Það kippir sér enginn upp við hugmyndir um sameiningu Menntaskólans í Reykjavík og Tækniskólans á Skólavörðuholti, sem einu sinni var kallaður Iðnskólinn í sömu borg. Ástæðan er ósköp einföld. Það hvarflar ekki að nokkurri sálu að fara fram með viðlíka vangaveltur.
Það þykir aftur á móti kerfislega upplagt að leggja til sameiningu Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans í sama bæ. Það þykir beinlínis ráðdeild. Og gildir einu þótt sá fyrrnefndi megi heita ríkulegur partur af langri og merkilegri skólasögu landsmanna, og sá síðarnefndi hafi skapað sér slíka sérstöðu og sjálfstæði í vinnubrögðum að hann eigi eiginlega ekkert skylt við hefðbundin bóknámsskóla. En sameinum þá bara samt! Og köllum það ekki hagræðingu og sparnað heldur framfaraskref og nýtt upphaf, jafnvel stórsókn í skólamálum, hvað sem það nú merkir.
Af sama meiði er sú hugmyndafræði að Háskólinn á Akureyri leggi bara nafn sitt niður si sona, af því að hann skuli sameinast Háskólanum á Bifröst, sem er raunar ekki lengur á þeim stað, heldur er hann fjarskóli í Reykjavík. Þær sameiningarviðræður eru raunar farnar út um þúfur, af óttanum einum saman að sú besta byggðaðgerð sem sögur fara af, stofnun Háskólans á Akureyri fyrir bráðum fjörutíu árum, tapi gildi sínu, gæðum og inntaki. En gefum okkur þá að Bifrastarskólinn verði hluti af Háskóla Íslands, sem er ekki langsóttara en svo að starfsmenn hans eru að meginhluta búsettir í borginni. Kæmi þá til greina að Háskóla Íslands yrði fundið nýtt nafn?
Nei. Það kæmi aldrei til greina. Háskóli Íslands mun heita því sama nafni um aldur og ævi, sama hvað hann mun sameinast mörgum öðrum æðri menntastofnunum.
„Okkur Íslendingum hefur mistekist í viðspyrnu samfélaganna úti á landi. Afleiðingin mun verða hræðileg fyrir ásýnd landsins á komandi árum og áratugum.“
En það er þetta með sérfræðingana að sunnan. Þeir koma nefnilega að sunnan. Og skulu bera heitið embættismenn sem mæta til vinnu sinnar í Reykjavík, ekki síst á staðbundnum svæðum í kringum Kvosina í höfuðborg landsmanna.
Það er hlutverk þeirra að skila skýrslum. Og það er meginerindi þeirra í daglegu amstri að koma fram með tillögur af allra handa tagi. En fjalli þær um hagræðingu og sparnað er segin saga að hugur sömu ríkisstarfsmannanna leitar út fyrir Elliðaár. Og þeim til vorkunnar er það mannlegt. Það er þægilegra að skera niður sem lengst frá sér, því þá eru svo gott sem engar líkur á því að kontóristinn finni fyrir því á eigin skinni. Það er meira segja svo til öruggt að hann þurfi aldrei að horfast í augu við þann hagrædda sem hér um ræðir. Og gott ef það er ekki tryggt sömuleiðis að kansellíið þurfi aldrei nokkurn tíma að taka í höndina á þeim niðurskorna þegar kemur að kveðjustundinni.
Þess vegna er þýðingadeild hins opinbera á Seyðisfirði að fara veg allrar veraldar. Henni var komið á fót á sínum tíma til að sanna tilverurétt starfa án staðsetningar. En hversu þægilegt hefur ekki einmitt verið að krukka í hana í tímans rás, breyta föstum störfum í verktöku sem hverfa smám saman úr bænum?
Það er enginn að pæla í því í Reykjavík. Þar er enginn embættismaður með böggum hildar vegna örlaga þessa vinnustaðar úti á landi.
Fyrir Seyðisfjörð er reiðarslagið aftur á móti algert. Hópur vel menntaðs fólks er horfinn úr bænum, ásamt mökum sínum sem flestir hverjir eru á álíka menntunarstigi, og þá eru börnin ónefnd sem eru fjörefnið í hverju fámennu byggðarlagi.
Okkur Íslendingum hefur mistekist í viðspyrnu samfélaganna úti á landi. Afleiðingin mun verða hræðileg fyrir ásýnd landsins á komandi árum og áratugum. Spár gera ráð fyrir því að allt upp undir níutíu prósent landsmanna muni búa á milli Hvítánna á suðvestanverðu landinu um miðja þessa öld.
Þá munu borgarbúar keyra um landið með hjólhýsin sín í eftirdragi og spyrja hvað hafi orðið um allt heimafólkið. Og þeir munu mjög líklega skammast sín.