fbpx
Mánudagur 27.október 2025
Eyjan

Nýir lánaskilmálar í kjölfar hæstaréttardóms stórkostlegt tækifæri fyrir Seðlabankann

Ólafur Arnarson
Mánudaginn 27. október 2025 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í breyttum lánaskilmálum Landsbankans, sem kynntir voru í síðustu viku í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamálinu svonefnda felst að mjög verulega er dregið úr vægi verðtryggingar og hún eingöngu í boði fyrir fyrstu kaupendur. Þau lán verða að hámarki til 20 ára sem aftur hefur í för með sér að greiðslubyrði eykst svo um munar.

Þegar þetta er ritað hafa aðrir bankar ekki kynnt nýja lánaskilmála en vænta má þess að þeir verði nokkuð á sömu lund og nýir skilmálar Landsbankans.

Fasteignasalar og fleiri hafa lýst alvarlegum áhyggjum af því að þyngri greiðslubyrði muni kæla mjög fasteignamarkaðinn og hafa keðjuverkandi áhrif í þá veru að draga úr framboði á nýjum íbúðum. Verktakar muni halda að sér höndum og fyrir vikið geti ástandið á íbúðamarkaði orðið mjög alvarlegt þegar fram líða stundir.

Hægt er að taka undir þessar áhyggjur að óbreyttu. Ef ekkert verður að gert er mjög líklegt að sviðsmyndin verði ófögur. En vitaskuld væri það glapræði ef ekkert verður að gert.

Hér á Íslandi er vaxtastig mun hærra en í nágrannalöndum okkar. Krónan er örsmár gjaldmiðill sem hvergi er tekinn gildur nema hér á landi og líkist að því leyti Disneydollurum, sem eru gjaldgengir í skemmtigörðum Disney en hvergi annars staðar, eða spilapeningum í spilavíti sem eru verðlausir utan þess. Af þessu sökum er krónan viðkvæmur gjaldmiðill sem sveiflast mikið upp og niður, íslensku atvinnulífi og heimilum til mikils ama. Vegna þessara miklu sveiflna þarf Seðlabanki Íslands að jafnaði að halda uppi hærra vaxtastigi en aðrir Seðlabankar.

Ofan á þetta bætist verðtryggingin sem sætt hefur stigvaxandi gagnrýni á undanförnum árum, enda er eðli hennar óeðli sem flytur áhættu af sveiflum krónunnar og verðbólgu, sem gjarnan er af völdum mistaka í hagstjórn, á herðar lántakenda, fyrirtækja og heimila, en tryggir hag lánastofnana og fjármagnseigenda. Eðlilegt er að áhættu sé skipt milli lántakenda og lánveitenda en svo hefur ekki verið hér á landi.

Verðtryggingin hefur líka þann ókost að hún dregur úr virkni peningastefnu Seðlabankans. Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, benti nýlega á þversögnina sem felst í því að þegar Seðlabankinn hækkar vexti þannig að nafnvextir óverðtryggðra lána fara upp fyrir sársaukamörk er hægt að skipta yfir í verðtryggð lán og lækka greiðslubyrði niður fyrir það sem var á óverðtryggðu láni áður en vaxtahækkun hófst. Í stað þess að vaxtahækkun dragi úr kaup- og fjárfestingagetu fólks og slái þannig á spennu getur hún orðið til þess að auka kaupmáttinn og stuðla að þenslu.

Í gegnum tíðina hefur þetta leitt ekki aðeins til þess að vextir eru hærri hér en annars staðar heldur einnig þess að Seðlabankinn hefur metið það svo að allar breytingar á vöxtum þurfi að vera meiri en ella.

Nú virðist Landsbankinn að mestu hafa slegið verðtryggð lán til einstaklinga út af borðinu. Í núverandi hávaxtaumhverfi geta afleiðingarnar orðið alvarlegar og valdið neyðarástandi á fasteignamarkaði sem myndi draga dilk á eftir sér í gegnum allt hagkerfið.

En í þessari stöðu felast líka stór tækifæri. Þegar verðtryggingin er nánast horfin verður peningastefnunefnd Seðlabanka íslands að taka tillit til þess að peningakerfið hér á landi hefur breyst. Í stað þess að við séum í raun með þrjá gjaldmiðla (óverðtryggða krónu, verðtryggða krónu og erlendar myntir sem 40 prósent íslensks atvinnulífs notar) yrðum við með tvo. Óverðtryggða krónu og svo erlendu myntirnar sem stórfyrirtækin nota.

Þá þarf Seðlabankinn ekki lengur að miða vaxtaákvarðanir sínar við það að þar sem þær hafi einungis bein áhrif á um helming markaðarins þurfi vextir að vera hærri en ella og breytast í stærri skrefum, aðallega þegar verið er að hækka þá.

Það er beinlínis hlutverk Seðlabankans að bregðast við svona breytingum. Honum ber að afstýra því að hér verði alvarleg kreppa vegna hárra vaxta. Almenningur mun ekki geta ráðið við greiðslubyrðina af nýjum lánum verði vöxtum áfram haldið svo háum sem nú er. Við þetta bætist að kulnunin í hagkerfinu er meiri og skarpari en gert hefur verið ráð fyrir m.a. vegna gjaldþrots Play og rekstrarstöðvunar álvers Norðuráls að tveimur þriðju hlutum. Seðlabankinn hlýtur því að lækka vexti myndarlega á komandi vikum og mánuðum.

Ef rétt verður brugðist við verður vonandi hægt að líta á dóm Hæstaréttar í vaxtamálinu sem atvikið sem gerði okkur kleift að lækka vaxtastig í landinu og gera fjármálakerfið gegnsærra og eðlilegra en það hefur verið frá 1979. Fært okkur nær því að vera eins og annað fólk.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Enn bullar Binni blanki – verður að líta í eigin barm

Orðið á götunni: Enn bullar Binni blanki – verður að líta í eigin barm
Eyjan
Fyrir 1 viku

Benedikt Gíslason: Gott tækifæri til að losa heimilin við verðtrygginguna

Benedikt Gíslason: Gott tækifæri til að losa heimilin við verðtrygginguna
Eyjan
Fyrir 1 viku

Benedikt Gíslason: FBA og Kaupþing undir sama þaki – skrítin stemning í mötuneytinu

Benedikt Gíslason: FBA og Kaupþing undir sama þaki – skrítin stemning í mötuneytinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigríður nýr þingflokksformaður Miðflokksins

Sigríður nýr þingflokksformaður Miðflokksins
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Keppni hafin í lýðskrumi án atrennu – Miðflokkurinn tekur forystuna

Svarthöfði skrifar: Keppni hafin í lýðskrumi án atrennu – Miðflokkurinn tekur forystuna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli

Svarthöfði skrifar: Milljarðafyrirtækin barma sér vegna fjölmiðlastyrks sem ætti ekki að skipta þau neinu máli