raunhæfur mælikvarði.

Afleiðingarnar eru margs konar.

Til þess að halda uppi stöðugu gengi krónunnar þurfa raunvextir að vera þrefalt hærri en í samkeppnislöndunum.

Í sama tilgangi þarf að binda lífeyrissparnað, sem jafngildir ríflega heilli þjóðarframleiðslu, í fjármagnshöft. Þau skekkja verðmyndun í hagkerfinu og valda eignabólum, bæði á mörkuðum með húsnæði og hlutabréf. Ofan í kaupin auka þau áhættu lífeyrisþega.

Í sömu klípu

Hér erum við komin að kjarna málsins.

Nýja stjórnin hefur þegar sýnt að hún er frjálslyndari en sú gamla, stendur betur vörð um velferðina og er framsæknari í alþjóðlegu samstarfi í þágu atvinnulífsins og þjóðaröryggis.

Eftir stendur að hún nær ekki markmiðum um samkeppnishæfni og jafnar leikreglur fyrir alla á fjármálamarkaði fremur en gamla stjórnin. Og hún getur ekki fremur en sú gamla losað okkur úr fjötrum mestu fjármagnshafta á Vesturlöndum.

Að þessu leyti er nýja stjórnin í sömu klípu og sú gamla.

Það sem skilur á milli

Það sem skilur á milli er þetta:

Miðflokkurinn og gömlu stjórnarflokkarnir vilja einfaldlega viðhalda þeim efnahagslegu takmörkunum, sem ósamkeppnishæfur gjaldmiðill setur hagstjórninni.

Talsmenn nýju stjórnarflokkanna eru hins vegar að byrja að ræða þennan vanda opinskátt við kjósendur.

Nýja stjórnin hefur ákveðið að kjósendur fái tækifæri í þjóðaratkvæðagreiðslunni til þess velja á milli breytinga og óbreytts ástands. Stjórnarandstöðuflokkarnir ætla að standa í vegi fyrir að þjóðin fái þetta vald.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Laxness á náttborðinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig

Nína Richter skrifar: Þegar Hailey Bieber seldi mér sjálfa mig
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins

Óttar Guðmundsson skrifar: Kormákseðli þjóðskáldsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf

Svarthöfði skrifar: Hildur mætir ólesin í munnlegt próf
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríki Norður Kóreu

Sigmundur Ernir skrifar: Bandaríki Norður Kóreu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Næturgestur í Alþingishúsinu

Óttar Guðmundsson skrifar: Næturgestur í Alþingishúsinu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?

Svarthöfði skrifar: Tilvistarkreppa Sjálfstæðismanna – hver er munurinn á Reykjavík og Kópavogi?