Í vikunni kom í ljós hvers vegna Bergþór Ólason sagði af sér sem þingflokksformaður Miðflokksins um síðustu helgi. Hann ætlar að bjóða sig fram til varaformanns flokksins.
Orðið á götunni er að vart hefði Bergþór tekið þessa ákvörðun öðruvísi en með bæði vitund og vilja Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, enda eru þeir nánir samstarfsmenn og í raun andlit Miðflokksins út á við.
Þess vegna kom nokkuð á óvart þegar Ingibjörg Davíðsdóttir tilkynnti í gærmorgun að hún myndi sækjast eftir varaformannsembættinu á komandi landsfundi. Sennilega veit hún vel að það embætti er eyrnamerkt Bergþóri. En vitaskuld er ekkert að því að tekist sé á um embætti í lýðræðislegum flokki.
Nokkru seinna í gærmorgun tilkynnti Snorri Másson að hann hefði afráðið að bjóða sig fram til varaformanns flokksins og því stefnir í áhugaverða kosningu um embættið að landsþinginu. Eða er það svo?
Orðið á götunni er að Ingibjörg og Snorri hafi bæði augastað á embættinu sem Bergþór sagði sig frá um síðustu helgi. Framboð þeirra til varaformanns nú séu öðrum þræði til að minna á sig, en Sigmundur Davíð hyggst kynna til sögunnar nýjan þingflokksformann í næstu viku.
Orðið á götunni er að Miðflokkurinn hugsi sér gott til glóðarinnar og að hafin sé hönnuð atburðarás til að stilla upp lýðræðisveislu í boði flokksins. Ingibjörg og Snorri þykja bæði vænlegir kostir í formennsku í þingflokknum en þar koma fleiri til greina. Sigríður Andersen er hokin af þingreynslu sem gæti þótt kostur fyrir formennsku í þingflokki. Þó er talið að annaðhvort Snorri eða Ingibjörg verði fyrir valinu.
Orðið á götunni er að líklegra sé að Sigmundur Davíð tilnefni Ingibjörgu sem þingflokksformann. Kemur þar tvennt til. Mikill kynjahalli er á forystu Miðflokksins og sem stendur er aðeins ein kona í stjórn flokksins. Þá er Ingibjörg með áralanga reynslu úr utanríkisþjónustunni en Snorri er nýgræðingur og ekki enn orðinn þrjátíu vetra. Það vinnur þó með Snorra að hann hefur verið ófeiminn við að tala gegn frelsi fólks til að skilgreina eigin kynvitund, nokkuð sem virðist falla vel í kramið hjá markhópi Miðflokksins, ekki síst sumum ungum körlum á ysta jaðri hægrisins. Það er því engan veginn sjálfgefið hver niðurstaðan verður með þingflokksformennskuna.
Á komandi landsþingi verður því að líkindum kosið milli Bergþórs og þess varaformannsframbjóðanda sem ekki hreppir þingflokksformennskuna. Niðurstaðan verður sú að Bergþór hlýtur örugga kosningu og Miðflokkurinn verður orðinn alvöru lýðræðisflokkur þar sem kosið er á milli fólks í forystuembætti. Allir græða nema mögulega sá sem tapar varaformannskjörinu.
Orðið á götunni er að þessi flétta sé til orðin vegna gagnrýni sem borið hefur á innan og utan flokksins um að Miðflokkurinn sé í raun ekki hefðbundinn stjórnmálaflokkur heldur eins konar fjölskyldufyrirtæki Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þar sem foringinn er bara einn og hann ræður. Mikilvægt sé að milda þessa ásjónu, sem magnaðist enn þegar Nanna Margrét Gunnlaugsdóttir, systir Sigmundar Davíðs, var kosin á þing fyrir flokkinn í kosningunum í nóvember á síðasta ári.