fbpx
Miðvikudagur 19.nóvember 2025
Eyjan

Verndartollar ESB: Tollarnir beinast ekki gegn Íslandi og Noregi – Kína á Elkem

Ólafur Arnarson
Miðvikudaginn 19. nóvember 2025 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Svo sem við mátti búast hafa Sjálfstæðismenn og Miðflokksmenn rokið upp til handa og fóta og vilja nú að allt samstarf Íslands við ESB verði sett á ís vegna þess að Ísland og Noregur eru ekki undanþegin verndartollum sambandsins á kísilmálmi. Jafnframt er fullyrt að tollarnir á Ísland og Noreg séu brot á EES-samningnum.

Vissulega er það túlkunaratriði hvort tollarnir brjóta gegn EES samningnum en engu að síður er það staðreynd að í þeim samningi er ákvæði sem heimilar slíka tolla undir sérstökum kringumstæðum. Þegar horft er til aðstæðna í viðskiptaumhverfi heimsins nú um mundir verður að telja líklegt að tollarnir brjóti ekki gegn EES-samningnum. Ekki má heldur gleyma þeirri kaldhæðnu staðreynd að það voru einmitt Ísland og Noregur sem þröngvuðu þessu ákvæði inn í EES-samninginn gegn vilja ESB.

Nokkrum grundvallarspurningum um þessa verndartolla hefur hins vegar ekki verið svarað. Spurningarnar hafa varla verið bornar fram. Á hvern er verið að setja þessa tolla? Hvernig stendur á því að Ísland og Noregur fá ekki undanþágu frá þeim? Er tollunum sérstaklega beint gegn Íslandi og Noregi, sem framleiða 47% af þeim kísilmálmi sem fluttur er inn til ESB?

Í stuttu máli má segja að tollunum er ætlað að vernda kísilmálmiðnaðinn innan ESB gegn óeðlilegri samkeppni. Þeim er ekki sérstaklega beint gegn Íslandi og Noregi. Þeim er beint gegn Kínverjum og það eru einmitt Kínverjar sem eiga meirihlutann í Elkem, stærsta kísilmálmframleiðanda Noregs og þar með Elkem á Íslandi, sem eftir lokun PCC á Bakka er eini kísilmálmframleiðandinn á Íslandi.

Ísland og Noregur gjalda þess að kísilmálmiðnaðurinn í þessum löndum er í eigu Kínverja. Ísland og Noregur gjalda þess einnig að löndin eru ekki innan tollabandalags ESB þótt þau séu hluti af Evrópska efnahagssvæðinu.

Það mun væntanlega koma í ljós hvort túlkun ESB á því hvort beita megi þessum tollum gegn EES-ríkjum sé rétt eða röng. Þetta mál sýnir hins vegar í hnotskurn hversu breyttur heimurinn er. Stórveldi takast á og beita tollum sem sínu vopni – ýmist til árása eða varnar. ESB heldur utan um aðildarríki sín og gerir það vel. Ísland er ekki aðildarríki að ESB. Ísland er ekki í tollabandalagi við ESB. Þess vegna lendir Ísland utan tollamúra Evrópusambandsins.

Ísland nýtur þess hins vegar að vera í nánu samstarfi við ESB í gegnum EES-samninginn. Tollavernd fyrir kísilmálmiðnaðinn í ESB er í raun ekki svo ýkja þyngjandi fyrir Ísland og Noreg. þrír fjórðu hlutar útflutnings okkar til ESB verða án tolla og hin 25% munu einungis bera tolla sem samsvara muninum á útflutningsverðinu og viðmiðunarverði ESB. Sé það rétt, sem haldið hefur verið fram, að kísilmálmur frá Íslandi sé ekki seldur á niðursettu verði til ESB má ætla að áhrifin verði engin.

Einnig er vert að horfa til þess að líklega er eina ástæðan fyrir því að Ísland og Noregur eru ekki undanþegin verndartollum á kísilmálm sú að Kínverjar eiga meirihlutann í þeirri framleiðslu í báðum löndum. Tollunum er beint gegn Kínverjum. Því er engin ástæða til að óttast á þessu stigi að fleiri útflutningsgreinar muni lenda í hinu sama.

En við skulum ekki gleyma því að fáa hefði grunað fyrir einu ári eða svo að stórveldastríð yrði skollið á í alþjóðaviðskiptum á árinu 2025. Við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. En eitt vitum við. Við verðum að skipa okkur í lið með vinaþjóðum sem virða þau grunngildi sem okkur skipta máli. Við Íslendingar, sem smáþjóð, eigum allt undir því að lög og reglur gildi en ekki aflsmunur, þegar kemur að samskiptum ríkja. Undanþágan sem við náðum að þvinga inn í EES-samninginn sparkar nú í rassinn á okkur sjálfum. Mátulegt á okkur, myndi einhver segja. En þessi undanþága er hluti af samningnum. Verndartollarnir á okkur eru ekki lögbrot heldur okkar eigið sjálfskaparvíti.

Verndartollarnir sýna okkur hins vegar svart á hvítu að hagsmunum okkar er best borgið sem fullgildir aðilar að ESB. Ef við erum inni stendur ESB vörð um okkur. Í þessu samhengi má rifja upp að ESB hleypur undir bagga með aðildarþjóðum þegar áföll á borð við náttúruhamfarir verða. ESB bætti Ítölum tjón vegna regns og aurskriða á árinu 2023, sem dæmi. Við Íslendingar bárum einir kostnaðinn af því að rýma Grindavík og kaupa upp húsin þar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi

Sigmundur Ernir skrifar: Jöfnuðurinn einn tryggir lýðræði og mannréttindi
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Guðni Ómarsson: Gjaldmiðillinn stórt atriði sem stendur í vegi fyrir lægri langtímavöxtum – tvær hliðar á þeim pening

Jón Guðni Ómarsson: Gjaldmiðillinn stórt atriði sem stendur í vegi fyrir lægri langtímavöxtum – tvær hliðar á þeim pening
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli

Svarthöfði skrifar: Uppblásinn hoppukastali Sjálfstæðismanna til sölu – nafnið öfugmæli
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Guðni Ómarsson: Lánaformið á Íslandi keimlíkt því sem er í Noregi og Svíþjóð

Jón Guðni Ómarsson: Lánaformið á Íslandi keimlíkt því sem er í Noregi og Svíþjóð
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Rísum upp úr lágkúrunni

Björn Jón skrifar: Rísum upp úr lágkúrunni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Dagur B. Eggertsson: Krónuvextirnir eru þrefaldir á við evruvextina – hrikaleg byrði á íslensk heimili

Dagur B. Eggertsson: Krónuvextirnir eru þrefaldir á við evruvextina – hrikaleg byrði á íslensk heimili