Sigurður Hólmar Jóhannesson framkvæmdastjóri Góðvildar Styrktarsjóðs skrifar:
Inga Sæland vill núna stofna nýtt embætti sem á að heita embætti hagsmunafulltrúa aldraðra og á að hafa hagsmuni aldraðra í forgangi. Þetta hljómar eins og fallegt verkefni en þegar stjórnvöld vilja bæta ákveðinn málaflokk, eins og málefni fatlaðra eða aldraðra, virðist fyrsta viðbragðið alltaf vera að stofna nýtt embætti. Ný skrifstofa, nýr titill, nýtt fólk og fleiri fundir. En hvað gerist í raun?
Jú, starfsfólk fær laun, sama hvort það skilar árangri eða ekki. Báknið stækkar.
Starfsfólk í embætti getur setið dag eftir dag, mætt á fundi, skrifað skýrslur og tikkað í box. Starfsfólkið fær greitt hvort sem hlutirnir lagast eða ekki. Veikindadagar, orlof og lífeyrissjóður tryggja þeim stöðuna en ekki endilega árangurinn.
Þetta er öruggt kerfi fyrir starfsmennina en það hreyfist hægt og hefur oft litla tengingu við fólkið sem það á að þjóna.
Í samtökum er þetta allt öðruvísi. Þar fær enginn að sitja af sér tíma. Ef þú stendur þig ekki, þá ertu einfaldlega rekinn eða samtökin hætta að virka.
Það er enginn sem borgar þér fyrir að „reyna.“ Fólk vinnur af því það trúir á málstaðinn og vill sjá breytingu.
Þarna liggur munurinn: Embætti lifa á kerfinu en samtök lifa á eldmóði.
Embætti þurfa fjárveitingu til að halda sér gangandi en samtök þurfa árangur til að lifa af.
Og á meðan embættin halda fund um næstu stefnu, eru samtökin oft þegar búin að framkvæma hana.
Þess vegna ættum við að staldra við áður en við búum til næsta embætti.
Kannski væri einfaldara og skilvirkara að styrkja þau samtök sem þegar eru að vinna verkin. Að lyfta þeim upp, treysta þeim og gefa þeim raunverulegt vald.
Því stundum er lausnin ekki í fleiri skrifstofum heldur í því að treysta fólkinu sem veit hvað það er að gera.