Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands nálgast vaxtaákvarðanir sínar af skammsýni og úr rangri átt. Hún misgreinir orsakir verðbólgunnar og virðist ekki átta sig á því að hinir háu vextir hér og verðtryggt umhverfi eru í sjálfu sér orsök þrálátrar verðbólgu en vinna ekki gegn henni. Hætta er á að lendingin verði hörð en ekki mjúk.
Það kom fáum á óvart að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands skyldi halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í morgun. Greiningardeildir höfðu almennt spáð þessu og þrátt fyrir að skýr rök standi til þess að halda vaxtalækkunarferli áfram var nokkurn veginn vitað að hækkun verðbólgu í september myndi verða til þess að ekki yrði lækkun nú.
Peningastefnunefnd virðist vera komin í miklar ógöngur með vaxtastefnu sína. Þrátt fyrir að raunvaxtastiginu sé haldið beinlínis geigvænlega háu virðist það líð bíta á verðbólgunni. Aðferðafræði Seðlabankans virkar ekki.
Eitt af helstu vandamálum peningastefnunefndarinnar er að nálgun hennar að verkefninu er meingölluð. Það tekur vaxtaákvarðanir almennt 12-18 mánuði að hafa bein áhrif úti í efnahagslífinu. Óbein áhrif geta komið fram fyrr og er þar m.a. átt við áhrif vaxtanna á verðbólguvæntingar.
Í ljósi þessa er mjög mikilvægt að við vaxtaákvarðanir sé horft fram á veginn. Enn skortir mjög á að peningastefnunefndin horfi til þess sem líklegt er að verði eftir ár. Einblínt er á stöðuna í dag og á næstu vikum.
Þegar Seðlabankar heimsins hófu vaxtahækkanir er verð á ýmsum þáttum tók að hækka mjög í kjölfari Covid fengu þeir harða og réttmæta gagnrýni frá virtum hagfræðingum fyrir að misgreina orsakir verðbólgunnar, en verðbólgan stafaði öðru fremur af mikilli hrávöruhækkun og auknum kostnaði við aðfangakeðjur og því voru vaxtahækkanir í besta falli gagnslausar í baráttunni við hana.
Seðlabanki Íslands var og er undir sömu sök seldur og aðrir vestrænir seðlabankar. Hann brást mjög harkalega við þessari innfluttu verðbólgu og stýrivextir voru hækkaðir bratt og fóru hæst í 9,25 prósent. Þeir hafa lækkað hægar og í bili hefur vaxtalækkunarferlið stöðvast í 7,5 prósentum. Raunstýrivextirnir eru 3,4 prósent sem þýðir að raunvextir á t.d. óverðtryggðu húsnæðisláni á breytilegum vöxtum eru nú um 5,2 prósent vegna þess að nafnvextirnir eru 9,15 prósent.
Vel má færa rök fyrir því að stýrivaxtalækkanir Seðlabankans í Covid hafi verið of djarfar og vextir farið of lágt. Einnig má gagnrýna peningastefnu nefndina fyrir að hafa byrjað vaxtahækkunarferlið of seint. Þarna komum við aftur að þeim króníska vanda að peningastefnunefnd virðist einblína um of á það ástand sem er hverju sinni en vanrækir að horfa fram á veginn og reyna að átta sig á því hvert stefnir á næstu 12-18 mánuðum.
Þar komum við að séríslenskum vanda sem er verðtryggingin. Verðtryggingin hefur þau áhrif að vaxtatækið, sem seðlabankar almennt nota til að viðhalda verðlagsstöðugleika, er nær óvirkt hér á landi. Ekki aðeins það, heldur vinnur það beinlínis gegn virkni peningastefnunnar. Þegar seðlabankar hækka vexti er það gert í þeim tilgangi að gera útlán dýrari og draga úr peningamagni í umferð til að draga úr eftirspurn í hagkerfinu. Verðtryggð lán bjóða hins vegar upp á lægri greiðslubyrði en óverðtryggð og stýrivaxtahækkanir hafa ekki bein áhrif á vexti verðtryggðra lána. Þegar vextir hækka geta lántakendur því skuldbreytt yfir í verðtryggt og lækkað greiðslubyrði sína og aukið ráðstöfunartekjur. Þetta vinnur þvert gegn því sem Seðlabankinn er að reyna að gera með því að hækka vexti. Viðbrögð Seðlabanka Íslands hafa verið þau að taka miklu stærri vaxtaskref en tíðkast í öðrum löndum sem ekki eru með verðtryggingu á húsnæðislánum eða öðrum lánum til einstaklinga.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, kom inn á þennan vanda með mjög athyglisverðri aðsendri grein á Vísi í gær. Hvatti hann til þess að gengið yrði í að ýta verðtryggingunni út og hægt er að taka undir með honum að slíkt myndi leiða til mun gegnsærri og heilbrigðari fjármálamarkaði hér á landi en nú er.
Peningastefnunefnd viðurkennir nú að merkjanleg kólnun er í íslenska hagkerfinu. Fyrirtæki draga saman í starfsmannahaldi og framkvæmdir á húsnæðismarkaði dragast hratt saman. nefndin segir hins vegar ýmsa undirliggjandi þætti valda áhyggjum og nefnir sérstaklega kauphækkanir og viðvarandi eftirspurn í hagkerfinu.
Færa má sannfærandi rök fyrir því að hávaxtastefna Seðlabankans sé einmitt ein meginorsök þeirra þátta sem Seðlabankinn hefur áhyggjur af að standi undir viðvarandi verðbólgu. Háir vextir standa í vegi fyrir því að ungt fólk komist inn á fasteignamarkaðinn. Þeir valda því einnig að byggingarkostnaður nýrra íbúða er mun hærri en vera þyrfti. Vextir eru vitaskuld einn þeirra kostnaðarþátta sem verktakar verða að reikna inn í íbúðaverð. Háu vextirnir valda þannig hækkun húsnæðisverðs þrátt fyrir að í sömu andrá dragi þeir úr eftirspurn eftir húsnæði.
Raunar draga háir vextir Seðlabankans helst úr eftirspurn frá þeim hópi sem þarf nauðsynlega að kaupa sér húsnæði. Þeir hafa minni áhrif á þá sem líta á húsnæði sem fjárfestingu, efnameiri einstaklinga og lögaðila. Slíkir aðilar vega og meta arðsemi mismunandi eignaflokka og bera fasteignir saman við t.d. hlutabréf og skuldabréf. Undanfarin ár hafa fasteignir verið mun betri fjárfestingarkostur en hlutabréf og skuldabréf. Þannig hefur vaxtastefna Seðlabankans þrengt að fyrstu kaupendum og öðru venjuleg fólki úr öllum áttum í einu.
Þá má leiða líkur að því að vaxtahækkanir Seðlabankans hafi takmörkuð áhrif til að draga almennt úr eftirspurn í íslenska hagkerfinu einmitt vegna þess, sem nefnt er hér að ofan, að hægt er að létta greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur með því að skuldbreyta úr óverðtryggðu í verðtryggt.
Ekki má heldur gleyma því að fjármagnskostnaður er hluti af því sem framleiðendur, smásalar og aðrir verða að reikna inn í verðlag hjá sér. Háir vextir hafa því bein áhrif á verðlag á vöru og þjónustu hér á landi – til hækkunar. Sama gildir um launin. Þegar háir vextir valda hækkun á húsnæðisverði, hærri lántökukostnaði og verðhækkunum á vöru og þjónustu eykst þrýstingur á launahækkanir – það leiðir af sjálfu sér.
Þannig vinnur hávaxtastefna Seðlabankans í verðtryggðu umhverfi beint gegn því að hægt sé að lækka verðlag í landinu. Hættan er hins vegar sú, sérstaklega þegar horft er til þess að Seðlabankinn virðist ekki horfa fram á veginn við vaxtaákvarðanir sínar, að sú mjúka lending sem að er stefnt mistakist og úr verði mun harðari lending, jafnvel brotlending.
Í stórum dráttum bitnar hávaxtastefna Seðlabankans mjög harkalega á ungu fólki sem er að koma sér upp húsnæði og fjölskyldu. Það er ýmist mjög skuldsett og viðkvæmt fyrir háum vöxtum eða kemst ekki inn á fasteignamarkaðinn og er því ofurselt vanþróuðum og rándýrum leigumarkaði. Hávaxtastefnan er rekin á herðum barnafjölskyldna og felur í sér mikla eignatilfærslu til fjármálastofnana og hinna efnameiri.
Svo vitnað sé í Vilhjálm Birgisson, formann Verkalýðsfélags Akraness og Starfsgreinasambandsins, þá er leikkerfi Seðlabankans ekki að ganga upp. Þá grípa menn yfirleitt til þess ráðs að annaðhvort breyta um leikkerfi eða skipta um þjálfara.
Að óbreyttu er Seðlabanki Íslands fastur í vítahring verðtryggingar og eigin skammsýni. Afleiðingarnar eru raunverulegar fyrir almenning í landinu, ekki síst barnafjölskyldurnar sem þurfa að eignast húsnæði eða stækka við sig.